138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:41]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði aðeins að ræða við hv. þm. Pétur Blöndal, vegna þess að hann var í ræðu sinni að giska á afstöðu einstakra þingmanna. Þá fór ég að velta fyrir mér þeirri nöturlegu staðreynd að stjórnarmeirihlutinn, Vinstri grænir og Samfylkingin, ætluðu að samþykkja Icesave. (Gripið fram í: Ekki alveg gefið.) Ja, ekki alveg gefið, það er rétt, maður vonar það besta, en mér sýnist það nú vera nokkuð öruggt að búið sé að berja menn til hlýðni. (Gripið fram í.) Steingrímur J. Sigfússon, hæstv. fjármálaráðherra, lýsti því hér yfir að það væri eitthvað óskilgreint, hræðilegt, úti í samfélaginu sem gæti gerst. Ég er búinn að reyna í allt sumar að komast að því hvað gæti gerst, eins og t.d. hvort gengið muni falla. Það er fullyrt að gengið muni batna ef við samþykkjum Icesave þannig að ef greidd væru atkvæði með málinu á morgun, mun gengið væntanlega batna, ég vil að fólk átti sig á því.

En mig langaði að spyrja hv. þingmann, fyrst hann er að reyna að átta sig á því hver afstaða einstakra þingmanna er, hvort hann sé ekki reiðubúinn að hjálpa mér að finna hvað þetta hræðilega er sem hæstv. fjármálaráðherra hefur lýst yfir að gæti gerst á Íslandi. Við fáum engar upplýsingar frá honum sjálfum. Hann hefur neitað að gefa þær. Ég held að þetta sé bara blekking, hluti af hræðsluáróðrinum. Við ættum kannski að velta upp einhverjum hugsanlegum draugum og fyrst hv. þingmaður er byrjaður að skoða málið held ég að hann sé best til þess fallinn að halda því áfram.