138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson lauk ræðu sinni á því að velta því upp hvort íslensk stjórnvöld hefðu klikkað á því að kynna stöðu Íslands erlendis. Það er löngu komið í ljós að þar brugðust íslensk stjórnvöld og eru enn að bregðast mjög alvarlega í því að halda merki Íslands á lofti erlendis.

Hæstv. utanríkisráðherra kallaði fram í rétt áðan nafn utanríkisráðherra Noregs, Jonas Gahr Störe. Sá ágæti maður sagði í norska þinginu ekki alls fyrir löngu að lánið til Íslands hefði legið fyrir klárt síðan 28. október. Allt frá 28. október eða seinni hluta október hefði íslenska ríkinu staðið til boða þetta lán frá Noregi, greinilega óháð þessu Icesave-máli ef eitthvað er að marka þetta. Við höfum alltaf haldið því fram, frú forseti, að þessi grýla væri ekki til staðar varðandi lánin og það er að koma á daginn.

Ég ætla að byrja þessa ræðu mína á gögnum og upplýsingum sem nú eru að koma fram og hafa verið birt á síðunni Wikileaks. Það er greinilega margt sem lekur inn á þá síðu. Hér eru tölvupóstar og gögn sem eru í þessum leynimöppum sem þingmenn hafa haft aðgang að. Aðstoðarmaður fjármálaráðherra hefur lýst því yfir í fjölmiðlum að þetta sé ekkert leyndarmál og ég spyr þá: Hvers vegna í ósköpunum eru þá þessi gögn í leynimöppu sem þingmenn þurfa að skoða í lokuðu herbergi? Ef þetta var ekkert leyndarmál, hvers vegna eru þau þá þar? Jú, frú forseti, þau eru þar vegna þess að þetta eru of viðkvæm gögn til að ríkisstjórnin og ríkisvaldið mundi þola að þau færu í umræðuna. Þessi tölvupóstur staðfestir t.d. þau óheilindi sem núverandi ríkisstjórn eða stjórnarflokkar hafa viðhaft í þessu máli, það er einfaldlega þannig.

Hvað varðar þann stjórnmálaflokk sem undirritaður er í og situr á þingi fyrir þá er vitanlega algerlega óþolandi að sjá hvernig Vinstri græn og Samfylkingin, Icesave-flokkarnir, fóru á bak við Framsóknarflokkinn þegar hann studdi minnihlutaríkisstjórnina fyrr á þessu ári. Ljóst er að búið var að teikna upp samkomulag um Icesave, samkomulagið lá fyrir og búið var að teikna það upp, fyrir kosningar. Það mátti hins vegar ekki koma í ljós fyrir kosningar því það hefði getað farið illa, og hefði farið illa, með þá flokka sem fengu umboð frá þjóðinni til að starfa saman og starfa nú saman og hafa myndað ríkisstjórn.

Það er alveg ljóst, frú forseti, samkvæmt þessum tölvupóstssamskiptum, að menn vildu leyna þjóðina því tilboði eða þeim upplýsingum og þeim hugmyndum sem þá voru uppi. Það er ekki hægt að lesa þetta neitt öðruvísi. Eflaust mun einhver segja að Framsóknarflokkurinn sé bara sár og svekktur yfir því hvernig þetta fór allt saman. Það getur vel verið. En það er óþolandi þegar markvisst er verið að leyna gögnum og leyna upplýsingum fyrir fólki sem hér er klárlega verið að gera.

Í þessum tölvupóstssamskiptum, sem ég ætla að leyfa mér að vitna í, fyrst þau eru orðin opinber, því ekki mátti ég gera það meðan þau voru í möppunni, það er alveg ljóst. En ég las þessa tölvupósta líka þar. Í texta þeim er núverandi aðstoðarmaður fjármálaráðherra ritar kemur fram að það sé afar slæmt ef þetta fréttist fyrir kosningar, það sé mjög slæmt, geti haft vond áhrif á kosningarnar og jafnvel þó að þetta komi í ljós stuttu eftir kosningar sé það líka mjög slæmt. Síðan endar sá ágæti maður tölvupóst sinn á því að betra sé að eiga samskipti við sig á einkatölvupósti. Af hverju ætli það sé, frú forseti?

Í svari fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er ákveðin mótsögn. Það má lesa í upphafi að ganga verði frá samkomulagi út af lánveitingum sjóðsins því að Bretar og Hollendingar séu að þrýsta þar á. Síðan kemur reyndar fram að sjóðurinn geti ekki blandað sér inn í lausn á þessu máli. Við þekkjum svo yfirlýsingar framkvæmdastjóra sjóðsins um að málin séu ótengd, Icesave og lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Frú forseti. Stofnunin, innheimtustofnun Breta og Hollendinga, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, er rúinn öllu trausti og trúverðugleika. Það er löngu orðið ljóst.

Eitt er býsna merkilegt í svari Marks Flanagans. Hann er þar að tala um Parísarklúbbinn svonefnda og þau lánakjör sem þar kynnu að bjóðast. Þau kjör eru sláandi lík. Það sem virðist vera uppi á borðinu í þessum tölvupósti og það sem Íslendingar fengu á endanum, það er sláandi mikil samlíking þarna á milli. Þá veltir maður fyrir sér orðum hæstv. fjármálaráðherra í þingsal þegar verið var að spyrja þingmenn hvort þeir vildu virkilega ganga í Parísarklúbbinn og fá þau kjör sem þar væru í boði. Ég fæ ekki betur séð en þarna séu mjög svipuð kjör á ferðinni. Þetta mun örugglega verða skýrt og er nauðsynlegt að skýra, frú forseti, því að það er algerlega óþolandi að búa við þetta.

Maður veltir því fyrir sér af hverju þessi leynd hvíli yfir þessu þegar þeir sem hlut eiga að máli koma svo fram og segja að þetta sé ekkert leyndarmál. Ég ætla að beina því til hæstv. forseta að öll þau gögn sem eru í leynimöppunni á nefndasviði verði gerð opinber. Ég krefst þess að þau verði gerði opinber. Þar er svo sannarlega að finna pappíra sem ættu að koma fyrir augu almennings, fundargerðir, minnisblöð og ýmislegt annað. Í ljósi þess að gögnin í umræddri möppu, þar á meðal þessir tölvupóstar, fá þessa einkunn hjá þeim sem sömdu, hjá þeim sem gerðu þetta ólukkans samkomulag, hjá þeim sem verja það — þegar þeir svo segja að þetta sé ekkert leyndarmál á vitanlega að opinbera öll þau gögn sem í möppunni eru.

Það er líklega einna alvarlegast í þessu að mér sýnist á öllu að ríkisstjórnin, hæstv. fjármálaráðherra — því miður er hann ekki hér — hafi vísvitandi verið að leyna þingið þessum upplýsingum eða leyna þjóðina því, koma í veg fyrir að um þær verði fjallað. Það er mjög alvarlegt ef svo er. Ég held, frú forseti, að þingið ætti að beita sér fyrir því að þessi mál verði rannsökuð ofan í kjölinn, hvernig standi á því að upplýsingar sem þessar, sem klárlega eiga rétt á að koma fyrir augu almennings, séu stimplaðar sem trúnaðarmál og settar í þessa blessuðu möppu sem svo oft er talað um.

Frú forseti. Enn á ný koma fram ný gögn eða nýja upplýsingar í þessu máli. Enn á ný tekur þetta ólukkans mál á sig nýja mynd. Því er full ástæða til þess að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir hafi forgöngu um það, fari fremst í flokki með það, að segja við þjóðina og segja við þingmenn að málið sé vanbúið. Það þurfi að velta við fleiri steinum. (Gripið fram í: … kosningar …) Já, frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni sem hér kallar fram í. Stjórnarflokkarnir ættu að geta verið rólegir því að væntanlega eru kosningar ekki á næsta leiti. Því ætti að vera hægt að opinbera þau gögn sem ekki mátti opinbera fyrir kosningar, eins og tölvupóstinn sem lekið hefur út, þannig að þjóðin fái rétta mynd af málinu. Ég held að það sé mjög mikilvægt og ég beini því aftur til forseta að beita sér fyrir því að þessi mappa verði gerð opinber með húð og hári, allt sem í henni er. Það er alveg skilyrðislaus krafa og ekkert í henni réttlætir það að yfir þessu sé leynd, ekki neitt.

Frú forseti. Þetta mál er alltaf að taka á sig nýjar myndir, eins og ég sagði áðan. Það er óásættanlegt að Alþingi afgreiði það eins og það er. Ekki er nóg með að fjölmörgum efnislegum spurningum sé enn ósvarað heldur er líka komið í ljós — er öllu heldur orðið opinbert, það hefur legið fyrir augum þingmanna — hvaða hugur var hjá stjórnvöldum í þessu máli.