138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:54]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv þm. Gunnari Braga Sveinssyni. Það er algerlega óásættanlegt að afgreiða Icesave-málið eins og það liggur fyrir þinginu. Ég vil líka taka undir það sem hv. þingmaður segir um leyndu skjölin úti í Austurstræti, ríkisstjórnin á auðvitað að hafa frumkvæði að því að upplýsa almenning og gera gögnin opinber. Það er ekkert viðkvæmt lengur í þeim gögnum og ekkert sem á að koma á óvart. Ríkisstjórnin á að hafa frumkvæði að því að opinbera þessar upplýsingar.

Ég vil hins vegar spyrja hv. þingmann — í ljósi hinna víðfrægu tölvupóstssamskipta þáverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, Indriða H. Þorlákssonar, sem oft er kallaður yfirfjármálaráðherra — af hverju hann telji að svo mikil leynd hafi hvílt yfir þessum tölvupósti. Ég skil sérstaklega ergelsi og reiði hv. þingmanns því að mér finnst þeir hafa farið á bak við Framsóknarflokkinn sem studdi minnihlutastjórnina. Við getum tekið aðra umræðu um það, það voru náttúrlega gríðarleg mistök.

Framkoma forustumanna ríkisstjórnarflokkanna einkennist ekki af heilindum heldur er miklu frekar verið að leyna Framsóknarflokkinn, sem studdi minnihlutastjórnina, mjög mikilsverðum atriðum. Af hverju er verið að leyna Framsóknarflokkinn og um leið þjóðina þessum upplýsingum? Af hverju telur Indriði H. Þorláksson að það sé pólitískt ómögulegt að auka við skuldastöðu ríkissjóðs fyrir kosningar sem fari fram 25. apríl? Af hverju þetta einkennilega orðalag?