138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:28]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get auðvitað ekki svarað fyrir aðra en sjálfan mig en ég hef styrkst í andstöðu minni við málið. Allt sem komið hefur fram á síðustu vikum og mánuðum hefur verið með þeim hætti að það hefur styrkt mig í þeirri trú að þingið eigi að hafna því að veita ríkisábyrgð í þessu tilviki.

Nýjasta stóra málið — svo við víkjum burt frá einstökum þáttum í samskiptum ríkisstjórna og annars þess háttar en horfum á hvernig málið blasir við okkur í stóru línunum. Í stóru línunum er staða málsins sú núna að fyrir þinginu liggur frumvarp sem felur í sér að öryggisventlar og skilmálar sem voru settir í ríkisábyrgðarlögin í sumar eru ýmist útþynntir eða beinlínis felldir á brott. Þannig blasir þetta við okkur og staða okkar er því sú að við höfum gildandi lög sem ég og hv. þingmaður vorum ósáttir við en fólu þó í sér ákveðna skilmála og ákveðna fyrirvara við ríkisábyrgðina. Nú er verið að þynna þetta allt saman út og auðvitað getum við ekki fallist á það.

Hins vegar varðandi málsmeðferð liggur fyrir að það er gríðarlega mikilvægt að í þeim skrefum málsmeðferðarinnar sem eru eftir verði reynt að kalla eftir sem gleggstum upplýsingum. Það verði reynt að fá fram sem flest gögn þannig að hægt sé að taka upplýsta ákvörðun og þá þurfi ekki að deila um hvað sé satt og rétt í þessum efnum, hvort Dominique Strauss-Kahn sé að segja sannleikann, hvort Mark Flanagan sé að segja sannleikann, hvort ríkisstjórnir Noregs og Svíþjóðar séu að segja sannleikann eða hvort ríkisstjórn Íslands sé að segja sannleikann.