138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[18:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð, lögum um Ábyrgðasjóð launa, lögum um fæðingar- og foreldraorlof, o.s.frv. Þetta eru mörg mál sem ég hef sérstaklega mikinn áhuga á.

Þegar lönd lenda í kreppum er varað við því að ekki sé gengið á mannréttindi, að þess sé gætt að mannréttindi verði ekki undir í þeim átökum sem þá eiga sér stað. Við þurfum að halda vöku okkar í því, sérstaklega t.d. varðandi dómsmál, og núna þegar hellast yfir dómstólana alls konar mál þarf að gæta að því að þeir séu í stakk búnir til að mæta því, þannig að fólk fái réttláta úrlausn sinna mála.

Við ræðum hér líka um fæðingarorlofið og það vill svo til að 1995 ræddi ég í minni fyrstu ræðu á Alþingi einmitt um jafnrétti kynjanna og fæðingarorlof, eða þá mismunun sem þá var á því að karlmenn voru miklu ódýrari en jafngamlar og jafnmenntaðar konur á vinnumarkaði, vegna þess að konurnar fóru í fæðingarorlof en karlarnir ekki. Þegar fæðingarorlofið var svo samþykkt var ég afskaplega hlynntur því, af því það lagaði þennan mun á jafnrétti kynjanna sem ég tel mjög mikilvægt að ná fram, ekki endilega til að telja hausa og hafa jafnmarga hausa af báðum kynjum, heldur til þess að allir einstaklingar séu jafnir af hvaða kyni sem þeir eru og þjóðfélagið nýti alla þegna jafnt. En misrétti af alls konar toga kemur í veg fyrir fulla nýtingu á kröftum einstaklinganna.

Því þótti mér mjög miður þegar menn byrjuðu að skerða hámarkið í Fæðingarorlofssjóðnum vegna þess að þá var verið að segja: við viljum jú jafnrétti kynjanna en bara ekki á háu laununum. Karlmenn með mjög há laun eiga ekki að vera jafndýrir og konur með há laun, vegna þess að það gerist nefnilega hjá fyrirtækjum þegar fólk fer í fæðingarorlof að það verður heilmikill kostnaður hjá fyrirtækjunum. Það er alveg sama hvernig menn leysa það, ráða þarf fólk í staðinn fyrir þann sem fer í fæðingarorlof o.s.frv. Þessi kostnaður verður mjög mikill nema hjá þeim sem er með hæstu launin þegar hámarkið er skert, þá myndast ekki sami hvati til að fara í fæðingarorlof hjá karlmönnum og þeir sleppa því. Afleiðingin er sú að jafnrétti kann að skerðast. Það hefur því miður ekki myndast að fullu leyti en eitthvað siglir það í áttina eftir að þessi lög voru sett. Jafnrétti á að myndast en bara á lágum launum, eins og frumvarpið er sett upp.

Það er búið að höggva tvisvar í þann knérunn að lækka hámarkið sem gefur í sjálfu sér ríkissjóði afskaplega lítið, mjög lítið, herra forseti, miðað við það hvaða greiðslur við erum að tala um. Ég skil aldrei í mönnum að reyna ekki að skoða heldur prósentuna sem upphaflega var sett 80% og það var meira svona út í loftið til að vita hvað þyrfti að hafa prósentuna háa til að lokka karlmenn út af vinnumarkaðnum. Það reyndist hafa tekist alveg með ágætum og þá finnst mér að menn ættu að skoða það að lækka þá prósentu fyrst hún reyndist svona vel. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta.

Mér finnst mjög miður að menn skuli vera að ráðast á þetta hvað á að segja, djásn íslenskrar löggjafar, sem ég tel, í jafnréttismálum og kemur auk þess börnunum til góða með meiri samvistum við foreldrana og leysir ákveðinn vanda, sem ég tel reyndar enn þá alls ekki leystan, herra forseti, og það er hvað við gerum við borgarann fyrstu árin eftir að hann fæðist, t.d. hvað gerist eftir níunda mánuðinn, hvað gerist þegar foreldrarnir fara bæði út að vinna? Þá fer litli maðurinn eða litla konan líka út að vinna, þau fara að heiman. Ég tel það ekki æskileg, ég tel að börn þurfi að vera miklu lengur heima af því þau eru bæði að mynda tengsl á þessum árum og þau eru líka að kynnast umhverfi sínu. Sum börn þola það en önnur þola það mjög illa að fara út í heim á þessum aldri, níu eða tíu mánaða gömul. Ég held að menn ættu að skoða það hvernig við leysum þetta heildstætt út frá sjónarhorni barnsins, þessa litla borgara.

Ég ætla ekki að tala meira um fæðingarorlofið og hvernig menn ráðast á það aftur og aftur í sparnaðarskyni og hlífa frekar útgerðinni sem fær einn milljarð í sjómannaafslátt í styrk, því að þetta er styrkur til útgerðarinnar hagfræðilega séð, hún gæti jú borgað hærri laun.

Ég ætla að ræða um endurhæfinguna og örorkumat. Fyrir um það til sex árum hélt ég erindi og reyndi að berjast fyrir því að þessu fáránlega örorkumati sem við höfum í dag verði kastað út hafsauga. Það er nefnilega þannig að maður sem er 75% öryrki eða meira fær 100% bætur. Maður sem er með 74% eða minna fær lítið sem ekki neitt. Þetta er svona punktmat, annaðhvort eru öryrki eða ekki öryrki. Síðan er til einhver mjög lágur lífeyrir, örorkustyrkur, ef menn eru 65% öryrkjar eða meira, en það er lítilræði og undir 65% fá menn ekki neitt. Þetta er mjög undarlegt vegna þess að flestir öryrkjar eru öryrkjar bara allan skalann, sumir eru 20% öryrkjar, sumir 25% o.s.frv., eru sem sagt mismunandi mikið vinnufærir, mjög mismunandi. Það eru mjög fáir, sem betur fer, herra forseti, sem eru algjörlega óvinnufærir, margir geta unnið og það á að reyna að nýta það mat. Núverandi kerfi gerir það að verkum að það verða allir að ná 75%, annars fá þeir lítið sem ekki neitt. Læknar og aðrir vita alveg af þessu, og þannig fær fólk 75% örorkumat þótt það gæti unnið töluvert mikið. Svo mega menn vinna með, þetta er dálítið furðulegt af því að heitið er öryrki, og eru svo skertir sem er mjög neikvætt. Skerðingar eru alltaf neikvæðar.

Sett var á laggirnar nefnd sem skildi þetta. Ég vil hafa örorkumatið eða starfsgetumatið frá núll og upp í 100% og menn fái kannski metið hvað þeir geta unnið og ef þeir geta unnið 67% fái þeir 33% af fullum örorkulífeyri en mega sem sagt hafa 67% af fyrri tekjum. Þannig vildi ég hafa þetta. Það fór í gang nefnd sem vann út frá þessari hugmyndafræði og lagði sérstaklega mikla áherslu á endurhæfinguna en endurhæfingin er algjöru í skötulíki, herra forseti. Það er til háborinnar skammar hve endurhæfingin er léleg, og þó að búið sé að gera töluvert til að bæta það er hún enn þá alls ekki nógu góð. Þetta ætlaði ég að segja um endurhæfingu. Þessi nefnd er í gangi og það kemur ekkert frá félagsmálaráðuneytinu um þetta, en ráðherrann hélt því fram að það væri jú eitthvað í gangi. Það væri ágætt að heyra eitthvað meira um hvað hann hyggst gera og hvernig hann hyggst leysa þetta í vor eins og hann sagði áðan.

Þriðja atriðið sem ég ætlaði rétt aðeins að geta um er það að hér er verið að hækka gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra. Ég hef margoft nefnt það, herra forseti, að það eru tvö gjöld, við erum með tvo nefskatta á Íslandi — nefskattur er það sem allir borga — það er gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra sem á að hækka upp í 8.400, og svo er það útvarpsgjaldið sem er líka nefskattur og er 17.000 kr. Samtals eru þetta um 25.000 kr. En svo erum við með einn mínus nefskatt sem er persónuafslátturinn. Af hverju í ósköpunum tengjum við þetta ekki saman? Af hverju í ósköpunum segjum við ekki bara að gjaldið í Framkvæmdasjóð aldraðra lækki persónuafsláttinn? Það kemur nákvæmlega eins út. Af hverju í ósköpunum segjum við ekki að útvarpsgjaldið eigi að lækka persónuafsláttinn? Auðvitað kemur hér fram eitthvert furðulegt ákvæði um það að þeir sem eru 70 ára og eldri borgi ekki í Framkvæmdasjóð aldraðra? Ég hef aldrei skilið það. Af hverju skyldu menn með háar tekjur ekki borga í Framkvæmdasjóð aldraðra þó að þeir séu orðnir aldraðir? Eins er með útvarpsgjaldið, af hverju skyldu ekki aldraðir borga það eins og aðrir ef þeir hafa háar tekjur og eiga jafnvel miklar eignir? En menn hafa ekki viljað hlusta á þessa miklu einföldun sem mundi spara óskaplega mikið í innheimtukostnaði og gera kerfið miklu liprara. Reyndar er svo með útvarpsgjaldið að þar er gert ráð fyrir að fyrirtæki, trillur og svoleiðis borgi útvarpsgjald, sennilega vegna þess að menn líta svo á að trillur horfi mikið á sjónvarp. Ég hef reyndar ekki séð það.