138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[18:02]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem upp eftir ákall hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur þar sem hún spyr ýmsa hv. femínista hér á þingi hvernig þeim líki niðurskurður í fæðingarorlofi. Nú verð ég að játa eins og ég hef gert opinberlega að hugmyndin um að fresta hluta fæðingarorlofsins hugnast mér illa, bæði tel ég það valda skerðingu á lengd fæðingarorlofsins sem er óheppilegt, auk þess sem við erum eingöngu að velta vanda dagsins í dag á undan okkur. En ég hef jafnframt varið lækkun á þakinu og þá út frá þeirri röksemdafærslu að þar séum við að verja kjör meðaltekjufólks og fólks þar fyrir neðan og það hljóti að vera meginmarkmiðið núna og þá komum við kannski inn á það sem ég hefði viljað spyrja hv. þingmann að. Nú er það svo að Fæðingarorlofssjóður er fjármagnaður af tryggingagjaldi og við höfum verið að hækka tryggingagjaldið til að koma til móts við aukningu í atvinnuleysistryggingum, Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki verið mjög hrifinn af því, og væntanlega þyrftum við að hækka tryggingagjaldið um 0,17% til að þessi tekjustofn fæðingarorlofsins stæði undir orlofinu eins og það er núna. Ég vil þá spyrja hv. þingmann hvort hún telji það færa leið í stöðunni.

Síðan vil ég kannski nota tækifærið og vera ánægð með það að við séum þetta margir femínistar á þingi því að ég hef lagt til að settur verði kynjakvóti í stjórnir fyrirtækja hér á landi. Ég lagði það til bæði í sumar og í haust, það er í vinnslu í viðskiptanefnd og mun hafa mikil áhrif, ef fram gengur, á stöðu kvenna innan íslenskra fyrirtækja og ég vænti stuðnings við það góða mál.