138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:31]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir. Það er ágætt að búið sé að fara hér í gegnum bréfaskipti hjá þessum nýju vinum síðan í apríl. Ég hef sagt það áður úr þessum ræðustól að Íslendingar eru hin nýja auðlind Breta og Hollendinga, þessara annars auðlindasnauðu þjóða, því að vaxtamunurinn er slíkur að ekki hefur heyrst annað eins, á þeim lánum sem þeir taka á miðað við vextina sem þeir vilja að við greiðum.

Sú upphæð sem þingmaðurinn nefndi varðandi teboðin og innheimtuna úti, þ.e. þrír milljarðar aukalega fyrir innheimtu á þessum lánum, er náttúrlega algjör hneisa og niðurlæging fyrir þjóðina. Það er engu líkara en að því hafi bara verið kippt með úr því að skuldin var orðin svo há.

Það er eitt sem gleymist svo oft ef maður vill sjá hlutina í samhengi, þ.e. hvað þetta eru stórar upphæðir sem við erum að fást við við veitingu þessarar ríkisábyrgðar. Ég tek dæmi: Það eru 100 milljónir á dag sem Íslendingar þurfa að borga í vexti af Icesave-samningunum næstu sjö ár. Þetta þýðir þrjá daga hjá Landhelgisgæslunni. Landhelgisgæslan þarf að skera niður um 300 milljónir. Landhelgisgæslan þarf að senda TF-Eir úr landi, þetta eru þrír daga í Icesave-vöxtum. Á hvað leið er þessi ríkisstjórn eiginlega? Ég ætla ekki að halda því fram að það sé talnablinda hér í gangi en það er talað um þetta eins og þetta sé bara eitthvað ofan á brauð. Það er það sem er svo ótrúlega sorglegt í þessu máli. Hér heima er bullandi niðurskurður, það er t.d. verið að minnka varnirnar, ekki er settur peningur í viðkvæma málaflokka og verið er að taka upp skuldbindingar á móti.

Þá spyr ég þingmanninn: (Forseti hringir.) Hvað heldur hann að átt sé við með því að róa þurfi málið og reyna að útskýra það fyrir þjóðinni? Hvaða leiðir sér þessi aðili, Flanagan, (Forseti hringir.) fyrir sér til að róa þjóðina og (Forseti hringir.) skella á hana þessari ríkisábyrgð?

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmenn að byrja ekki á nýrri setningu þegar bjöllu hefur verið hringt.)