138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[18:22]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil vegna orða hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar spyrja hann að því hvort þetta sé stefna Framsóknarflokksins að það eigi allt eins að lækka hámarkið á fæðingarorlofsgreiðslum. Ég tek undir með honum að það var gott hjá honum að draga fram aðrar leiðir, ég er fegin að menn geri það. Ég vil hins vegar vekja athygli á einni röksemd fyrir því að menn geri það ekki eða að það sé líklegra að sá sem er tekjuhár fari síður í orlof, og það er að einmitt nú um stundir er fólk að reyna að láta enda ná saman. Fólk er að berjast í bökkum við að halda sínu, greiða af lánum, og þá er mun ólíklegra að fólk sem er tekjuhærra, þegar það er að reyna að halda öllu saman, greiða af húsnæðislánum o.s.frv., að það skipuleggi sig og bara kalkúleri það gallhart, debet og kredit, hvernig það komist í gegnum næstu tíma, með hvernig afborgunum o.s.frv. Er þá ekki líklegra en hitt að tekjuhærra fólk fari síður í fæðingarorlof en það sem er tekjulægra þó að einstaklingarnir, og við vitum það, að báðir foreldrar vilji vera heima hjá barninu sínu? Það er ekki þegar upp er staðið það sem blasir við heldur hin bitra staðreynd að fólk þarf að láta enda ná saman.