138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:36]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að ég hitti Svavar Gestsson og spjallaði við hann almennt um hvernig hann sæi þetta mál fyrir sér. En að þar hafi komið fram eitthvað á borð við það sem hér er útskýrt er algerlega fjarri lagi. Það hefur verið þá svona málamyndafundur eins og þessi ríkisstjórn hefur stundum sett á. Jafnframt verð ég að gera athugasemd við þau orð hæstv. ráðherra að í þessu sé ekkert til að tala um vegna þess að þetta hafi legið fyrir í leynimöppunni. Er það þá svo að menn geta tjáð sig hvenær sem þeir vilja um það sem er í þeirri möppu? Það held ég varla. Ég held að hæstv. ráðherra hefði brugðist illa við ef menn hefðu tekið upp á því að gera það.

Ég get hins vegar viðurkennt að ég var ekki búinn að átta mig á dagsetningunni á þessum tölvupóstssamskiptum og á því að þetta hefði átt sér stað í tíð minnihlutastjórnarinnar, enda hvarflaði það hreinlega ekki að mér við það að lesa textann að þessi samskipti hefðu átt sér stað á þeim tíma.

Það er svo enn annað mál varðandi það sem hæstv. ráðherra sagði í upphafi um gagnrýni mína og ábendingar og Framsóknarflokksins fyrir kosningar. Það er annað tilvik þar sem komið hefur á daginn að reyndist rétt. Það er varðandi leyniskýrslurnar sem geymdar voru í sérstöku dulkóðuðu leyniherbergi. Það kom aldeilis á daginn að matið á stöðu bankanna sem þar birtist var nákvæmlega í samræmi við það sem við héldum fram en ekki í samræmi við það sem hæstv. ráðherra fullyrti fyrir kosningar, enda hefði það líklega, að mati ráðherrans, verið pólitískt ómögulegt rétt eins og aðstoðarmaður hans segir að það hafi verið pólitískt ómögulegt fyrir kosningar að gera grein fyrir raunverulegri stöðu íslenska ríkisins og íslensku þjóðarinnar.