138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[19:31]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil sjónarmið hv. þm. Þuríðar Backman afskaplega vel. Hún tilheyrir stjórnmálaflokki sem á sennilega minnstan þátt í þessu hruni og væntanlega engan þátt í því. Ég lít aftur á móti þannig á að það sé búið að draga hennar flokk niður á sama „level“ og hina flokkana í þessu máli vegna þess að upplifun mín og annarra sem hafa skoðað þetta frumvarp er einfaldlega sú að hér sé í gangi samtryggingarkerfi þingmanna um að það verði ekki hróflað við einu eða neinu í framhaldi af þessari skýrslu. Það er bjargföst trú mín að það þurfi ekki að vera svoleiðis og að hægt sé að laga það. Ég vona að það verði lagað. Ég sjálfur og þeir sem ég hef talað við treystum ekki þinginu og þingmönnum til þess að gera það einum. Við teljum betra að ábendingar um þá þætti er snerta þingmenn, ráðherra, Alþingi sem stofnun, fjölskyldur þingmanna og fjölskyldur ráðherra, hvort sem eru núverandi eða fyrrverandi — að aðgerðir þingsins gagnvart þessu fólki komi utan frá. Þannig er best að byggja upp traust á þessu ferli, ekki með því að láta eingöngu þingmennina sjálfa fjalla um það.

Því miður, segi ég. Staðan svoleiðis en þannig er hún bara. Góður ásetningur er góður en vegurinn til heljar er varðaður góðum ásetningi og það verður einfaldlega að horfa á stöðuna eins og hún raunverulega er.