138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér enn Icesave og þeirri umræðu er ekkert lokið. Ég hef verið að geta mér til um skoðanir stjórnarliða vegna þess að þeir hafa bara ekki tekið þátt í umræðunni. Ég gat mér til um skoðanir hv. þm. Helga Hjörvars og var kominn nokkuð langt í því. Ég taldi að hann mundi greiða atkvæði með þessu frumvarpi en hann hefur ekkert tjáð sig um það og er hann þó formaður efnahags- og skattanefndar. Ég taldi að hann mundi greiða atkvæði með þessu vegna þess að hann hlýðir kalli flokksins, ekki vegna þess að hann hefur neina sérstaka skoðun á því hvort þetta sé gott eða slæmt fyrir þjóðina. Mig grunar meira að segja að hv. þingmaður telji þetta vera slæmt fyrir þjóðina. En það skiptir ekki máli.

Eins og hv. þm. Eygló Harðardóttir sagði, snýst þetta hjá mörgum stjórnarliðum um trú, trú á það að þetta reddist nú allt saman, trú á að það verði góðar tilviljanir, trú á að engar slæmar tilviljanirnar verði og trú á að þetta gangi allt saman. Og ef það skyldi nú ekki ganga, frú forseti, ætla sumir eins og hæstv. utanríkisráðherra bara að afnema ríkisábyrgðina í þeirri stöðu. Hann sagði það í ræðu. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson, formaður nefndarinnar, sagði líka að það ætti að afnema ríkisábyrgðina. Sumir segja að þá muni Evrópusambandið bjarga okkur eða bara að eitthvað gerist, menn muni redda okkur einhvern veginn. Það er náttúrlega afskaplega barnalegt. Þegar menn eru búnir að skrifa undir lánssamning með ríkisábyrgð gildir hann, það er lánssamningur sem menn eiga að standa við.

Ég ætla nú að fara í gegnum röðina. Hv. þm. Anna Pála Sverrisdóttir hefur ekki tjáð sig mikið um málið og það sem hún sagði var ekki efni málsins. Það voru tvö andsvör þar sem hún talaði um í þrjár mínútur samtals. Hún ætlar bráðum að greiða atkvæði um þetta mál og það væri mjög fróðlegt, frú forseti, fyrir þingheim að heyra hjá henni hvers vegna hún ætlar að greiða atkvæði með þessu, hvers vegna hún ætlar að sitja hjá eða hvers vegna hún greiðir atkvæði gegn þessu. Það væri yfirleitt mjög fróðlegt að heyra hvaða skoðun hún hefur á málinu, (Gripið fram í.) hv. þm. Anna Pála Sverrisdóttir. Hún er nú reyndar ekki viðstödd núna en hún hlýtur að fylgjast með umræðunni því að það er lagaskylda. Ég býst við því að hv. þingmaður taki þetta til sín, skundi hér í þingsal og taki þátt í umræðunni því að enn er lag, frú forseti, og ég geri ráð fyrir að hún tjái þingheimi skoðanir sínar um málið. Enda var það þannig í hv. efnahags- og skattanefnd að málið var rifið þaðan út með látum því að það mátti ekki einu sinni ræða það þar. Hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði að við skyldum ekkert vera að ræða þetta í nefndinni, við skyldum ræða það í þingsal, sagði hann. Hv. þm. Ögmundur Jónasson ætlar að skipast á skoðunum við mig en hann hefur ekki sagt bofs í umræðunni um þetta mál núna í haust. Það er mjög athyglisvert.

Næsti þingmaður í stafrófsröðinni heitir hv. þm. Atli Gíslason. Á laugardaginn var ég byrjaður að hugleiða afstöðu hans í málinu, hann hefur talað fjórum sinnum í andsvörum, samtals í átta mínútur. Það var ekki efnislegt, það var ekki um efni málsins. Ég þekki hv. þm. Atla Gíslason af góðu einu, hann er lögfræðingur og hefur mikinn áhuga á mannréttindum. Nú er að koma í ljós, virðist vera, að þetta frumvarp sem við erum að samþykkja er nánast ótakmarkað í magni og áhættu, það stangast á við stjórnarskrána, frú forseti. Ég hélt nú að hv. þingmaður færi þá á flug og mundi sýna okkur fram á að það gætum við ekki samþykkt. En hann er farinn úr þingsal, frú forseti. Hann er bara farinn í sveitina sína að sinna bókhaldi. Þetta er með ólíkindum. Ég er hérna með ræðuna sem hann flutti í sumar, þar sem hann sagðist hafa sent bréf 21. júlí til þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Það væri nú gaman að sjá þetta bréf, frú forseti, því að það er leyndarmál enn þá. Þar sagðist hann hafa ítrekað afstöðu sína til Icesave-málsins að gefnu tilefni. Einhver spurði: Hvenær? Það var 21. júlí 2009. Þessa ræðu hélt hann 21. ágúst, rétt áður en lögin voru samþykkt. Hann segir ýmislegt í þessari ræðu. Hann segir, með leyfi frú forseta:

„Ég minnti líka á og taldi það fram sem rök að eftiráríkisábyrgð væri brot á fjórfrelsinu, þ.e. ég hélt að það væri brot á fjórfrelsinu og samkeppnisreglum ESB. Hefðum við samþykkt þessa ríkisábyrgð í janúar 2008 hefðum við fengið mikla skömm í hattinn frá Eftirlitsstofnun ESA.“

Hann sem sagt lýsir því yfir að þetta brjóti samþykktir Evrópusambandsins. Mjög athyglisvert, en nú er hann ekki lengur til að svara fyrir þetta, það er mjög slæmt.

Svo segir hann hérna í þessari sömu ræðu, með leyfi frú forseta:

„Auðvitað eru órjúfanleg tengsl milli Icesave-samningsins, ESB-umsóknarinnar og fyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.“

Þetta er mikill sannleikur. En nú er bara kominn einhver varamaður og ég er reyndar búinn að kanna afstöðu hennar líka, en það var miklu grynnra á því hjá hv. þingmanni.

Hann segir, með leyfi frú forseta:

„Við stöndum frammi fyrir tveimur afarkostum. Annaðhvort að samþykkja samninginn eða fella hann. Í ljósi þeirra lagalegu og efnahagslegu fyrirvara sem nú hafa náðst og þeirrar breiðu samstöðu sem einnig framsóknarmenn lögðu sitt af mörkum til að næðist — því að þótt framsóknarmenn vilji ganga lengra þá met ég vinnu þeirra sem leiddi til þeirra fyrirvara enda hafa þeir lýst ánægju sinni yfir efnahagslegu fyrirvörunum þó að þeir gagnrýni þá, þannig að það lögðu allir sitt af mörkum — í ljósi þessa var það mitt heildarmat að það væri illskásti kosturinn að samþykkja samninginn.“

Hann er sem sagt að lýsa fyrirvörunum sem samþykktir voru í sumar.

Samt segir hann hérna í lokin, með leyfi frú forseta:

„Þetta vildi ég sagt hafa til að skjalfesta afstöðu mína í þessu máli. Það er mér beiskur kaleikur að samþykkja þennan samning. Það er mjög beiskur kaleikur.“

Þessi hv. þingmaður er kominn í leyfi, þetta er nú ekki meiri kaleikur en það, og ætlar að sinna bókhaldi. Ég veit ekki hvernig ég á að meta það, en kjósendur verða að gera það hver og einn. Ég er viss um að fjöldi Íslendinga mundi bjóðast til að sinna þessu bókhaldi fyrir hann þannig að hann gæti verið hérna sem einarður baráttumaður gegn Icesave, sem á eftir að kosta þjóðina óhemjupeninga, jafnvel þannig að bókhaldið mundi springa hjá honum ef færa ætti þær tölur. (Gripið fram í.) Sumir sinna sjómennsku eins og gert var í sumar, en það eru reyndar ekki allir. Það eru tveir hv. þingmenn sem hafa gert það.

Hv. þm. Arndís Sigurðardóttir, sem mætti til þings í dag sem varamaður Atla Gíslasonar. Ég er búin að reyna að komast að hennar afstöðu af því hún hefur ekki tjáð sig í málinu. Það er kannski ekki furða af því að hún er nýkomin á þing aftur. Hún hefur verið áður á þingi en hún hefur sem sagt ekki tjáð sig um málið. Hv. þingmaður hefur sem sagt tækifæri til þess í þessari umræðu núna að tjá sig þannig að ég viti hvaða rök hún hefur í málinu, ef hún skyldi greiða atkvæði með frumvarpinu. Hún gæti kannski sannfært mig um að sitja hjá í málinu ef rökin hennar eru góð, en hún talar hérna 31.7. 2009 í grein um flokksagann og ESB.

En nú er tíminn hlaupinn frá mér hratt og vel og þetta er nú alls ekki síðasta ræðan sem ég ætla að halda núna í kvöld, það er langt því frá, frú forseti. En ég þarf að reyna að grafast fyrir um hvaða undarlegu skoðanir hv. stjórnarliðar hafa í þessu máli því að þær skoðanir hafa bara ekki komið fram. Mér finnst það mjög slæmt því að við stjórnarandstæðingar ræðum hérna saman, tölum hvert upp í annað og erum öll á móti þessu. En það getur vel verið að það séu einhver svakalega sniðug rök fyrir því að samþykkja þetta frumvarp sem við komum bara ekki auga á vegna þess að þau eru svo sniðug. Kannski flytur trúin fjöll. Þótt ég geti nú stundum verið trúaður, frú forseti, vil ég ekki að þjóðin mín líði fyrir mína trú.