138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[19:27]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þm. Þuríði Backman um að það sé Alþingis að taka á þessu máli og fjalla um skýrsluna. Mér er hins vegar kunnugt um það, eins og alla vega flestum landsmönnum, þó að fæstum þingmönnum virðist kunnugt um það, að það ríkir mikið vantraust í garð þingmanna úti í samfélaginu, mjög mikið vantraust. Það ríkir vantraust í garð þingsins af minni hálfu, það er ekki persónulegt á einstaka þingmenn, heldur þess kerfis sem Alþingi hefur smíðað sér. Ég treysti því ekki að Alþingi geti afgreitt þetta mál. Ég kom inn á þing, ég fór í framboð vegna þess að ég treysti ekki Alþingi. Það sem ég hef orðið vitni að inni á þingi síðan hefur ekki gert annað en að styrkja mig í þeirri stöðu. Þess vegna held ég að ef þingið nær ekki að reka af sér slyðruorð vantrausts í þessari atrennu, muni það aldrei geta það og þingið muni miklu betur vera fært um að gera það ef það viðurkennir fyrir sjálfu sér að það njóti ekki trausts almennings og segi: Hér erum við, Alþingi, við vitum að almenningur treystir okkur ekki, þess vegna leitum við eftir ábendingum utan þingsins til þess að við verðum færari og trúverðugri í störfum okkar. Það er eingöngu þess vegna sem við leggjum til að þessi fimm manna nefnd verði skipuð utan þingsins, til að reyna að byggja upp traust á Alþingi aftur úti í samfélaginu. Vonandi verður það raunin.