138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:37]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Án þess að ég ætli að vera með miklar samsæriskenningar vil ég samt sem áður árétta að það er dálítið athyglisvert að þessi póstur er ekki sendur nema til hluta af hópnum sem skipaði samninganefndina fyrir Íslands hönd gagnvart Bretum og Hollendingum. Nú veit ég ekki hvort ráðuneytisstjórinn ýtti á forward-takkann og sendi póstinn hinum sem voru með honum í samninganefnd, Wikileaks hefur ekki upplýst okkur um það. Við getum ekki vitnað til einhverra skjala sem eru mögulega til hér í skjalabunkum sem ekki má gera opinbera. En þetta er út af fyrir sig mjög athyglisvert.

Hitt sem hv. þingmaður kom inn á, að í bréfi frá þáverandi ráðuneytisstjóra er talað um að markmiðin með þeirri nýju nálgun sem hann segist hafa kynnt fyrir fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins áður, séu þau að forðast eigi að auka — og nú vil ég biðja hv. þingmenn að taka eftir — skuldir ríkisins og jafnframt vaxtabyrðina.

Tölurnar tala sínu máli. Það þarf ekki að rekja þessar tölur hér, við höfum séð þær, þær eru til í skjölum, þær koma m.a. fram í mati Seðlabankans. Þar sjáum við að bæði skuldabyrðin gagnvart útlöndum og vaxtabyrðin af þessu láni með hinni heimskulegu niðurstöðu varðandi vaxtaákvörðunina að hvort tveggja hækkar stórlega, þannig að þetta eru bara tóm orð sem ekkert er á bak við. Þess vegna er þetta svo ámælisvert, ekki bara hvernig að þessu máli var staðið heldur líka hvernig efnisatriðin eru matreidd í þessu leynibréfi sem sent var út fáeinum dögum fyrir kosningar, raunar meðan Alþingi var hér starfandi. Hæstv. fjármálaráðherra hefði því verið í lófa lagið að gera mönnum grein fyrir þeim áformum sem uppi voru, hvort sem það var þá hér á Alþingi, (Forseti hringir.) í fjárlaganefnd eða í utanríkisnefnd.