138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:22]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að biðja hæstv. forseta um að sýna umburðarlyndi því ágæta fólki sem er þarna uppi í galleríinu. Sjálfur hefði ég klappað fyrir þessum ljóðalestri hjá hv. þingmanni og satt að segja tel ég að hún ætti að gera sér ríkara far um að nota tíma sinn hér til þess að lesa upp ljóð en að fara með þessi endemis kvæði sem hún yrkir yfirleitt úr ræðustólnum um hæstv. ríkisstjórn.

Ég verð nú að segja að ég var giska ánægður með ræðu hv. þingmanns og sérstaklega vegna þess að hún sá aðeins að sjá að sér um orðafar og er hætt að nota l-orðið. Mér finnst það vera framför. Það sýnir mér alla vega að þessi umræða hefur einhverju skilað.

Af því hv. þingmaður hefur áhyggjur af því hverjir munu að lokum styðja eða staðfesta lögin, hef ég nú tekið eftir því að hv. þingmaður gefur sér niðurstöðuna með því að taka svo til orða. Hún talaði um að það væri mikil óhæfa ef framkvæmdarvaldið kæmi að því að staðfesta þetta, og gefur sér niðurstöðuna. Það er töluvert meira en hæstv. viðskiptaráðherra gerði. Hann leyfir sér þó bara að hafa skoðun, hann kvaðst þess fullviss að þetta yrði samþykkt hér, (Gripið fram í.) en hann gefur sér það ekki eins og hv. þingmaður. En enginn þingmaður hefur haldið jafn innblásnar ræður um réttarríkið og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir. Eitt af grundvallaratriðum réttarríkisins er einmitt heimild manna og frelsi til þess að hafa skoðanir og tjá þær. Af hverju kemur þá hv. þingmaður, unnandi réttarríkisins, hingað upp og kvartar undan því að hæstv. viðskiptaráðherra hafi skoðun og leyfi sér að tjá það, jafnvel þótt það sé í útlöndum? Mér þætti vænt um ef hv. þingmaður, sem hefur lýst því yfir að hún ætli ekki að halda fleiri ræður, mundi alla vega íhuga þetta inn í nóttina og geti kannski svarað þessu í 3. umræðu.