138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:41]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir að upplýsa okkur um að hæstv. fjármálaráðherra er í húsi, en ég verð að segja það fyrir mig að mér finnst það ekki nóg. Eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði áðan er umræðunni um þetta mál ekki lokið. Það samkomulag sem gert var, ágætissamkomulag sem tryggði það að hér færi fram efnisleg umræða um málið og umfjöllun inni í nefnd, virðist allt vera í uppnámi vegna innanbúðardeilna hjá ríkisstjórninni. Þá verður það að vera þannig að við getum alla vega treyst því að það sem við segjum hér komist til skila til þeirra hæstv. ráðherra sem eru í húsi. Ég óska eftir því, frú forseti, að þessir ráðherrar og — ég sé að varaformaður fjárlaganefndar er hér — fleiri stjórnarliðar komi hér og verði við þessa umræðu vegna þess að það er með öllu óásættanlegt — þarna veifar hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, það er gott að hann hlustar. (Forseti hringir.) En, frú forseti, það er ekki nóg að menn séu í húsi, þeir verða að vera hér í salnum.