138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[19:42]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 142/2008, um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Eins og fram hefur komið hér í umræðunni eru deildar meiningar um ýmsa efnisþætti þessa máls og hafa fulltrúar Hreyfingarinnar gert athugasemdir við það. En svo við tölum öll á sömu nótum eða í sömu efnisdráttum er mikilvægt að við kíkjum á hvernig lögin voru upphaflega hugsuð og hver tilgangurinn var. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að vitna aðeins í greinargerðina sem fylgdi lögunum þegar þau voru sett á sínum tíma. Þar er fjallað er um hver tilgangurinn er og hvernig eigi að draga mörk á milli, að mikilvægt sé að draga skýr mörk milli sakamálarannsóknar af þessu tagi þar sem refsiábyrgð stjórnenda bankanna og annarra er komu að rekstri þeirra til umfjöllunar og þeirrar rannsóknar sem hér er boðað til er möguleg.

Samkvæmt þessu frumvarpi er ekki ætlunin að taka hugsanlega refsiábyrgð einstaklinga sérstaklega til athugunar. Þó eru líkur á að þær upplýsingar sem nefndin aflar og muni birta kunni að varpa ljósi á hina almennu ábyrgð sem þeir bera sem störfuðu að þessum málum, bæði sem stjórnendur fjármálafyrirtækja og hjá opinberum aðilum. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga að annars vegar er talað um að hér fari fram sakamálarannsókn og hún sé í ákveðnu ferli þar sem möguleg refsiábyrgð er könnuð. Þau mál eru þá til skoðunar hjá sérstökum saksóknara. Svo er hins vegar þetta mál hér sem varð að lögum nr. 142/2008. Þar gerðu þeir sem fjölluðu um það og skrifuðu þessa greinargerð ráð fyrir því að eðlilegt væri að ríkisvaldið horfði í eigin barm.

Með leyfi forseta, stendur í greinargerðinni:

„Þar sem rannsókn á þætti ríkisvaldsins í þessari atburðarás getur öðrum þræði beinst að aðgerðum ríkisstjórnar og einstakra ráðherra er eðlilegt að hún fari fram á vegum Alþingis. Byggist það á því að ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarathöfnum gagnvart Alþingi og með vísan til þingræðisreglunnar og 14. gr. stjórnarskrárinnar.“

Það er því algjörlega augljóst, virðulegi forseti, að Alþingi ber að taka á móti skýrslunni frá rannsóknarnefnd Alþingis og setja hana í ákveðinn farveg. Það er enginn annar aðili sem getur gert það. Hvers vegna er það? Jú, frú forseti, við erum hér með spurningar um það hvort kalla þurfi saman landsdóm. Það hefur verið til umfjöllunar bæði í fjölmiðlum og svo hjá þeim sem töluðu á undan mér.

Ef við kíkjum á lögin um landsdóm segir þar einfaldlega í 1. gr.:

„Landsdómur fer með og dæmir þau mál er Alþingi ákveður að höfða gegn ráðherrum út af embættisrekstri þeirra.“

Það er enginn annar aðili en Alþingi sem getur ákveðið að höfða mál gegn ráðherrum á grundvelli laganna um landsdóm, nr. 3/1963. Þess vegna er málið í þessum farvegi og það er gríðarlega mikilvægt að við áttum okkur á því.

Ef við höldum aðeins áfram með greinargerðina með upphaflega frumvarpinu kemur hér fram, með leyfi forseta:

„Nauðsynlegt er þó að undirstrika að rannsóknarnefndinni er ekki ætlað neitt dómsvald eða henni veitt heimild til að beita menn viðurlögum. Henni ber að skila áliti í skýrsluformi til Alþingis þar sem tekið er á þeim atriðum sem rannsóknin beinist að. Samhliða verður skýrslan birt opinberlega. Það er síðan hlutverk Alþingis að meta hvort tilefni sé til þess að ráðherrar sæti ábyrgð fyrir mistök eða vanrækslu í starfi.“

Frú forseti. Þetta er skýrt. Þetta eru lögin sem eru í gildi og eftir þeim vinnum við. Sett voru fram fimm meginmarkmið með upphaflegu lögunum eða þeim lögum sem eru í gildi. Ef við kíkjum aðeins yfir þau eiga lögin í fyrsta lagi að tryggja að allar upplýsingar komi fram og álit sérfræðinga á ástæðum áfallanna. Í öðru lagi eiga lögin að tryggja að málsmeðferðin verði réttlát í garð þeirra sem sæta rannsókn. Í þriðja lagi eiga þeir sem fengnir eru til þess að stjórna rannsókninni að vera sjálfstæðir og óháðir. Í fjórða lagi á að hraða rannsókninni eftir því sem kostur var og í fimmta lagi er krafa um að niðurstaða rannsóknarinnar fái einhverja meðferð að henni lokinni.

Það var þannig og er það þannig í gildandi lögum að gert er ráð fyrir því að forseti Alþingis og formenn þingflokka fjalli um endanlegar niðurstöður rannsóknarnefndarinnar. Nú er í rauninni verið að breyta því fyrirkomulagi og setja í staðinn níu manna þingmannanefnd og er þá verið að stækka þann hóp sem kemur til með að fjalla um þessa hluti. Ég held að það sé bara til góðs. Ég skil hins vegar þá gagnrýni að mörgu leyti sem kemur fram hjá Hreyfingunni. Það væri kannski málefnalegt að hafa einhverja aðra í þessu en þannig er regluverkið okkar ekki og við hér á Alþingi Íslendinga hljótum að vinna eftir þeim lögum sem gilda hér á landi, það er ekkert um neitt annað að velja.

Ég tel að vissulega séu þetta erfið verkefni og það er ekkert auðvelt að greiða úr þeirri flækju sem efnahagshrunið allt felur í sér og hafði í för með sér, en til þess erum við einfaldlega kosin hér á Alþingi. Við öll sem buðum okkur fram í vor gátum auðveldlega áttað okkur á því að þetta yrði okkar kaleikur að bera, sama úr hvaða flokki við erum, sama hvort við erum nýir þingmenn eða gamlir þingmenn, við áttum að vita það þegar við tókum sæti hér á þingi að þetta væri okkar hlutverk. Við áttum jafnframt að vita að það er landsdómur og dæmir í því máli sem Alþingi ákveður að höfða gegn ráðherrum. Þetta er ekki skemmtilegt hlutskipti, ekki fyrir nokkurn einasta mann að taka þetta að sér, en þetta er engu að síður það sem okkur ber að gera og þetta er hluti af skyldum okkar og frá þeim getum við ekki hlaupist.

Við sem hér sitjum verðum að taka á þessu máli af festu og þarf að vera skýr umgjörð um það sem hér fer fram, sérstaklega varðandi þetta mál. Það er gríðarlega mikilvægt að við reynum að skapa þann anda hér inni að menn vinni í sameiningu að því að stunda megi skýr og fumlaus vinnubrögð sem nauðsynlegt er að viðhafa í þessu máli. Niðurstaða rannsóknarnefndarinnar verður birt, það geta allir nálgast hana og lesið hana og það er náttúrlega gríðarlega mikilvægt. Það kom ekkert annað til greina í þessu máli. Jafnframt hafa við vinnu rannsóknarnefndarinnar orðið til gríðarlega miklir gagnagrunnar sem munu verða rannsóknartæki fyrir ýmsa fræðimenn framtíðarinnar vegna þess að það er náttúrlega einstakt og stórmerkilegt fræðilegt viðfangsefni að kanna hvernig efnahagslífið hér þróaðist og hvernig bankarnir og bankakerfið þróuðust sem varð til þess að þessi mikli skellur varð sem við erum að glíma við í dag.

Vissulega er það ekkert skemmtilegt verkefni að taka við þessari rannsóknarskýrslu. Formaður nefndarinnar hefur haft uppi stór orð um að þetta verði skelfilegar og slæmar fréttir sem við fáum með skýrslunni og ég held að við gerum okkur öll grein fyrir því. En við getum ekki hlaupist frá eigin ábyrgð og falið einhverjum öðrum aðilum að gera það, þetta er okkar hlutverk. Ábyrgð Alþingis er mikil og ábyrgð okkar alþingismanna er mjög mikil. Við hér inni, sama í hvaða flokki við erum, verðum að sýna þann pólitíska þroska að geta tekið við þessari skýrslu og unnið úr henni. Ég veit að það verður erfitt, ég held að við séum öll sammála um það, þetta verður hvorki skemmtilegt né einfalt viðfangsefni. En ég tel að allir þeir þingmenn sem hér sitja átti sig á ábyrgð sinni. Þetta er einfaldlega verkefnið á borðinu, við verðum að vinna það og það er mikilvægt að við gerum það saman.

Ég tel að það sé enginn að reyna að sópa einhverjum málum undir teppi, þvert á móti. Ég frábið mér ásakanir um að það sé það sem þingmenn eru að gera. Ég held að við áttum okkur öll á því að í gegnum þetta mál verðum við að komast eftir þeim landslögum sem hér gilda. Hlutverk Alþingis er að vinna úr þessari skýrslu, það hefur legið fyrir frá því að lögin voru sett upphaflega. Ég vildi óska að ekki hefði þurft að koma fram með breytingar á þessum lögum, að menn hefðu áttað sig algjörlega á því frá upphafi til enda hvernig ferillinn yrði þegar lögin fóru upphaflega í gegnum þingið á fyrra þingi. En svo var ekki, það er einfaldlega vegna þess að við erum að gera þetta í fyrsta skipti og þetta er staðan sem við erum í.

Við eigum að horfa á þetta mál með það í huga að við ætlum að vanda okkur og ég er þess fullviss að við verðum öll samstiga í því. Ég tel að enginn ætli að samþykkja að einhver froða komi hér inn um verslunarmannahelgina, eins og hv. þm. Þór Saari sagði hér á undan, heldur ætlum við að taka á þessu máli af festu, gera það samhent og á málefnalegan hátt samkvæmt þeim lögum sem gilda hér á landi.