138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:28]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þessa hugleiðingu. Ég ætla jafnframt að upplýsa um það að ég kann að telja. Ríkisstjórnin hefur hér stjórnarmeirihluta, þótt naumur sé í sumum málum, en hæstv. utanríkisráðherra verður líka að gera sér grein fyrir því að (Gripið fram í.) hæstv. viðskiptaráðherra er ráðherra. Hann er hluti af framkvæmdarvaldinu og hefur ekki atkvæðisrétt hér inni á Alþingi. Ég er þó enn þá bara óbreyttur þingmaður þannig að við skulum átta okkur á muninum á stöðu (Gripið fram í.) minni og hæstv. viðskiptaráðherra.

Ég veit ekki með þumalskrúfur hæstv. utanríkisráðherra, en einhverjar þumalskrúfurnar voru notaðar þegar hv. þm. Ögmundur Jónasson var rekinn úr ríkisstjórninni, úr því að hæstv. utanríkisráðherra fór að blanda Ögmundi hér fjarstöddum inn í þetta mál, hann sagði frá því sjálfur. Af því að hann gekk ekki í takt eins og Samfylkingin í Garðabæ vill að Vinstri grænir gangi, var hann rekinn úr ríkisstjórninni. Mér er því sama hvort þær séu ryðgaðar þessar þumalskrúfur eða hvort þær séu nýsmurðar, það breytir því ekki að hér stýrir framkvæmdarvaldið þessu máli með alveg rosalegu harðræði, svo miklu að hæstv. forsætisráðherra kom hér fram, grá fyrir járnum með grýlukerti í hárinu og sagði: „Hér verður kaldur frostavetur ef þið samþykkið ekki Icesave.“

Frú forseti. Ég held ég láti þetta vera mín lokaorð, um hneisuna þegar hæstv. forsætisráðherra kom hér og hótaði þjóðinni enn á ný.