138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[20:16]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það eru mjög erfið mál sem við glímum við í þingsölum þessa dagana, annars vegar hryllingurinn Icesave og síðan þetta mikla mál, að þurfa að taka á móti skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem kemur væntanlega í lok janúar. Ég fagna því að við skulum átta okkur á því áður en skýrslunni er skilað að sú aðferð, sem ætlað var að hafa við þegar lögin um nefndina voru sett, gekk ekki alveg upp og hefur þess vegna verið endurskoðuð og ákveðið að skipa fimm manna nefnd til að fjalla um skýrsluna í stað þess að forsætisnefnd geri það.

Hér hefur það verið gagnrýnt að þingið ætli að taka þetta í sínar hendur og fjalla um málið en stundum er það þannig, frú forseti, að maður getur ekki flúið sjálfan sig og ég held að í þessu dæmi sé það þannig að þingið getur ekki skýlt sér á bak við neinn annan. Það á enga mömmu til að hlaupa undir pilsfaldinn á, það á bara sjálft sig og þess vegna verður þingið að taka að sér þetta verkefni og leysa úr þeim efnum sem fram munu koma í skýrslu rannsóknarnefndarinnar og ákveða hvernig á að fara með þau mál sem þar koma fram og verða því miður varla mjög skemmtileg.

Það er talað um að þingið hafi ekki aðhald frá neinum. Þingið hefur aðhald frá þjóðinni og það er alveg ljóst að aldrei fyrr, held ég, hefur verið horft jafngagnrýnum augum til þingsins og þess vegna hlýtur þingið að gera þeim mun meiri kröfur til sjálfs sín í þessum efnum.