138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[15:37]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Staða ungs fólks sem hefur verið atvinnulaust í langan tíma er satt að segja alveg ótrúlega dapurleg. Þau eru afskaplega vonlaus, vonlítil, búin að vera afskipt lengi og hlutfallið er alveg hrikalegt þegar horft er á skólagöngu. Af þeim sem eru undir þrítugu og hafa verið atvinnulaus í langan tíma eru 77,4% einungis með grunnskólamenntun að baki. Í þeim hópi er hlutfall ungmenna með ýmiss konar atferlisröskun, með ADHD-greiningu, óeðlilega hátt. Þetta segir okkur að þarna er um alvarlegan menntunarvanda að ræða. Það sem við hyggjumst gera til að leysa úr þessu máli er að útvíkka enn frekar þær heimildir sem Vinnumálastofnun hefur nú þegar til gerðar á námssamningum við þá sem eiga stutt eftir í framhaldsskólanámi. Við nýtum það fjármagn sem sparast í kerfinu að fullu og öllu leyti fyrir úrræði, til að hjálpa þessum ungmennum inn í skólaúrræði við hæfi hvers og eins og látum peninga fylgja hverjum og einum, þannig að ekki sé hægt að segja að ekki séu til peningar til að taka við viðkomandi í framhaldsskólakerfinu, eða einhvers staðar annars staðar. Peningar geta þannig fylgt í ákveðinn tíma með viðkomandi inn í annað kerfi til þess að greiða fyrir fólki út úr atvinnuleysi sem er sannarlega versti staðurinn til að vera á fyrir þessi ungmenni.

Við þurfum líka að taka á námslánakerfinu í heild. Mér finnst það t.d. ekki eðlilegt að ungt fólk sem er með börn á framfæri og hefur ekki lokið framhaldsskólanámi skuli ekki geta fengið lán úr Lánasjóði íslenskra námsmanna. Mér finnst fáránlegt að það fólk sé látið sækja annars vegar um félagslega aðstoð frá sveitarfélögum eða að það sé nauðbeygt til að vera á atvinnuleysisbótum.