138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:41]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Mér finnst, hæstv. forseti, að hæstv. utanríkisráðherra sé svolítið að falla á eigin bragði (Gripið fram í: Það gerir hann oft.) þegar hann vísar til sameiginlegu yfirlýsingarinnar frá því í nóvember á síðasta ári. Þar vísar hann til að um einhverja tengingu sé að ræða en svo segir hann með skýrum hætti í þessu tilvitnaða viðtali í frétt Morgunblaðsins(Utanrrh: Ég sagði ...) viðræðurnar við Breta og Hollendinga séu tvíhliða og alls ekki í verkahring sjóðsins þannig að á einhverjum tímapunkti hefur hæstv. utanríkisráðherra líka skjátlast í þessu máli. En hins vegar í tilefni af ummælum hæstv. utanríkisráðherra um þessi gögn þá ætla ég ekki að þræta við hæstv. utanríkisráðherra um hvað menn hafa lesið í þeim. Ég kynnti mér öll þau gögn sem mér hafa verið aðgengileg, ég kynnti mér þau í sumar og hef kynnt mér þau í haust. Ég verð að játa að skýrar yfirlýsingar af hálfu ríkisstjórna Noregs og Svíþjóðar hafa ekki komið fyrir þingið. Við vissum að þetta var rætt (Gripið fram í.) í umræðum á sænska og norska þinginu, alla vega því sænska. Ég minnist þess að hafa séð þar texta sem ég meira að segja gerði athugasemdir við í þingsal og spurði hæstv. forsætisráðherra út í vegna þess að þar virtist vera um gríðarlegan misskilning að ræða sem réð ákvarðanatöku í sænska þinginu. Misskilning sem augljóslega fólst í því að á þeim tímapunkti virtust sænskir þingmenn og jafnvel ráðherrar í ríkisstjórninni halda að lán Norðurlandanna mundu renna beint til að borga Icesave. Það var tengingin sem var fyrir hendi í þeirra huga miðað við þann texta sem lá fyrir. (Utanrrh.: Þetta er þveröfugt ...) En þetta kom fram í ályktun sænska (Forseti hringir.) þingsins frá því í byrjun júlí og spurning mín þá til hæstv. forsætisráðherra var: Hafa íslensk stjórnvöld alveg klikkað (Forseti hringir.) á því að kynna málstað okkar og stöðu málsins erlendis?