138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[17:07]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir bandormi sem er frumvarp um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð, lögum um Ábyrgðasjóð launa, lögum um fæðingar- og foreldraorlof, lögum um málefni aldraðra og lögum um húsnæðismál, með síðari breytingum.

Þetta frumvarp er lagt fram samhliða frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2010 þar sem stefnt er að því að draga verulega saman útgjöld ríkisins. Þær lagabreytingar sem ég mæli fyrir eru liðir í því að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum. Fyrirhugaðar lagabreytingar snúast einnig um ýmsar endurbætur á gildandi löggjöf, m.a. til að stuðla að betri lagaframkvæmd og skýrari réttarstöðu fólks þegar taka þarf á ágreiningsmálum. Þá eru lagðar til lagabreytingar sem miða að því að taka fyrstu skrefin í átt að heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu.

Ég nefni einnig sérstaklega breytingar sem ráðgerðar eru til að stuðla að nauðsynlegri uppbyggingu á stofnanaþjónustu fyrir aldraða. Annars vegar er um að ræða tímabundna heimild til Framkvæmdasjóðs aldraðra til að standa straum af rekstrarkostnaði 60 nýrra hjúkrunarrýma á árunum 2012–2013 og hins vegar lagabreytingu sem heimilar Íbúðalánasjóði að lána sveitarfélögum fyrir kostnaði við framkvæmdir vegna uppbyggingar hjúkrunarrýma. Að óbreyttu væru engar framkvæmdir mögulegar á þessu sviði á næstu árum, þrátt fyrir mikla þörf, en gangi fyrirhugaðar lagabreytingar eftir getum við haldið áfram nauðsynlegri uppbyggingu hjúkrunarrýma sem er afar brýnt. Það er ekki síður mikilvægt að nýta það lag sem nú er í atvinnulífinu þegar atvinnuleysi er umtalsvert og líkur á að hagstæð tilboð náist í því byggingarátaki.

Virðulegi forseti. Það er þungbært að vera staddur í þeim sporum að þurfa að mæla fyrir aðgerðum sem hafa áhrif til kjararýrnunar hjá hópum fólks þar sem margir eru fyrir með sáralítið handa á milli og hafa ekki valið sér örlög sín.

Í tíð núverandi hæstv. forsætisráðherra í félagsmálaráðuneytinu árið 2007 hófum við verulegar úrbætur á kjörum aldraðra og öryrkja eftir langt kyrrstöðutímabil. Eftir það átak höfum við náð 42% hækkun bóta hjá þeim lífeyrisþegum sem ekki hafa annað sér til framfærslu en bætur almannatrygginga. Við höfum sem þjóð eytt um efni fram á undanförnum árum og við okkur blasir það tröllaukna verkefni í ríkisútgjöldum að brúa bil sem er svo mikið að okkur vantar 1 krónu af hverjum 5. Og þrátt fyrir að við höfum lagt okkur fram um að stilla aðhaldskröfu á velferðarkerfið í hóf verður ekki undan því komist að grípa til aðhaldsaðgerða á því sviði líka. Ég vil einungis nefna að þrátt fyrir þetta háa aðhaldsstig hefur okkur tekist að halda bótum þeirra sem ekki hafa annað en bætur almannatrygginga sér til framfærslu algjörlega óskertum og þannig njóta þeir til fulls þeirrar 42% hækkunar sem orðið hefur frá árinu 2007. Okkur hefur líka tekist innan félagsmálaráðuneytisins að halda málaflokki fatlaðra algjörlega ósnertum gagnvart sparnaðarkröfu á yfirstandandi ári og á næsta ári ætlum við sparnað í þeim málaflokki einungis um 3,3% en aðrir málaflokkar ráðuneytisins munu mæta þyngri aðhaldskröfu til að brúa það bil.

Fyrirhugaðar breytingar á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð eru í 13 greinum. Í aðhaldsaðgerðum vegur þungt að bætur almannatrygginga verða ekki hækkaðar með verðlagshækkunum um áramót og sömuleiðis verða meðlagsgreiðslur óbreyttar frá því sem nú er. Mikilvæg breyting var gerð í september í fyrra með setningu reglugerðar um lágmarksframfærslutryggingu til að bæta stöðu þeirra sem fjárhagslega voru verst settir í hópi lífeyrisþega. Fjárhæð framfærslutryggingarinnar var hækkuð umtalsvert um síðustu áramót og miðast nú við 180.000 kr. hjá þeim sem búa einir en 153.500 hjá öðrum. Í þessu frumvarpi er miðað við að festa lágmarksframfærslutrygginguna í sessi með því að leiða hana í lög.

Um alllangt skeið hefur verið unnið að heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins og skilaði verkefnisstjórn sem fjallað hefur um málið skýrslu um nýskipan almannatrygginga í október sl. Stefnt er að því að leggja fram frumvarp á komandi vorþingi sem mun að verulegu leyti byggja á skýrslunni. Engu að síður eru hér lagðar til breytingar á almannatryggingalöggjöfinni sem ekki er ráðlegt að bíða með þar til heildarendurskoðun hennar fer fram.

Í fyrsta lagi er valdsvið úrskurðarnefndar um almannatryggingar rýmkað þannig að hlutverk hennar verður einnig að úrskurða um aðrar greiðslur en bætur samkvæmt almannatryggingalögum. Þetta eru t.d. meðlagsgreiðslur og mál sem rísa varðandi endurkröfurétt og innheimtu ofgreiddra bóta á grundvelli almannatryggingalaga og laga um félagslega aðstoð. Til þessa hefur nefndin þurft að vísa frá málum sem þessum og hefur það valdið kærendum óþægindum og óvissu, auk þess að standa leiðbeiningarskyldu Tryggingastofnunar ríkisins fyrir þrifum. Með áformaðri lagabreytingu eykst réttaröryggi borgaranna sem geta borið þessi ágreiningsefni undir sjálfstæða og óháða úrskurðarnefnd. Búist er við að þetta hafi í för með sér fjölgun kærumála sem fara fyrir úrskurðarnefndina og því er hér lagt til að hámarksfrestur hennar til að kveða upp úrskurði verði lengdur úr tveimur mánuðum í þrjá.

Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á innheimtu ofgreiddra bóta í almannatryggingakerfinu til einföldunar á innheimtuferlinu og til að draga úr innheimtukostnaði sem fellur á skuldara láti hann hjá líða að endurgreiða Tryggingastofnun ofgreiddar bætur. Úrskurðir úrskurðarnefndar almannatrygginga um endurkröfur ofgreiddra bóta verða aðfararhæfir og sömuleiðis ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um sama efni. Hér er fyrst og fremst um að ræða skuldara sem hafa fengið ofgreiddar bætur þar sem tekjur þeirra hafa reynst hærri en þeir gerðu ráð fyrir í tekjuáætlunum sínum og hafa nú misst bætur vegna tekna sinna og ekki sinnt innheimtutilraunum Tryggingastofnunar. Þá er lagt til að heimilt verði að fresta greiðslu bóta og greiða þær í einu lagi þegar álagning skattyfirvalda á opinberum gjöldum liggur fyrir. Þetta verður aðeins gert ef umsækjandi eða bótaþegi óskar sjálfur eftir því. Er þetta gert til að draga úr fjölda tilvika þar sem bætur eru vangreiddar eða ofgreiddar en ekki síður til að einfalda framkvæmd Tryggingastofnunar við greiðslu tekjutengdra bóta.

Í þriðja lagi er lagt til að aldursviðmið örorkulífeyris verði hækkað úr 16 ára aldri í 18 ára aldur til samræmis við lögræðislög þannig að örorkubætur nái ekki til ófjárráða einstaklinga. Þessi breyting er eðlileg þegar horft er til þess að örorkustyrkur er veittur einstaklingum frá 18 ára aldri og umönnunargreiðslur eru greiddar vegna barna til 18 ára aldurs. Brögð hafa verið að því að ungmenni hafi fengið greiddan örorkulífeyri samtímis því að foreldrar þeirra hafa fengið umönnunargreiðslur og mun lagabreytingin koma í veg fyrir slíkar tvígreiðslur sem ekki eru heimilar samkvæmt lögunum. Áætlað er að þessi breyting aldursviðmiða lækki útgjöld til örorkulífeyris um 90 millj. kr. á ári en á móti er reiknað með að umönnunargreiðslur aukist um 30 millj. kr. Ég vil þó sérstaklega taka fram að breytingin mun ekki ná til þeirra sem þegar fá greiddan örorkulífeyri og ekki hafa náð 18 ára aldri, þeir einstaklingar halda greiðslum sínum óbreyttum.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að bráðabirgðaákvæði um frítekjumark vegna atvinnutekna öryrkja við útreikning tekjutryggingar verði óbreytt til loka næsta árs, þ.e. sem svarar tæpum 110.000 kr. á mánuði. Markmið ákvæðisins er að stuðla að aukinni atvinnuþátttöku öryrkja sem í ljósi efnahagsástandsins er mikilvægara nú en nokkru sinni.

Samkvæmt gildandi lögum um félagslega aðstoð getur Tryggingastofnun ríkisins greitt barnalífeyri vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmennis á aldrinum 18–20 ára ef annað foreldri eða bæði eru látin eða ef annað þeirra eða bæði eru elli- eða örorkulífeyrisþegar. Sama gildir ef ekki er hægt að framfylgja úrskurðum sýslumanns um greiðslu foreldris á framlagi til menntunar eða starfsþjálfunar. Í tilvikum sem þessum hefur aðeins verið greiddur einfaldur barnalífeyrir. Það fyrirkomulag hefur falið í sér mismunun þar sem önnur ungmenni á aldrinum 18–20 ára hafa samtímis getað fengið barnalífeyri vegna náms samhliða menntunarframlagi. Í frumvarpinu sem hér er mælt fyrir er lögð til breyting til að jafna stöðu ungmenna að þessu leyti þannig að heimilt verði að greiða tvöfaldan barnalífeyri í umræddum tilvikum, t.d. ef báðir foreldrar eru öryrkjar. Áætlað er að útgjöld ríkissjóðs aukist um 24 millj. kr. vegna þessa.

Áform um breytingar á lögum um fæðingarorlof hafa verið mikið til umræðu að undanförnu og skoðanir skiptar um málið. Í frumvarpinu er lagt til að réttur foreldra til fæðingarorlofs vegna fæðingar barns, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur verði áfram níu mánuðir alls, líkt og verið hefur, þannig að hvort foreldri eigi sjálfstæðan þriggja mánaða rétt auk þriggja mánaða sem þau eiga sameiginlega. Aftur á móti er lagt til að greiðslum vegna þriðja mánaðarins sem foreldrar eiga sameiginlega verði frestað þar til barnið nær þriggja ára aldri eða þar til þrjú ár eru liðin frá því að barn kom inn á heimilið ef um frumættleiðingu eða fóstur er að ræða. Gert er ráð fyrir að foreldrar nýti rétt til töku þessa mánaðar einhvern tímann á næstu 24 mánuðum þar á eftir. Ef foreldrar kjósa geta þeir tekið alla níu mánuðina á fyrstu 36 mánuðum eftir fæðingu barns, ættleiðingu þess eða töku í fóstur. Þeim er þá heimilt að fá fæðingarorlofsgreiðslum dreift á níu mánuði í stað átta mánaða og verða mánaðarlegar greiðslur þá lægri sem því nemur. Áhersla skal lögð á að hér er um tímabundnar aðgerðir að ræða þar sem markmiðið er að taka aftur upp óbreyttar greiðslur um leið og aðstæður í ríkisfjármálum leyfa. Á sama hátt er lagt til að greiðsla fæðingarstyrks fyrir einn mánuð af sameiginlegum rétti foreldra frestist þar til barnið nær þriggja ára aldri eða um 36 mánuði frá því að barn kom inn á heimili ef um frumættleiðingu eða varanlegt fóstur er að ræða.

Það verður að segjast sem er að sú tillaga að breytingu á lögum um foreldra- og fæðingarorlof sem hér er lögð til er niðurstaða samráðs í ríkisstjórn og við þingflokka. Ég hafði áður lagt til breytingu sem fól í sér lækkun á hámarksgreiðslum en gerði ráð fyrir að lágtekjufólki væri hlíft og alveg sérstaklega einstæðum mæðrum sem hefðu verið ósnortnar samkvæmt þeim breytingartillögum. Að óbreyttu er hætta á að áformaðar lagabreytingar komi einstæðum foreldrum og börnum þeirra verst, auk þess sem þessi leið kann að kalla á útgjaldaauka fyrir sveitarfélögin. Mikilvægt er að kanna það til hlítar. Þá ber þess að geta að hér er auðvitað ekki um raunverulegan sparnað að ræða, heldur útgjaldafrestun. Sú leið sem ég lagði til hefur hins vegar líka augljósan annmarka, með henni kann að draga verulega úr líkum á að tekjuhærra foreldrið — sem oftast er karlinn — nýti rétt til töku fæðingarorlofs. Með því væri auðvitað vegið að hinum jafnréttislega grunnþætti fæðingarorlofsins. Því miður eru engir gallalausir kostir í stöðunni en ég legg áherslu á að þetta mál verði skoðað gaumgæfilega í meðförum þings og án fyrir fram gefinnar niðurstöðu. Það er mikilvægt að fara vandlega yfir kosti og kanna einnig til hlítar hver grunnkrafa fjárveitingavaldsins um aðhaldsstig er í ljósi þess að sá skilningur hefur orðið við gerð þessa frumvarps að mögulegt sé að fresta að hluta til framkvæmd aðhaldsaðgerðanna frekar en að ná fram sparnaði að fullu og öllu leyti. Allt þetta held ég að sé æskilegt að nefndin setjist vandlega yfir, kanni afleiðingar á ólíka hópa sem kostur er og leiti leiða til þess að sníða agnúa af hugmyndum þessum.

Virðulegi forseti. Öryrkjum hefur fjölgað ört á liðnum áratug og rannsóknir sýna að samband er á milli vaxandi atvinnuleysis, einkanlega langtímaatvinnuleysis, og fjölgunar öryrkja. Mikilvægt er að allir sem einhverja starfsgetu hafa eigi kost á endurhæfingu sem auki möguleika þeirra til atvinnuþátttöku. Í frumvarpinu er skýrt kveðið á um heimild til að greiða endurhæfingarlífeyri til einstaklinga á aldrinum 18–67 ára.

Hámarkstímabil endurhæfingarlífeyris er nú 12 mánuðir með mögulegri framlengingu um sex mánuði, þ.e. allt að 18 mánuðum. Með þessu frumvarpi er lagt til að hámarkstímabil sem heimilt verði að greiða endurhæfingarlífeyri verði tvöfaldað þannig að unnt verði að framlengja það um 18 mánuði til viðbótar, þ.e. í allt að 36 mánuði, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Er þá einkum átt við að góðar líkur séu taldar á að einstaklingur öðlist starfshæfni fái hann lengri tíma í starfsendurhæfingu og þannig verði hægt að koma í veg fyrir að einstaklingurinn festist til lengri tíma á örorkubótum. Ég held að við þær aðstæður þegar meira en helmingur þeirra sem eru atvinnulausir í landinu í dag hefur verið atvinnulaus í sex mánuði eða lengur og erlendar rannsóknir segja okkur að hætt sé við að allt að 90% þeirra sem hafa verið svo lengi atvinnulausir geti endað í örorku beri okkur skylda til að rýmka sem kostur er það svigrúm sem við höfum til að greiða endurhæfingarlífeyri og fresta sem kostur er því tímamarki þegar við þurfum að kveða endanlega upp úr um örorku. Við horfum síðan einnig til þess að gera frekari breytingar á örorkumatskerfinu sem allra fyrst og vonandi strax á vorþingi sem auðvelda okkur þetta verk að öðru leyti.

Fleiri breytingar eru lagðar hér til sem lúta að rétti fólks til endurhæfingarlífeyris, framkvæmd endurhæfingar og eftirliti með henni. Breytingarnar hafa allar það meginmarkmið að bæta fyrirkomulag endurhæfingar og auka líkur á því að henni sé fylgt eftir þannig að færri einstaklingar verði öryrkjar til langframa. Samhliða frumvarpinu er gert ráð fyrir breytingum á reglugerð um örorkumat og breytingum á örorkumatsstaðli sem henni fylgja. Byggjast þær fyrirhuguðu breytingar á athugasemdum sem fram hafa komið, m.a. frá læknum sem koma að gerð örorkumats, en þeir hafa bent á að heilsufarsleg skilyrði fyrir mati á fullri örorku séu ekki nógu ítarleg og stendur til að bæta þar úr. Umræddar breytingar eru hugsaðar sem tímabundin aðgerð þar til nýtt kerfi starfshæfnismats verður tekið í notkun þar sem áhersla verður lögð á getu fólks til starfa í stað þess að einblína á vangetu fólks eins og hingað til hefur verið gert.

Virðulegi forseti. Fyrir ári var gerð breyting á lögum um Ábyrgðasjóð launa sem ætlað var að draga úr vaxtakostnaði sjóðsins af kröfum lífeyrissjóða. Sú breyting hefði sparaði sjóðnum um 70 millj. kr. árið 2010. Viðræður við aðila vinnumarkaðarins leiddu hins vegar til þess að ákveðið hefur verið að hverfa aftur til sama horfs og áður þannig að allar kröfur sem sjóðurinn ábyrgist beri vexti óháð því hvenær þær féllu í gjalddaga innan ábyrgðatímabils laganna. Til að mæta kostnaðaraukanum sem af þessu hlýst verður ábyrgðargjald í sjóðinn hins vegar hækkað úr 0,2% í 0,25% af gjaldstofni þess. Þegar upp er staðið mun hækkun ábyrgðargjaldsins skila ríkissjóði um 217 millj. kr. umfram þann kostnaðarauka sem leiðir af auknum vaxtagreiðslum og hærra ábyrgðargjaldi.

Í frumvarpinu er kveðið á um árlega hækkun gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra vegna verðlagsbreytinga. Hækkunin nemur 11,5%, þ.e. 866 kr., og verður gjaldið 8.400 kr. á næsta ári. Jafnframt er kveðið á um hækkun á tekjuviðmiði sem notað er til að ákveða hverjir eru undanþegnir greiðslu gjalds í sjóðinn.

Önnur breyting á lögum um málefni aldraðra felst í framlengingu bráðabirgðaákvæðis sem sett var fyrst árið 2007 í kjölfar lækkunar hlutfalls og síðar afnáms tenginga á tekjum maka við tekjur vistmanna á stofnunum aldraðra þegar reiknuð er út kostnaðarþátttaka þeirra í daggjöldum. Leiði samanburður til aukinnar kostnaðarþátttöku vistmanns frá því sem var fyrir afnám tenginga við tekjur maka skal leiðrétta vistunarframlag ársins 2010 til samræmis við það. Með þessu er tryggt að sú niðurstaða sem er hagstæðari fyrir vistmanninn verði ætíð valin við útreikning á kostnaðarþátttöku hans í daggjaldi.

Loks er í frumvarpinu kveðið á um að Framkvæmdasjóði aldraðra verði veitt tímabundin heimild til að standa straum af rekstrarkostnaði við 60 ný hjúkrunarrými frá byrjun árs 2012 til ársloka 2013 eins og ég rakti í upphafi. Að þeim tíma liðnum mun ríkissjóður taka við rekstrarkostnaðinum og rekstur hjúkrunarrýmanna þá falla undir fjárlagaheimildir til reksturs hjúkrunarheimila. Áætlað er að kostnaður Framkvæmdasjóðs aldraðra vegna þessa verði um 420 millj. kr. hvort árið um sig. Þessi tímabundna heimild til að greiða rekstrarkostnað vegna 60 hjúkrunarrýma í tvö ár er nauðsynleg til að unnt sé að fjölga nýjum hjúkrunarrýmum og mæta brýnni þörf í þeim efnum.

Önnur mikilvæg breyting sem lýtur að sama máli felst í nýju ákvæði í lögum um húsnæðismál sem jafnframt er að finna í þessum bandormi þar sem Íbúðalánasjóði er heimilað að veita sveitarfélögum lán sem nemur allt að 100% af framkvæmdakostnaði við kaup eða byggingu hjúkrunarheimila fyrir aldraða. Er miðað við að lánstíminn megi nema allt að 40 árum. Með þessum heimildum er annars vegar reynt að mæta því mikla aðhaldsstigi sem er fyrirsjáanlega á rekstri ríkissjóðs fram til ársloka 2013 og koma í veg fyrir að nýjar rekstrarheimildir falli á ríkissjóð á þeim tíma og hins vegar að hleypa af stað verkefnum sem er brýnt að ráðast í og full rök eru fyrir að ráðast í en á þann hátt sem hentugast er fyrir ríkið. Um nokkurt skeið hafa staðið yfir viðræður við sveitarfélögin um framkvæmd svokallaðrar leiguleiðar þar sem gert var ráð fyrir að þessi uppbygging yrði með fjármögnun sveitarfélaganna með lántöku á markaði. Það er mat mitt að það sé mun skynsamlegra að gera Íbúðalánasjóði sem getur aflað með ríkisábyrgð lægstu mögulega kjara á markaði kleift að lána sveitarfélögunum en að þau séu að borga háa markaðsvexti og ríkið síðan að endurgreiða þeim þá háu vexti í 40 ár í formi hærri leigugreiðslna en ástæða er til.

Virðulegi forseti. Verði frumvarp þetta að lögum er áætlað að útgjöld ríkissjóðs muni lækka tímabundið árin 2010–2012 um samtals 1.290 millj. kr. á ári. Á móti kemur útgjaldaaukning sem áætluð er um 194 millj. kr. þannig að nettóáhrif til lækkunar ríkisútgjalda verða samtals tæplega 1.100 millj. kr. Þá má bæta við um 357 millj. kr. sem koma í auknar tekjur vegna breytinga á gjaldi í Ábyrgðasjóð launa og að þeim meðtöldum batnar afkoma ríkissjóðs um samtals 1.453 millj. kr.

Að lokinni þessari framsögu og umræðum um málið legg ég til að málinu verði vísað til meðferðar í félags- og tryggingamálanefnd.