138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:16]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir hennar svar. Vissulega er það stór hlutur að halda því fram að fólk segi ósatt. En þetta mál hjá þessari ríkisstjórn er með þeim hætti að manni getur ekki dottið neitt annað í hug og það veit alþjóð sem betur fer, það vita þingmenn. Hæstv. utanríkisráðherra kom hér í ræðustól í morgun og sagði að stundum yrði mönnum á. Vissulega verður fólki stundum á og allir eru mannlegir, en að þetta sé þannig trekk í trekk að þingmenn komist að því að verið sé að leyna upplýsingum, að það ekki sé sagður nema hálfsannleikur, er hreinlega óþolandi. Ég minni á að það er árið 2009, við erum að koma hér út úr miklu bankahruni þar sem því var lofað að öll svona vinnubrögð yrðu lögð á hilluna.

Mig langar einmitt að taka undir það sem hv. þingmaður fór fram með og ítrekaði í andsvari við mig, að auðvitað á að virða það samkomulag sem gert var á milli formanna stjórnarflokkanna fyrir helgi. Ég veit svo sem ekki hvað komið hefur í ljós um helgina sem gerir það svona ómögulegt að ekki sé hægt að standa við það, það er alveg hreint með ólíkindum, en hér hefur verið fundað mikið í dag. Það verður að koma í ljós hvað það er sem ríkisstjórnin hefur svona mikið á móti í þessu samkomulagi. En það get ég fullyrt að það er ekkert í þessum rökum og punktum frá stjórnarandstöðunni sem er ósanngjarnt gagnvart ríkisstjórninni, þar er ekki að finna eitt einasta orð sem er ósanngjarnt varðandi það sem hún þarf að uppfylla.

Þar sem hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir situr í utanríkismálanefnd langar mig að lokum að spyrja hana: Finnst henni ekki sjálfsagt mál að svo stórt utanríkismál og milliríkjadeilumál (Forseti hringir.) fari að lokum fyrir utanríkismálanefnd þrátt fyrir að þetta snúist að mestu leyti um peningagreiðslur? (Forseti hringir.) En er það ekki eðlilegt að málið fái líka umræðu þar?