138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er ekki laust við að manni sé létt vegna þeirrar yfirlýsingar sem hér kom fram og leiðréttir þá þann misskilning sem kom fram í kvöld um að það verði einhver áhöld um hvort samkomulagið sem undirritað var fyrir helgi gildi. Ég fagna því sérstaklega, ef einhverju er hægt að fagna í þessu erfiða og leiðinlega máli, að það er þá á hreinu að menn standa við það sem undirritað er hér í þinginu. Það er gott vegna þess að allt þetta mál hefur einkennst af ákveðinni tortryggni og við í stjórnarandstöðunni höfum staðið í endalausri baráttu við að knýja fram gögn í þessu máli, allt frá því að það kom fyrst til þingsins, allt frá því að það lá fyrir og það leit út fyrir að við ættum ekki að fá að sjá upphaflegu Icesave-samningana sjálfa í sumarbyrjun. Við þurftum að gera það þangað til í gærkvöldi þegar gögn frá þáverandi ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins láku út á netið.

Ríkisábyrgð á Icesave-skuldbindingunum nemur háum fjárhæðum sem komandi kynslóðir munu standa straum af. Eftir að fyrirvörum Alþingis um ríkisábyrgðina hefur verið kastað fyrir róða með nýju viðaukasamningunum sem ríkisstjórnin hefur undirritað getur sú staða komin upp að ábyrgðin verði óendanleg. Það er því ljóst að það þarf að upplýsa þetta mál og ég fagna því að nú mun fjárlaganefnd leitast við að upplýsa það enn frekar og taka þar upp þau ákvæði sem undirrituð voru í hinu margumtalaða samkomulagi stjórnmálaflokkanna um það hvernig fara skuli með mál þetta milli 2. og 3. umr.

Það hefur komið fram í umræðunni að til að standa straum af árlegum vaxtagreiðslum Icesave, aðeins vaxtagreiðslunum, þurfi skatttekjur rúmlega 79 þúsund einstaklinga og það er stór hluti af öllum launþegum í landinu. Það var hv. þm. Þór Saari sem benti upphaflega á þessa staðreynd. Það er ekki hægt að nálgast ákvörðun um svona ráðstafanir af einhverri léttúð og því gefur það augaleið að þingmenn verða að hafa ítarleg gögn í höndum þegar þeir taka ákvörðun um að styðja slíka ráðstöfun. Ég á reyndar frekar erfitt með að átta mig á rökstuðningi þeirra sem ætla sér að styðja þetta mál enda taka stjórnarliðar lítinn þátt í umræðunni. Ég vonast einfaldlega til þess að þeir lesi gögn málsins og sérstaklega þau gögn sem koma fram milli 2. og 3. umr. í fjárlaganefnd. Mun þar vega þungt álit hinnar bresku lögmannsstofu.

Við í stjórnarandstöðunni höfum verið ásökuð um að standa í málþófi og hafa ekkert til málanna að leggja annað en að tefja það en ég hafna þeirri skýringu alfarið. Ég hef innt hv. þingmenn hvern af öðrum eftir því hvernig þeir mundu leysa þetta mál, væru þeir við stjórnvölinn. Menn hafa haft svör á reiðum höndum og hafa virkilega reynt að leita leiða, eins og við gerðum í sumar á sumarþinginu þegar hv. þingmenn allra flokka tóku höndum saman og bjuggu til hina svokölluðu fyrirvara.

Við höfum jafnframt verið ásökuð um það í stjórnarandstöðunni að tala niður landið okkar. Ég frábið mér slíkar ásakanir, enda hef ég mikla trú á framtíð Íslands. Ég hef trú á því að við náum að koma okkur upp úr þessari efnahagslægð hraðar en nokkurn órar fyrir ef við grípum tækifærið og reynum að vinna saman að því að leysa þessi mál, m.a. þetta erfiða mál sem komið var í ákveðinn hnút.

Okkar helstu kostir eru þeir að hér á landi er hátt menntunarstig. Hér eigum við miklar auðlindir. Það er ung þjóð sem byggir þetta land og í því felast mikil tækifæri. Við eigum sterkt lífeyrissjóðakerfi þrátt fyrir allt og á þessum stoðum munum við byggja okkar framtíð. En við verðum að reyna og okkur ber skylda til, við sem sitjum á Alþingi, að reyna að skapa sátt í samfélaginu og reyna að vinna saman að því að leysa erfið mál eins og t.d. það sem við ræðum í dag. Þess vegna hef ég mikla trú á að fjárlaganefnd muni fara faglega og vel yfir málið milli umræðna, fara vel yfir þau 16 atriði sem samkomulag er um að fara skuli í. Ég hef trú á því að eftir það muni þingmenn skoða hug sinn aftur og vilji taka upplýsta ákvörðun á grundvelli yfirvegaðrar umræðu, vandaðra gagna og vandaðrar málsmeðferðar. Ég hef trú á því, frú forseti, að það ætli enginn hér að hlýða í blindni forustu síns flokks en menn muni taka upplýsta ákvörðun í þessu máli.