138. löggjafarþing — 40. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:01]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að stóra spurningin núna þegar við erum að halda hér áfram á miðnætti þann 7. desember 2009, sé þessi: Af hverju? Ég veit ekki hvort fólk gerir sér grein fyrir því en samkvæmt þeirri áætlun sem þingið lagði upp með eigum við núna átta þingdaga eftir. Við erum í mun verri stöðu hvað fjárlög varðar fyrir ári síðan. Fyrir rúmlega ári síðan vissu allir hvert stefndi. Unnið var hratt í því að semja ný fjárlög. Það var búið að leggja þau fram. Samin voru ný fjárlög. Núna erum við komin styttra á veg en á sama tíma í fyrra. Einhver mundi segja: Heyrðu, við skulum ýta öllu frá vegna þess að við þurfum að klára þessi mikilvægu mál sem eru fjárlög næsta árs og allt sem þeim tilheyrir. Fjárlögin eru ekki bara tölur á blaði. Fjárlögin eru heilbrigðiskerfi okkar, þau eru menntakerfi okkar, þau eru velferðarþjónustan, þau eru samgöngurnar, þau eru dómskerfið, allir þessir þættir. En núna, þegar þetta er allt saman vanbúið, hvort sem það heita fjárlög, fjáraukalög eða það sem þeim tilheyrir, ætla menn samt sem áður að klára þetta mál, Icesave.

Hér er búið að spyrja hvað eftir annað: Af hverju? Það vita allir í hvaða stöðu við Íslendingar erum í. Menn þekkja forsöguna en þeir hljóta að spyrja: Hvað gæti tapast við að fara betur yfir málið? (Gripið fram í: Nákvæmlega ekki neitt.) Nákvæmlega ekki neitt. Þvert á móti mundi það styrkja stöðu okkar án nokkurs vafa. (Gripið fram í: ... fleiri tölvupóstar?) Það er kannski eina skiptið sem náðist þokkaleg samstaða um þetta mál, það var í sumar, allir þeir fyrirvarar sem menn settu, sem forustumenn stjórnarflokkanna komu og sögðu: Þetta er í lagi, þetta er innan ramma samkomulagsins, við treystum okkur alveg til að framfylgja þessu. Það er búið að henda út öllum þeim fyrirvörum sem settir voru þarna inn. Þvert á það sem forustumenn stjórnarflokkanna lofuðu, mættu þeir til viðsemjenda sinna, lyppuðust niður, koma síðan með þetta mál núna, treysta því að þjóðin sé búin að fá nóg af umræðunni og læða þessu í gegn.

Virðulegi forseti. Af því að hér hafa menn talað um vinnubrögð, bæði stjórnar og stjórnarandstöðu, get ég alveg sagt að sagnfræðingar munu skoða þessa umræðu. Komandi kynslóðir munu skoða hana. Menn munu skoða hvort hér hafi allt verið gert til að koma í veg fyrir þetta stórslys. Og það er algjörlega ljóst að menn munu segja — munu kannski gagnrýna stjórnarandstöðuna fyrir eitt, að hafa ekki talað meira í málinu og ekki gengið lengra í að reyna að sannfæra stjórnarmeirihlutann um það að gera rétt. Það mun enginn gagnrýna stjórnarandstöðuna fyrir að hafa gengið svona hart fram eins og raun ber vitni í þessu máli. Enginn mun gera það, virðulegi forseti.

Ég vek athygli á því að málstaður stjórnarinnar er svo slæmur að allt það sem við höfum nefnt er búið að blása af borðinu. Menn sögðu hér fullum fetum að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn krefðist þess að við kláruðum þetta frumvarp. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sagði bara: Þetta er bara misskilningur. Ekki þegar forustumenn ríkisstjórnar spurðu. Nei, það er vegna þess að leikari hér í borg sendi bréf til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þeir bentu að vísu á Norðurlöndin, en Norðurlöndin sögðu: Nei, það voru ekki við, við höfum enga ástæðu til þess að tengja þessi tvö mál saman, lánin til Íslands og Icesave. Jafnvel þótt það væri ástæðan er ekkert sem kallar á það að ýta þessu máli ekki frekar fram yfir áramót, þessu stóra máli, þessu óafturkræfa máli, sem er ekki bara að hafa áhrif á fjárlög næsta árs, það eru ekki nema 30–40 milljarða vaxtagreiðslur sem er nú bara einn rekstur á einum Landspítala, heldur er þetta um ókomna tíð.

Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að þegar menn eru búnir að skrifa undir svona, er það ekki aftur tekið. Það var frétt í Pressunni í dag, sem segir frá því að Þjóðverjar eru enn að greiða stríðsskaðabætur frá fyrri heimsstyrjöldinni. Og fyrri heimsstyrjöldin, ef ég man rétt, virðulegi forseti, stóð frá árinu 1914 til 1918. Þannig að heilli öld seinna eru Þjóðverjar enn að greiða. Og allir þeir útreikningar sem gerðir hafa verið sýna það að við verðum í svipaðri stöðu, eða mjög líklega, það veit það auðvitað enginn, vegna þess að það þarf að flýta þessu svo mikið í þessu máli.

Staðreyndin er sú, virðulegi forseti, að ef maður nær tali af þessum ágætu stjórnarliðum og auðvitað er mikið af prýðilegu fólki þar, (Gripið fram í: Undir fjögur?) segja þeir, undir fjögur, eins og hv. þm. Pétur Blöndal segir: Veistu, það þarf ekki að hafa áhyggjur af þessu, vegna þess að það er ekki hagur þessarar þjóðar að keyra okkur í kaf. Maður heldur alltaf að það komi í kjölfarið, þess vegna skulum við staldra við, vegna þess að það er ein af ástæðunum fyrir því að það gerir stöðu okkar þokkalega. Nei, menn trúa því að með því að samþykkja það muni þetta einhvern veginn reddast.

Það er enginn vafi í mínum huga að Samfylkingin sem trúir á fyrirbæri sem heitir Evrópusambandið og gerir öllum þeim einstaklingum sem eru fylgjandi því að við göngum í Evrópusambandið og skoðum það afskaplega erfitt fyrir, vegna þess að þeir tala um Evrópusambandið eins og þetta sé Hálsaskógur, virðulegur forseti, eftir að Mikki refur varð grænmetisæta. Þetta sé einhvers konar algott samfélag, öll dýrin í skóginum eru vinir og um leið og við förum þarna inn munu þeir redda okkur einhvern veginn. Virðulegur forseti. Þetta er mjög dýr barnaskapur.

Síðan sýnist mér að hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, sé búinn að persónugera þetta mál. Málið snýst ekki lengur um efni þess heldur snýst þetta um hann og það er mjög vont. Málið er miklu stærra heldur en allir þeir einstaklingar sem hér eru inni eða sem eru í ríkisstjórn. En þetta er orðið mikil þrákelkni og það erfiðasta í þessu máli er að við höfum aldrei borið gæfu til þess að standa saman, Íslendingar, gegn viðsemjendunum í þessu máli. Það er mikið ólán fyrir þjóðina að við höfum núna hæstv. forsætisráðherra sem hefur allan sinn pólitíska feril, sem spannar nú nokkra áratugi, ávallt verið í deilum, hvort sem það hefur verið við samherja eða andstæðinga. Sá ágæti stjórnmálamaður, hæstv. forsætisráðherra, hefur aldrei náð að sameina menn um málstað. (Gripið fram í.) Og við þyrftum nákvæmlega á slíku að halda.

Ég vil enn og aftur, virðulegi forseti, ég er búinn að segja það oft í þessum ræðustól, bjóða það og ég veit að það eru allir þingmenn stjórnarandstöðunnar tilbúnir í þá vegferð, að menn rífi þetta upp úr þessum skotgröfum og reyni að vinna saman með þetta mál, þannig að við horfum ekki fram á þetta slys sem við vitum að vofir yfir.

Ég hvet, virðulegi forseti, stjórnarliða til þess að draga andann djúpt og hugsa þetta aðeins. Er það ekki þess virði að við skoðum þetta vel, einbeitum okkur líka að því sem við þurfum að gera og höfum í besta lagi nokkra daga til, að sjá til þess að hér verði ekki sú staða uppi í ríkisfjármálum að það muni skerða grunnþjónustu okkar, því að það er uppi á borðinu eins og staðan er núna? Ég bara bið hv. þingmenn, (Forseti hringir.) stjórnarliðana, að draga andann djúpt og hugsa þetta einu sinni enn, ef ekki fyrir sjálfa sig og nútímann, þá fyrir framtíðina og komandi kynslóðir.