138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:35]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef varið rétt stjórnarandstöðunnar til að halda uppi málþófi. Það er réttur hennar. Málþóf er tvíeggjað sverð. Það eru tvær eggjar á því vopni og önnur snýr að þeim sem sveiflar vopninu. Það sem mér finnst hins vegar miður er það hvernig umræðan hefur þróast, hvernig orðfæri og orðbragð þingmanna hefur þróast. Mér finnst miður þegar hv. þingmenn tala, eins og kom fram bæði í frammíkalli og reyndar í andsvari áðan, og beinlínis segja að ráðherrar ljúgi. Mér finnst miður þegar hv. þingmenn láta ekki þar við sitja að tjá þá skoðun sína að ríkisstjórnin hafi ekki staðið sig vel. Það er þeim fullkomlega frjálst og menn geta fært rök fyrir því að ríkisstjórnin hafi ekki náð fram því sem ætlast var til, en að tala beinlínis eins og ríkisstjórnin sé samsett af þjóðníðingum (Gripið fram í: Það eru þín orð.) sem vilji (Gripið fram í: Þetta eru þín orð.) bókstaflega reyna að ná fram einhverjum samningum sem hún hefur ekki trú á að séu góðir fyrir þjóðina, það finnst mér miklu verra.

Af því að hv. þingmaður hefur vísað í ummæli mín frá 9. maí, kynni það að vera mögulegt að utanríkisráðherrann hefði tjáð ákveðna skoðun í vor, en ef hann yrði spurður aftur núna hefði hann aðra skoðun á aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins án þess að hann væri beinlínis sakaður um það eða tilefni væri til að ætla að hann hefði sagt ósatt í vor? Ég spyr hv. þingmann að því.

Síðan vil ég vekja eftirtekt hv. þingmanns á því að þegar hann talar um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn virðist hann gleyma því að inn í samninginn í nóvember í fyrra voru sett ákvæði sem beinlínis kölluðu á það að gengið væri frá þessu máli og það nánast tímasett, þó ekki í gadda slegið, áður en hægt væri að afgreiða tiltekin mál sem vörðuðu samskipti Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Bíð ég svo með að rekja fyrir hv. þingmanni hvað má beinlínis sjá í gögnum frá norrænu ríkisstjórnunum.