138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra talaði um að það væri mikilvægt, sem er alveg rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra, að hafa hlutina eins og þeir voru þegar orð manna dugðu, hugsanlega að menn tækjust einnig í hendur. Það er kaldhæðnislegt að hæstv. fjármálaráðherra segi þetta hér úr þessum stóli í dag þegar öll þjóðin ræðir um tölvupóstssamskipti fyrrverandi ráðuneytisstjóra og pólitísks aðstoðarmanns hæstv. fjármálaráðherra. Þar kemur berlega fram að það sem hæstv. ríkisstjórn sagði við þann flokk varðar vantraust, það stóðst ekki, það var ekki rétt og það hefur margoft komið fram hér í dag. Það er því ekki að undra að menn hafi varann á sér þegar menn takast á um jafnmikilvægt mál og þetta og samkomulag sem að því snýr. Það er mjög mikilvægt að það verði alveg geirneglt (Forseti hringir.) að það verði farið eftir því (Forseti hringir.) sem í því samkomulagi stendur.