138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:49]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil bara upplýsa um að í dag var haldinn fundur forseta með formönnum þingflokka þar sem farið var yfir þetta mál og það samkomulag sem gert var um helgina og undirritað. Það kom fram hjá formönnum beggja þingflokka stjórnarflokkanna að það væri ekkert því til fyrirstöðu af hálfu stjórnarflokkanna að þetta samkomulag stæði, að sjálfsögðu gerir það það. Þar stendur skrifað hvernig dagskrá þingsins á að vera næstu daga, bæði í dag og á morgun og svo nefndadagar í framhaldinu. Það er ásetningur okkar að sjálfsögðu að halda þetta samkomulag.

Þessu samkomulagi fylgdi líka listi yfir atriði sem óskað var eftir að tekin yrðu til umfjöllunar á vettvangi fjárlaganefndar og það er ekkert vandamál, eins og ég hef skilið málið, af hálfu forustu fjárlaganefndar að fara yfir þau álitamál sem þar voru rakin. Það verður væntanlega gert í vinnu nefndarinnar á milli 2. og 3. umr. og það stendur að sjálfsögðu af okkar hálfu.