138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:26]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Í ræðum mínum fram að þessu hef ég talið upp nokkur helstu atriði og áhyggjuefni varðandi þetta frumvarp. Áður en ég held því áfram ætla ég að nota þessa ræðu til að fara stuttlega yfir þær upplýsingar sem bárust í dag um tölvupóstssamskipti Indriða H. Þorlákssonar, aðstoðarmanns fjármálaráðherra og samningamanns í Icesave-málinu, og Marks Flanagans, fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gagnvart Íslandi.

Í þessum póstum koma fram upplýsingar sem mér þykja ákaflega sláandi, ekki hvað síst í ljósi þess að þessi samskipti eiga sér stað á meðan minnihlutastjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sat að völdum í skjóli Framsóknarflokksins. Þegar sú stjórn tók til starfa var samið um að haft yrði samráð við Framsóknarflokkinn um öll meginatriði áður en ákvarðanir yrðu teknar en það gekk upp og ofan. Sérstök áhersla var lögð á það og það margítrekað að ekkert yrði gert eða sagt varðandi hugsanlega samninga um Icesave án þess að um það væri samstaða með Framsóknarflokknum og mér sem formanni hans. Margtryggt var og lofað hátíðlega að sá háttur yrði hafður á, engar ákvarðanir teknar og ekkert sagt án þess að ég samþykkti það. Þessi samskipti sýna það hins vegar svart á hvítu að við þetta var ekki staðið. Það hafa sem sagt átt sér stað viðræður og raunar virðast þær hafa verið komnar mjög langt án þess að við höfum verið upplýst um það í Framsóknarflokknum. Þetta tel ég vera mjög alvarleg svik af hálfu þessarar ríkisstjórnar enda gat það ekki farið á milli mála hvernig allt átti að vera í pottinn búið. Raunar hafði því verið lofað að eftir kosningar yrði haldið á þessum málum með þeim hætti að í það yrðu fengnir erlendir sérfræðingar í nákvæmlega svona samningagerð og haft sem víðtækast samráð um hvernig að því yrði staðið. En málið hefur sem sagt verið í vinnslu meðan minnihlutastjórnin sat.

En það er annað sem er sláandi í þessu, ekki bara gagnvart Framsóknarflokknum heldur þjóðinni allri. Það kom á daginn að fjármálaráðherra, eða a.m.k. aðstoðarmaður hans, og þá getum við nánast sett samasemmerki þar á milli, leyndi þjóðina, kjósendur, upplýsingum um stöðu efnahagsmála á Íslandi. Nú kann einhverja að reka minni til þess að rétt fyrir síðustu kosningar lagði ég á það áherslu í umræðu að staða þessara mála væri töluvert verri en a.m.k. hæstv. fjármálaráðherra vildi vera láta. Það vakti mjög hörð viðbrögð og ég var sakaður um að draga upp allt of dökka mynd og vera með óhóflega svartsýnisspá, og svo má lengi telja. Úr þessu varð mikil umræða en ég sé ekki annað á þessum tölvupóstssamskiptum en að það hafi þá þegar legið fyrir sem ég benti á fyrir kosningar og ríkisstjórnin hélt leyndu, að skuldastaðan var mun verri en látið hafði verið í veðri vaka. Beinlínis er tekið fram að menn vilji fela þessa staðreynd, fela hana fram yfir kosningar, vegna þess að það sé pólitískt ómögulegt að gera almenningi grein fyrir því hver staðan er raunverulega. Þetta hlýtur að teljast ákaflega alvarlegt mál þegar ráðherra og ríkisstjórn fara fram með þessum hætti.

Í þessu koma líka fram aðrar áhugaverðar upplýsingar. Til að mynda gerir Mark Flanagan, fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gagnvart Íslandi, Indriða H. Þorlákssyni, sem talsmanni íslenskra stjórnvalda, í þessu máli grein fyrir því að sú aðferð, ríkisábyrgðaraðferð, sem þar var þá þegar til skoðunar og varð síðan ofan á, breyti í raun engu hvað varðar stöðu ríkisins miðað við annað sem hafði verið til umræðu, sem ég fæ ekki annað séð af bréfinu en hafi verið að ríkið tæki þetta beint á sig. Ríkisstjórnin hefur fullyrt að við séum betur sett vegna þess að innstæðutryggingarsjóðurinn hafi tekið lánið og ríkið veiti aðeins ábyrgð fyrir innstæðutryggingarsjóðinn. Það hefur mati Marks Flanagans enga þýðingu. Hann útskýrir það hér og segir að þetta komi í sama stað niður, lendi á sama hátt á ríkinu. Þrátt fyrir það komu ráðherrar í ríkisstjórninni, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra, fram síðar og héldu því fram að á þessu væri grundvallarmunur.

Annað sem fram kemur í þessum tölvupóstssamskiptum er að fyrrnefndur Mark Flanagan útskýrir að álögurnar á Íslendinga í þessu máli hafi verið léttar eftir að í ljós kom að skuldabyrði íslenska þjóðarbúsins væri þyngri en áætlað hafði verið. Með öðrum orðum, það virðist hafa verið byrjað á því að meta hvað íslenska þjóðarbúið þyldi og út frá því tóku menn ákvörðun um hvernig ætti að rukka það. Þetta er svo sem í samræmi við það sem fram kom í fjölmiðlum núna fyrir nokkrum dögum þess efnis að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mæti gjaldeyrisafgang þjóðarinnar út frá því hvað þyrfti til að standa straum af Icesave-skuldbindingunum. Þessu er sem sagt snúið við. Það er byrjað á því að meta hvað þurfi til að standa undir þessu og svo áætla menn að það verði það sem við munum eiga afgangs. Það er sem sagt það sama sem hefur verið gert með skuldaþolið en byrjað er á því að meta skuldirnar og svo áætlað út frá því hvað er hægt að leggja á okkur.

Þá hlýtur að vakna sú spurning, ef þetta er svona tæpt, ef menn aðlaga þetta eftir því hverjar skuldirnar eru raunverulega, hvernig er þá staðan núna þegar komið er í ljós að skuldir þjóðarbúsins eru miklu meiri en gert var ráð fyrir jafnvel á þessum tíma eftir að þær höfðu verið hækkaðar og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafði fengið Breta og Hollendinga til að endurmeta innheimtur sínar? Núna er ljóst að skuldirnar eru töluvert meiri og það hlýtur þá að vakna sú spurning: Hvernig á íslenska ríkið að þola það ef þetta hefur áður verið stillt af samkvæmt lægra skuldamati? Í því skjali, sem verið hefur leyniskjal fram að þessu, koma fram ýmsar mjög áhugaverðar upplýsingar og svo virðist sem frekari upplýsingar hafi verið sendar á eitthvert mac-netfang, sem er þá væntanlega leynimakksnetfang því að í framhaldinu hafa farið fram einhverjar umræður sem er mjög óljóst hvers eðlis hafa verið. En niðurstaðan liggur fyrir og jafnframt liggur svo sannarlega fyrir að hafna þarf þessu samkomulagi, þessu frumvarpi og þessari ríkisstjórn.