138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:41]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Eins og fram kemur í þessum tölvupóstssamskiptum voru vextir reiknaðir út frá vaxtaálagi ofan á — hér minnir mig að sé talað um Parísarklúbbsvexti, aðrir hafa nefnt einhverja viðmiðunarvexti OECD. En þessir viðmiðunarvextir höfðu einmitt lækkað frá því að margnefnt minnisblað með 6,7% vöxtum var undirritað fram að því að þessi samningur var gerður um sem nam muninum á 6,7 og 5,55 eða þar um bil. Í raun og veru var verið að semja um sömu vexti eða út frá sömu forsendum og í þessu 6,7% tilviki.

Hæstv. ráðherra veit það mætavel að á þessum tíma var Framsóknarflokkurinn afar ósáttur við að samið yrði um Icesave-málið á þessum nótum. Það gat ekki farið fram hjá neinum enda var ítarlega gerð grein fyrir því. Hvað varðar hryðjuverkalögin sem hæstv. ráðherra nefndi áðan og að tekið væri tillit til þeirra, hlýtur maður að spyrja sig: Ef sú var raunin, hvernig stendur þá á því að samningarnir við Breta eru nákvæmlega eins og samningarnir við Hollendinga sem beittu okkur aldrei neinum hryðjuverkalögum?