138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[17:45]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér ekki miklu við þessa orðræðu um fæðingarorlofið og sjómannaafsláttinn að bæta að öðru leyti en því að ég ítreka það að ég met mikils traustan stuðning hv. þingmanns við afnám sjómannaafsláttarins og vænti þess að flokkssystkini hans fylgi honum í því máli, því að ég held að sé einfaldlega verkefni sem er löngu tímabært að takast á við. Um samdrátt í fæðingarorlofskerfinu ber hins vegar á það að líta að þar erum við að grípa til einskiptisaðgerðar vegna samdráttar í ríkisútgjöldum og hugsunin er sú að þetta verði tímabundinn niðurskurður og þess vegna má kannski segja að að því leyti geti sérstök sjónarmið gilt þar um.

Varðandi fjölda þeirra sem endurhæfast þá hef ég ekki tiltækar tölur en ég er algerlega sannfærður um að of fáir gera það. Þess vegna voru hugmyndirnar um endurhæfingarkerfið settar fram og (Forseti hringir.) þess vegna var starfshæfnismatshugmyndin sett fram.