138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[19:52]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Mig langaði aðeins, af því að það misfórst að skrá mig á mælendaskrá til að svara ræðu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur, að svara einu sem þar kom fram. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir talaði um að við ættum ekki að klifra upp bakið á öðrum þingmönnum eða þingflokkum. Ég átta mig ekki á því hvað hún á við með þessu og ég óska eftir að hún svari því þegar hún stígur næst í ræðustól því að mér finnst þetta ekki falleg myndlíking. Það er ekkert sem við segjum í tillögum okkar sem hefur neitt með það að gera að klifra upp um bakið á öðrum þingmönnum. Við höfum bara verulegar áhyggjur af því hvernig þetta mál er sett fram.

Við megum ekki gleyma því að það varð fullkomið siðrof hér á landi, siðrof sem verður að græða, og við græðum það ekki á þennan hátt. Við græðum það ekki með því að ætlast til þess að þingmenn rannsaki sjálfa sig eða komi með tillögur að því hvernig þeir eigi að dæma sjálfa sig, vini sína eða samflokksmenn.

Það hefur komið fram í þeim ræðum sem haldnar hafa verið um þetta mál að rannsóknarnefndin hljóti að geta komið með skýr fyrirmæli um hvernig þingið á að haga störfum sínum varðandi skýrslu nefndarinnar. Ég verð eiginlega að spyrja: Getur maður búið til lög sem byggð eru á spádómum? Það er ekkert sem segir að þau mæli fyrir um hvernig við eigum að gera þetta á þinginu. Það væri því náttúrlega langeðlilegast þegar kemur að álitamálum og að málefnum sem snúa að þingmönnum, þinginu sjálfu og ráðherrum fyrrverandi og núverandi, að fengið verði utanaðkomandi álit á því hvernig við eigum að vinna úr því, að við fáum leiðbeiningar. Ég er ekki að segja að við séum ekki hæf til þess að gera það en mér finnst þetta bara ekki auka á trúverðugleika okkar ef við eigum að gera það sjálf. Ég held að það væri í raun og veru leið til þess að auka trúverðugleika þingsins að kalla eftir ráðgjöf frá þessari fimm manna nefnd sem við lögðum til að fengin yrði utan þingsins til þess að fjalla um þessa tilteknu þætti skýrslunnar.

Mig langaði líka aðeins að tilgreina að í upprunalegu greinargerðinni sem var í þessu frumvarpi var mikil óskhyggja um að það eigi að ríkja þverpólitísk sátt um frumvarpið burt séð frá því að við komum með tillögur um breytingar á því. Við getum náttúrlega ekki bara kyngt því að það sé ekki tekið neitt mark á tillögum okkar og við eigum að hafa í þverpólitíska sátt af því að það hentar öðrum.

Það var sem sagt búið að prenta þetta frumvarp og leggja það fyrir þingið, en þar stóð:

„Í öðru lagi eru sett inn í lögin fyrirmæli um meðferð Alþingis á skýrslunni en samkomulag hefur orðið milli formanna þingflokkanna og forsætisnefndar um fyrirkomulag þeirrar meðferðar.“

Við könnumst ekki við aðild að ofangreindu samkomulagi og ég óskaði eftir í mínu embætti sem þingflokksformaður Hreyfingarinnar að andstaða mín við frumvarpið yrði færð til bókar á fundi með forseta þingsins og þingflokksformönnum áður en frumvarpið var prentað og því dreift. Það er því jákvætt að búið sé að taka tillit til þess að þingmenn Hreyfingarinnar líta ekki svo á að þeir styðji þetta frumvarp í heild sinni. Þingmenn Hreyfingarinnar gerðu ítarlegar og alvarlegar athugasemdir við frumvarpið á meðan það var í vinnslu og lögðu til eftirfarandi þrjár breytingar. Það er mjög sorglegt að ekki hafi verið tekið tillit til þess vegna þess að um leið og við fengum fyrstu drögin að frumvarpinu í vor höfðum við samband við sérfræðinga, lögfræðinga, stjórnsýslufræðinga, alls konar fólk úr öllum flokkum og bárum þetta undir þau. Alls staðar fékk maður sama svarið, að þingmenn ættu ekki að skipa sér í nefnd til þess að fjalla um hvernig vinna ætti úr málefnum annarra þingmanna, ráðherra og þingsins þegar kæmi að því að kanna hverjir brugðust hér á landi í tengslum við þetta hrun.

Hér eru tillögur okkar:

1. Þingmenn Hreyfingarinnar lögðu til að þingmannanefndin yrði skipuð fimm þingmönnum í stað níu, einum úr hverjum flokki. Þannig hefði verið hægt að ná þverpólitískri sátt. Eins yrði sett það skilyrði að nefndarmaður hefði ekki átt sæti á Alþingi fyrir október 2008. Mér finnst að það hefði alla vega mátt taka það inn í frumvarpið að þingmaður hafi ekki átt sæti á Alþingi fyrir október 2008 og ég vona að tekið verði tillit til þess í allsherjarnefnd. Jafnframt settum við þarna inn að þingmaður hefði óumdeilanlega engin tengsl við þá atburði eða gerendur þeirra atburða sem getið er í fyrirsögn frumvarpsins. Það hefði alveg mátt vera inni.

2. Þingmenn Hreyfingarinnar lögðu auk þess til að skipuð yrði nefnd fimm valinkunnra manna utan þingsins sem hefði það hlutverk að fjalla um þá þætti skýrslunnar sem snerta alþingismenn og ráðherra núverandi og/eða fyrrverandi og fjölskyldur þeirra. Það yrði einnig hlutverk þeirrar nefndar að fjalla um öll atriði sem hugsanlega kæmu fram í skýrslunni og snerta Alþingi sjálft sem stofnun.

3. Þingmenn Hreyfingarinnar lögðu til að gögn málsins yrðu færð á Þjóðskjalasafn Íslands og að þau yrðu gerð opinber eins og hægt er. Við lögðum áherslu á að höfð yrði í huga sú umræða sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu varðandi hvaða aðilar það eru sem höfuðábyrgð bera á því ástandi sem nú ríkir á Íslandi. Það var mat okkar að hætt væri við að tengsl og hagsmunaárekstrar mundu gera trúverðugleika nefndarinnar að engu. Því er það grundvallaratriði til að mark verði takandi á störfum nefndarinnar að þingmenn ákvarði ekki það verklag er varðar aðra þingmenn sem og ráðherra í þeirri vinnu sem fram undan er. Með skipun nefndar fimm valinkunnra manna utan þings sem hefðu það hlutverk, eins og við lögðum til, yrði auk þess tryggt að Alþingi yrði ekki sett í þá stöðu að veita sjálfu sér aðhald heldur fengju stofnunin sjálf, þ.e. Alþingi, og hlutaðeigandi aðilar nauðsynlegt utanaðkomandi aðhald. Það er kominn tími til að við Íslendingar, hvar sem við stöndum, sér í lagi við hér á þingi, gerum okkur grein fyrir vanmætti okkar, að við erum gjörsamlega vanmáttug gagnvart því að taka á þessu ein og óstudd. Við þurfum að hafa mjög gott aðhald varðandi þessi mál. Slík málsmeðferð að ætla að fá þingmenn til þess að sjá um þetta mál er álíka vitlaus og t.d. þegar lögregla er látin rannsaka lögreglu. Við gætum líka sparað alveg heilmikla peninga og fengið glæpamenn til þess að dæma sjálfa sig.

Það er vert að hafa í huga að þingið nýtur lítils trausts, það hefur aldrei verið eins lítið traust á þinginu og ráðamönnum og við verðum hreinlega að horfast í augu við það. Það þýðir ekkert að horfa fram hjá því. Þetta frumvarp verður ekki til þess að þingið auki veg sinn og virðingu meðal landsmanna. Þvert á móti mun þetta verða til þess að breikka enn gjána á milli þjóðar og þings og það hryggir mig. Þeir atburðir sem hér hafa átt sér stað eru þess eðlis að nauðsynlegt er að tryggja að þeir geti ekki endurtekið sig. Því er mikilvægt að aðgangur að þeim gögnum sem verða til við vinnu rannsóknarnefndarinnar sé eins opinn og frekast er kostur svo hægt verði að rannsaka málið til fullnustu og læra af mistökum fortíðarinnar.

Þar sem skyldur og hlutverk þingmannanefndarinnar eru ekki nægilega afmörkuð í þessu frumvarpi er hætt við að rannsóknarskýrslan fái ekki viðeigandi meðferð. Ég segi „hætt við“, ég er ekki að segja að það sé 100% öruggt, og vegna tortryggninnar sem hér ríkir er mikilvægt að tryggja að svo verði ekki. Það kann að hafa þær afleiðingar í för með sér að þeir aðilar sem ábyrgð bera í því máli sem hér er til umfjöllunar verði ekki látnir axla þá ábyrgð. Þar að auki eru engin tímamörk sett á vinnu þingmannanefndarinnar. Ég skil ekki, frú forseti, af hverju það var tekið út úr fyrstu tillögunni að þessu frumvarpi. Ég mun biðja nefndina sem mun taka þetta fyrir að setja inn tímamörk því að bara þetta vekur tortryggni. Þess vegna er mikil hætta á því að störf nefndarinnar geti dregist út í hið óendanlega eða jafnvel uns ráðherraábyrgðin fyrnist.

Hreyfingin telur að það verði að loka fyrir alla möguleika á að Alþingi tefji að taka afstöðu til rannsóknarskýrslunnar eða að skýrslunni verði sópað undir teppið. Það fæst ekki séð að frumvarp þetta uppfylli þau skilyrði. Ég er ekkert endilega að segja að við þingmenn séum ekki afskaplega heiðarlegt og sterkt fólk en þetta snýst eiginlega ekki um það. Þetta snýst um að þingið hefur afskaplega lítinn trúverðugleika í dag meðal þjóðarinnar, það hefur aldrei verið eins djúp gjá á milli þjóðar og þings. Að setja þetta mikilvæga mál upp á þennan hátt er ekki til þess fallið að minnka þessa gjá. Því skora ég á hv. nefndarmenn sem munu fjalla um þetta í nefndinni að skoða þetta vel og vandlega. Ég hef mikið fundið fyrir því úti í samfélaginu að fólki er brugðið og það hefur orðið fyrir vonbrigðum með hvernig á að gera þetta. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við hlustum á þjóðina okkar.