138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[16:32]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf):

Frú forseti. Þetta er stórt og umfangsmikið mál eins og fram hefur komið sem við höfum nú til umræðu. Fyrst vil ég tala örlítið um þann þátt þess sem snýr að svikum úr bótakerfinu og verð að fá að segja að í hugum okkar jafnaðarmanna hlýtur það að vera eitt mesta eitur í beinum sem fyrirfinnst að fólk skuli misnota það kerfi sem við leggjum svo mikla áherslu á að sé til staðar fyrir þá sem raunverulega þurfa á því að halda.

Frú forseti. Það sem ég vil tala mest um í dag er mál sem ég tel að sé trúlega það stærsta eða eitt af þeim allra stærstu sem Íslendingar þurfa að taka vel á sem eru afleiðingar af þessari kreppu og hruninu sem olli henni, þ.e. atvinnuleysi ungs fólks, og ég hef um alllangan tíma reynt að fá utandagskrárumræðu um það mál en það er svona að tilheyra þingflokki hæstv. félagsmálaráðherra með það og gott að við erum farin að tala um þetta mál núna.

Eins og fram hefur komið eru um 2.500 manns í þeim hópi sem ganga atvinnulausir og trúlega er þessi tala miklu hærri eins og ég kem inn á á eftir. Það sem getur gerst, frú forseti, er að maður festist í því að vera atvinnulaus, af því að maður hefur ekki náð að sinna neinni vinnu áður, ekki náð að öðlast sjálfstraust með því að vera í vinnu og finna að maður getur sinnt henni og tekur það sjálfstraust með sér inn í lífið, inn í önnur störf, inn í leit að störfum o.s.frv., maður hefur ekki enn þá á neinu að byggja. Það sem getur gerst er að það verði bara þannig um alla framtíð, að maður hefur aldrei haft á neinu að byggja sem gefur manni sjálfstraust inn á vinnumarkaðinn og endar á því að eyðileggja mann.

Ég veit að við höfum trúlega öll átt einhver þau tímabil í lífi okkar að við höfum átt erfitt með að hífa okkur upp og núna er stór hópur á Íslandi sem akkúrat er á slíku tímabili og þegar það er þannig, frú forseti, ber okkur skylda til að koma til móts við þann hóp. Ég legg áherslu á að við höfum skyldu til að bregðast við atvinnuleysi þessa hóps og ef við gerum það ekki erum við að bregðast. Þær aðgerðir sem hæstv. félagsmálaráðherra hefur boðað eru því einfaldlega til að bregðast við þeirri samfélagslegu skyldu sem við berum.

Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt, frú forseti, að hér sé um einstaklingsbundna nálgun að ræða og eins og hæstv. heilbrigðisráðherra hefur komið inn á verður auðvitað nokkurt fé að fylgja þeim aðgerðum. Það verður ekki farið út í þær nema einhver tilkostnaður fylgi til þess að við getum farið í þær fjölbreyttu aðgerðir sem kallað hefur verið eftir í dag, og ég er sammála um að svo þurfi að vera, þ.e. að hverjum einstaklingi verði mætt á sínum forsendum. En þegar ég segi fjölbreytni, vil ég samt ítreka það að mér finnst að þegar kemur að yngsta aldurshópnum þar sem menntunarstigið er lágt, eigi áherslan á að vera á menntun, á einhvers konar nám. Það þarf ekki endilega að vera hefðbundið bóknám í framhaldsskólum, af því að allt nám á meta jafnt og eins og fram hefur komið hefur það kannski ekki alltaf verið gert á Íslandi. Ég veit reyndar að nokkur vinna hefur farið fram í menntamálaráðuneytinu í langan tíma og þar er verið að gera ágætlega góða hluti en við erum ekki enn þá komin á þann stað, held ég, frú forseti, að allt nám sé metið að jöfnum verðleikum á Íslandi.

Ég verð að segja að mér líst vel á hugmyndir um lýðháskóla sem Ungmennafélag Íslands m.a. hefur kynnt og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson minntist á áðan. Ég held að þar værum við að taka inn í íslenskt menntakerfi nám námsins vegna, sem hefur kannski aðeins vantað upp á að sé hugsunin á bak við okkar menntakerfi, og komum til móts við það að fólk geti fundið sjálft sig á sínum forsendum, fundið út hvar áhugasviðin liggja, hvar hæfileikarnir eru o.s.frv. og öðlast það sjálfstæði sem ég talaði um áðan að maður þurfi til að geta sótt sér nýja vinnu þegar erfitt er að finna hana.

Ég vil leggja mikla áherslu á það að maður er manneskja þegar verið er að koma til móts við mann sem atvinnulaust ungmenni. Það á ekki að koma með einhvers konar boð að ofan sem ganga yfir alla svo manni finnist maður vera hluti af einhverri línu þar sem er verið að reyna að láta mann „gera eitthvað“ eins og Bjartur í Sumarhúsum t.d. gerði með sín börn. Þetta þarf að vera þannig að komið sé fram við mann af virðingu og að aðgerðirnar séu eitthvað sem manni finnst þess virði að taka þátt í.

Frú forseti. Annað sem ég vildi tala um og finnst gríðarlega mikilvægt og vil leggja mikla áherslu á er mál sem kemur til hliðar við það frumvarp sem við ræðum hér af því að þetta frumvarp, frú forseti, snýr að ríkinu og Vinnumálastofnun. Það sem mér hefur fundist vanta upp á er meiri umræða um tengslin á milli ríkis og sveitarfélaga af því að sveitarfélögin hafa mikla reynslu af því að glíma við atvinnuleysi ungs fólks sérstaklega og þar hafa verið gerðir góðir hlutir í gegnum tíðina. Ég nefni dæmi eins og Hitt húsið í Reykjavík sem hefur verið fyrirmyndin að sams konar félagsmiðstöðvum víða annars staðar á landinu. Góðir hlutir hafa verið gerðir þar og þarna er komin mikil reynsla, góð verkefni hafa komið út úr þessu kerfi, og mér sýnist sem svo að samþætta þurfi aðgerðirnar á milli ríkis og sveitarfélaga. Við sjáum líka t.d. að Reykjavíkurborg hefur nýlega, að frumkvæði flokkssystur minnar Oddnýjar Sturludóttur, tekið það frumkvæði að ganga sérstaklega í atvinnumál unga fólksins og það er vissulega frábært. En það sem ég hef áhyggjur af er að eitthvað detti þarna einhvern veginn á milli. Ég mundi vilja sjá að í þeirri vinnu sem nú fer fram í félags- og tryggingamálaráðuneytinu eigi sveitarfélögin góða aðkomu og við getum safnað saman þeirri góðu reynslu sem er að finna úti í sveitarfélögunum. Nærþjónustan og nálægðin við fólk er þar vissulega oft meiri en hjá ríkinu og ég held að það skipti miklu máli að nýta þá reynslu. Og eins og ég nefndi áðan eru trúlega fleiri á atvinnuleysisskrá hjá yngsta aldurshópnum en þeir 2.500 sem iðulega er talað um af því að sveitarfélögin taka á móti því fólki sem ekki á rétt úr atvinnuleysistryggingakerfinu. Ég held að þetta sé talsvert stór hópur þótt erfitt sé að festa hönd á það hversu stór hann er nákvæmlega.

Frú forseti. Þetta fer að styttast hjá okkur en margt gott hefur komið fram í umræðunni. Eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson benti á þarf sérstaklega að huga að rétti námsmanna, af því að réttur námsmanna gagnvart almannatryggingakerfinu hefur oft verið með ýmsu móti, þeir hafa dottið á milli t.d. í fæðingarorlofskerfinu o.s.frv. Við þurfum því að huga sérstaklega vel að þessum hópi. Svo var rætt hér um framhaldsfræðslu og þá vil ég leiðrétta þann misskilning að ekki sé búið að kynna frumvarp um framhaldsfræðslu. Það var gert um kl. 11 á föstudagskvöldið og sat ég þá umræðu og ég hlakka til að ræða það frumvarp meira í menntamálanefnd. Að lokum vil ég segja að mér fannst hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson koma með margar ágætar ábendingar við einstakar greinar þessa frumvarps. Ég hlakka til að fara yfir málið sem væntanlegur varamaður í félags- og tryggingamálanefnd á næstu dögum, af því að það skiptir öllu máli, frú forseti, að okkur takist vel upp hér af því að nú reynir af alvöru á velferðarkerfi okkar.