138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:09]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Samkvæmt hefð hér í þingsal er það þannig þegar kemur að andsvörum að sá sem andsvör veitir skal beina þeim til þess ræðumanns og að máli þess ræðumanns sem verið er að svara. (Gripið fram í: Og frammíkalla líka.) Andsvör hæstv. utanríkisráðherra sneru hér að ræðu sem flutt var í dag. Til þess höfum við þetta andsvarakerfi að hægt sé að veita andsvör í framhaldi af þeim ræðum þannig að þeir sem síðan fá athugasemdir hafa möguleika á að svara fyrir sig. Það er ekki möguleiki fyrir þá þingmenn sem hér hafa setið undir ákúrum hæstv. utanríkisráðherra að svara fyrir sig þannig að ég vil gera athugasemd við þessa fundarstjórn, frú forseti.

Hvað varðar þennan þátt efnislega var niðurstaðan í málinu sú að þrátt fyrir að Icesave-frumvarpið væri nákvæmlega í sömu stöðu nú og hún var í ágúst sl. Norðurlöndin eru búin að losa sín lán þannig að allar þær hótanir, allt sem sagt var að gengi alls ekki eftir hefur breyst að hluta til, m.a. vegna þess að það var einn borgari, Gunnar leikstjóri, sem tók það upp hjá sjálfum sér að senda bréf til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, til Dominiques Strauss-Kahns, (Gripið fram í.) til þess að koma af stað hreyfingu á málið, kalla fram afstöðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins opinberlega og láta þá Norðurlöndin standa frammi fyrir því.

Það er það sem hefur svolítið skort upp á hjá ríkisstjórninni, að hún hafi tekið á þessum málum af meiri myndugleik og festu. Við höfum áður velt því upp í þessum sal að menn ættu að bera saman þann kostnað sem íslenska ríkisstjórnin var tilbúin til að ráðast í til að reyna að koma okkur Íslendingum inn í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna — ég vona að hæstv. utanríkisráðherra fái tækifæri til þess hér í þinginu að bera saman hversu miklu var til kostað, hversu margir sendimenn voru sendir út um allar trissur — og það sem við gerðum til þess að reyna að rétta málstað okkar Íslendinga í þessari hörmulegustu deilu sem við höfum átt í um langa hríð.