138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:11]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég er heppin að vera næst á mælendaskrá þannig að ég geti nú svarað einhverju af þeim dylgjum og yfirlýsingum sem hæstv. utanríkisráðherra var með, gjammandi frammi í sal hér áðan. Ég veit ekki hvar á Íslandi hann ólst upp en annað orð yfir það orð sem byrjar á „l“ eru t.d. „ósannindi“. Ég veit ekki hver á velja úr íslensku orðin sem þingmenn mega nota, (Utanrrh.: Ég ólst upp í Hlíðunum.) því miður. Þú ólst upp í Hlíðunum, það er greinilegt að (Gripið fram í.) ekki er töluð (Forseti hringir.) kjarnyrt íslenska þar.

(Forseti (ÞBack): Hv. þingmaður beini orðum sínum til forseta.)

Sjálfsagt, forseti, afsakið.

Mig langar til að benda forseta á að í byrjun júní beindi hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra hvort einhverjar líkur væru á því að það væru að koma hér samningar til landsins sem væru komnir það langt að þeir væru komnir í samningsdrög. Hæstv. ráðherra hélt nú ekki, (Gripið fram í: 11. júní. …) alls ekki. (Gripið fram í.) Tveimur dögum seinna kom hann í þingið, veifandi fullbúnum samningi og það get ég sagt ykkur að það er ekki hægt að gera svona samninga á tveimur sólarhringum þrátt fyrir að þetta séu verstu samningar sem komið hafa til Íslandsstranda. Við skulum bara segja að þetta sé þá að segja ósatt eða að hagræða sannleikanum. Hæstv. utanríkisráðherra má velja það nafn sem hann (Gripið fram í.) vill á það, en samviska (Gripið fram í.) ríkisstjórnarinnar virðist vera mjög dökk, (Forseti hringir.) svo ekki sé málað í sterkari litum. Frú forseti, get ég fengið frið til að halda hér ræðu fyrir hæstv. utanríkisráðherra? Takk.

Ég hef verið að setja þetta í samhengi fyrir þjóðina. Ríkisstjórnin leggur með öðrum orðum til að íslenska þjóðin, íslenskir skattgreiðendur greiði 100 milljónir á dag einungis í vexti næstu sjö ár. Ég hef sett þetta í samhengi og bent á að Landhelgisgæslan sem á að sjá hér um vernd og að bjarga mannslífum á hafi úti, gæta að olíumengun og öðru hringinn í kringum landið, þarf að skera niður um 300 milljónir. Hún þarf að senda TF-Eir úr landi, hún getur ekki endurnýjað samninginn. Það eru þrír dagar af Icesave-vöxtum. Það er til skammar hvernig þessi ríkisstjórn hefur haldið á málum.

Eins og flestir vita hafa rúmlega 30 þúsund Íslendingar skrifað undir áskorun til forsetans og þeim fjölgar óðum sem skrifa undir áskorun um að hann skrifi ekki undir þessi hörmungarlög. Sá forseti sem nú situr hefur einu sinni beitt þessu ákvæði þannig að hann neitaði að skrifa undir lög. Var það einsdæmi í Íslandssögunni og hefur ekki reynt á það ákvæði, hvorki fyrr né síðar. En neiti forseti að skrifa undir lög þarf frumvarpið að fara tafarlaust í þjóðaratkvæðagreiðslu. Að þessu er vikið í 26. gr. stjórnarskrárinnar og er alveg skýrt hvaða ferli fer þá af stað. Felli þjóðin málið í þjóðaratkvæðagreiðslu, falla lögin úr gildi, en þau halda gildi sínu ef þau verða samþykkt.

Mig langar aðeins að benda á það, því að það eru bundnar svo miklar vonir við að forseti Íslands hafni málinu, verði það að lögum á Alþingi — því að svo virðist vera að þessi ríkisstjórn sé komin langleiðina með að gera þetta að lögum — hef ég tekið eftir því í fréttum undanfarna daga að sagt er að forseti verði mikið í ferðalögum í desember og janúar. Skipulögð er ferð með tæplega 30 manna sendinefnd til Indlands í byrjun janúar og það eru einhverjar utanlandsferðir hjá honum í desember þannig að mér segir svo hugur miðað við allt að forsetinn passar sig á því að vera ekki heima þegar skrifa þarf undir lögin. Forseti getur gefið sér allt að hálfan mánuð til að undirrita lög eftir að þau hafa verið samþykkt á Alþingi. Stjórnarþingmenn hafa brugðið á það ráð að kalla inn varaþingmenn. Það gerðist síðast í dag að hv. þm. Atli Gíslason kallaði hér inn varaþingmann, enda líður nú að lokum þessa Icesave-máls. Ég spurði þingmann í dag hvað mundi gerast ef allir þingmenn væru svo ábyrgðarlausir að hlaupa frá störfum sínum ef eitthvað erfitt mál kæmi fyrir þingið. Það mundi skapast hér ringulreið. En þetta er eitthvað sem ákveðnir þingmenn hafa leyft sér að gera, sá sami þingmaður sem ég er að tala um gerði þetta líka í ESB-málinu. Það er auðvelt að vera þingmaður og þurfa aldrei að taka á erfiðum málum. Hugsið ykkur það. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Ég bið þingmanninn að gæta orða sinna.)

Afsakið, forseti, sagði ég eitthvað dónalegt núna eða …? (Gripið fram í: Já.) Ég biðst afsökunar á því.

En ég ætla að benda á að verði forseti ekki heima þegar lögin verða hér samþykkt á Alþingi, sem allt virðist stefna í, eru það handhafar forsetavaldsins sem skrifa undir lögin. Það eru nú hvorki meira né minna forsætisráðherra, það er forseti þingsins og það er forseti Hæstaréttar. Þarna myndast svigrúm fyrir framkvæmdarvaldið, að undanskildum forseta Hæstaréttar, að kvitta sjálft undir sín lög. Það er ekki ásættanlegt í svona stórum málum eins og nú liggja fyrir þinginu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þjóðin verður að standa með okkur í minni hlutanum hér á þingi.

Það verður að skrifa undir fleiri áskoranir á forsetann, það þarf að höfða til samvisku hans því að hann kom með yfirlýsingu þegar hann skrifaði undir lögin í sumar, þann 2. september, um að hann gæti einungis fallist á að skrifa undir þau lög vegna þeirra sterku fyrirvara sem hann taldi, eins og meiri hluti þingsins, vera í lögunum. Hann er raunverulega búinn að gefa það út að þessi lög verða ekki samþykkt nema með þessari yfirlýsingu, það er búið að draga allar tennur úr lögunum enda er það hreint með ólíkindum, svo ég segi það einu sinni enn því að þetta verður líklega mín síðasta ræða í 2. umr., að Bretar og Hollendingar hafi hér orðið löggjafarvald. Framkvæmdarvaldið er að selja dómsvaldið úr landi með frumvarpi þessu. Eini þáttur þrígreiningarinnar sem eftir er hér er framkvæmdarvaldið og við sjáum hvernig það stendur sig.

Ég er hér með frásögn af fundi í Seðlabanka Íslands frá því 4. desember 2009 þar sem nokkrir Íslendingar gengu á fund með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Franek og Flanagan. Þeir sendu Strauss-Kahn bréf. Það er ansi fróðlegt að rifja þetta upp og kannski nokkuð skemmtilegt að setja þetta inn í þingræðu til að sýna hvað málið er byggt á veikum grunni sem og öll samskipti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við Ísland í kjölfarið af því að hér var bankahrun. Flanagan tókst ekki að sýna fram á með rökum hvernig vöruskiptajöfnuður Íslands yrði jákvæður um u.þ.b. 160 milljarða næstu 10 árin. Það er nú eitt. (Gripið fram í: Gylfi var búinn að …) Já, fyrst hæstv. utanríkisráðherra minnist á hæstv. viðskiptaráðherra ætla ég nú bara að segja að það er hreint með ólíkindum sú niðurlæging sem löggjafarvaldið varð fyrir af hálfu hæstv. viðskiptaráðherra nú fyrir helgi þar sem hann sagði í erlendum fjölmiðlum að hann væri þess fullviss að Icesave-samningarnir færu hér í gegnum þingið og yrðu að lögum. Hæstv. ráðherra hefur ekki einu sinni atkvæðisrétt hér í þessum sal. Hvernig er hægt að skipa svona fyrir fram og til baka? Það væri óskandi (Gripið fram í.) að þessi sami ráðherra (Gripið fram í.) mundi tala við íslenska fjölmiðla en ekki alltaf hreint vera að tala við erlenda aðila úti í heimi. Svo fáum við ummælin í gegnum fréttaveitur hingað heim. Það er nú eitt af því sem ríkisstjórnin þyrfti að laga sig, þ.e. samskipti hennar við fjölmiðla og að gefa réttar upplýsingar sem við eigum ekki að þurfa að fá frá erlendum aðilum.

Það er farið að styttast í þessu. Ég ætla að fara betur yfir þessa frásögn, ég gauka þessu kannski að einhverjum öðrum alþingismanni. Þetta er hægt að nálgast inni á netinu þannig að ég hvet þjóðina til þess að kíkja á það. Framsóknarflokkurinn stendur áfram með þjóð sinni. Framsóknarflokkurinn stendur áfram með komandi kynslóðum. Við stöndum með náttúruauðlindum okkar. Við stöndum við bakið á fjölskyldum og heimilum í landinu. Mér finnst vel vil hæfi að ljúka þessari ræðu á einu litlu kvæði eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Hann vann til verðlauna í samkeppni um Alþingishátíðarkvæði árið 1930 og það hljóðar svo:

Sjá, dagar koma, ár og aldir líða,

og enginn stöðvar tímans þunga nið.

Í djúpi andans duldir kraftar bíða.

Hin dýpsta speki boðar líf og frið.

Í þúsund ár bjó þjóð við nyrstu voga.

Mót þrautum sínum gekk hún, djörf og sterk,

í hennar kirkjum helgar stjörnur loga,

og hennar líf er eilíft kraftaverk.

Ég trúi á íslenska þjóð. Það er óásættanlegt hvernig þessi ríkisstjórn hefur farið með hana undanfarnar vikur.