138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

eftirlaun til aldraðra.

238. mál
[18:56]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um eftirlaun aldraðra, nr. 113/1994, með síðari breytingum.

Lögin um eftirlaun til aldraðra voru upphaflega sett árið 1970 á grundvelli yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við samkomulag Alþýðusambands Íslands og atvinnurekenda í maí 1969 um stofnun lífeyrissjóða fyrir félagsmenn í stéttarfélögum innan vébanda Alþýðusambands Íslands. Lögum þessum var ætlað að tryggja að þeir félagsmenn í stéttarfélögum sem aldurs vegna næðu ekki að mynda réttindi í lífeyrissjóðum með greiðslu iðgjalds nytu nokkurra eftirlauna. Þessi lög hafa tekið talsverðum breytingum í áranna rás án þess þó að meginmarkmið þeirra hafi breyst. Skilyrðin sem sett voru upphaflega um rétt til lífeyris, hafa enn fremur haldist óbreytt en eitt aðalatriði þeirra er að menn þurfi að vera fæddir 1914 eða fyrr.

Eðli málsins samkvæmt hefur því eftirlaunaþegum sem þiggja annars vegar ellilífeyri og hins vegar makalífeyri samkvæmt lögunum fækkað mikið. Þegar flest var voru um 4.000 einstaklingar sem þáðu eftirlaun á grundvelli laganna, en í dag eru þeir einungis um 800 talsins, þ.e. um 270 ellilífeyrisþegar og 530 makalífeyrisþegar. Úr þessu bætast ekki nýir lífeyrisþegar í hópinn og hann fer stöðugt minnkandi af náttúrulegum ástæðum. Samkvæmt lögunum er starfrækt umsjónarnefnd eftirlauna sem hefur það meginhlutverk að úrskurða um eftirlaun og hafa yfirumsjón með úthlutun þeirra.

Í frumvarpinu sem hér er mælt fyrir er gert ráð fyrir að umsjónarnefnd eftirlauna verði lögð niður og verkefni hennar falin Tryggingastofnun ríkisins. Starfsemi nefndarinnar hefur farið mjög minnkandi undanfarin ár og að mati hennar sjálfrar er ekki lengur ástæða til að halda úti sérstakri nefnd til að sinna þeim störfum sem henni eru falin með lögunum og hún hefur sjálf lagt til að verða lögð niður. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins er ekki gert ráð fyrir að þessi tilhögun muni valda miklum breytingum í starfsemi stofnunarinnar, en gert er ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs muni lækka sem nemur þóknunarkostnaði umsjónarnefndarinnar.

Ég læt þessari yfirferð yfir efni frumvarpsins lokið og leyfi mér, virðulegi forseti, að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. félags- og tryggingamálanefndar.