138. löggjafarþing — 40. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:11]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Hér hefur verið komið víða við. Ég ætla að snerta á tveimur þáttum í ræðu minni. Annað er nú það að hv. þm. Pétur Blöndal hefur hér farið ýmsum orðum um afstöðu hv. þingmanna stjórnarflokkanna til málsins og orðið að geta sér til um afstöðu þeirra flestra, þar sem ekki hafa legið fyrir upplýsingar um afstöðu þeirra í þessari umræðu. Einn er sá þingmaður hv. sem hefur farið nokkrar krókaleiðir til að koma afstöðu sinni á framfæri. Í umræðum á laugardag vísaði ég í ritdóm sem hv. þm. Ögmundur Jónasson skrifaði í tímaritið Þjóðmál þar sem hann kom fram með mjög harða gagnrýni á málsmeðferð bæði fyrrverandi og ekki síður núverandi ríkisstjórnar varðandi með þetta mál, hvernig á því hefði verið haldið. Nú í kvöld skrifar hv. þm. Ögmundur Jónasson grein á heimasíðu sína, þar sem hann leggur nokkuð út af ályktun sem kom frá Félagi samfylkingarmanna í Garðabæ, sem nokkuð var rædd hér í þinginu í morgun. Hv. þm. Ögmundur Jónasson segir í þessari grein, með leyfi forseta:

„Í þorskastríðunum fyrr á tíð tókst Íslendingum vel að standa saman. Ekki svo að skilja að alltaf væru allir á sama máli. Síður en svo. Menn deildu um áherslur og stundum leiðir. En í grundvallaratriðum stóð þjóðin sameiginlega að sameiginlegu hagsmunamáli. Þannig hefði það einnig þurft að vera í Icesave-deilunni. Slíkri samstöðu er stundum ruglað saman við hjarðmennsku; að allir gangi í takt. Svona eins og hermenn gera. Þeim er uppálagt að hlýða öllum fyrirskipunum möglunarlaust, gera einsog þeim er sagt. Sagan kennir að þannig sé hægt að láta þá framkvæma nánast hvað sem er.“

Síðan, hæstv. forseti, vitnar hv. þm. Ögmundur Jónasson í það að hann hafi orðið vitni að þjálfun hermanna í Bretlandi og er með einhverjar lýsingar á því hvernig hermenn hafi verið þjálfaðir í að fylgja fyrirmælum hugsunarlaust sem viðbragð við skipun. Svo segir hv. þingmaður, með leyfi forseta:

„Svo er að skilja á Samfylkingarfélagi Garðabæjar að þannig eigi þetta að vera í pólitíkinni líka; að allir gangi í takt og fari að fyrirskipunum. Þá gangi allt vel. Í ályktun sem félagið sendi frá sér um Icesave-málið í nýliðinni viku, segir að Samfylkingin í Garðabæ hvetji þingmenn VG til þess „að taka þingflokk Samfylkingarinnar sér til fyrirmyndar og ganga í takt og í samræmi við ríkisstjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar, öllum til heilla.““

Svo mörg voru þau orð. Hv. þingmaður reyndar vísar reyndar til ýmissa þátta og fer fögrum orðum um ýmis grunngildi sem séu viðhöfð í starfi núverandi ríkisstjórnar og allt gott um það að segja, það er afstaða hv. þingmanns og hann frjáls að þeirri skoðun sinni. En síðan segir hv. þm. Ögmundur Jónasson í þessari grein, með leyfi forseta:

„Fyrirskipanapólitíkin með sínu samræmda göngulagi er meira í ætt við vinnulag Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þeirra sem hann starfar fyrir, en þá seiglu sem velferðaruppbyggingin kallar á. Hlýðni og undirgefni, hugsunarlaus viðbrögð við skipunum, er einmitt sú meinsemd sem varð völd að efnahagshruninu sem við súpum nú seyðið af. Má ég frekar biðja um fulla meðvitund og vakandi dómgreind — jafnvel þótt það þýði eitthvert misræmi í göngulagi endrum og eins?“

Þetta sagði hv. þm. Ögmundur Jónasson í grein á heimasíðu sinni og hefði ýmsum þótt að vel færi á því að hv. þingmaður hefði látið þessi sjónarmið í ljós hér í þingsal. En allt um það, hann er auðvitað frjáls að því hvenær hann tekur til máls og hvernig. En eins og ég sagði í upphafi hefur hv. þm. Ögmundur Jónasson farið nokkrar krókaleiðir til að koma afstöðu sinni á framfæri þótt öllum sé ljóst að samþykkt þessa frumvarps hér á þingi er honum mjög á móti skapi. Þessi grein er auðvitað ákall hv. þm. Ögmundar Jónassonar til þingmanna stjórnarflokkanna. Það er ekki hægt að skilja þessi orð öðruvísi en sem ákall til þingmanna stjórnarflokkanna um að fylgja eigin sannfæringu en taka ekki við fyrirskipunum og láta ekki telja sér trú um að það sé nauðsynlegt að þeir gangi með taktföstu skipulagi, taktföstum hætti í einhverjum gæsagangi í átt til niðurstöðu í þessu máli. Það er ekki hægt að skilja orð hv. þm. Ögmundar Jónassonar öðruvísi. Þetta er auðvitað athyglisvert einmitt þegar haft er í huga hversu mikil þögn þingmanna stjórnarflokkanna hefur verið í þessari umræðu. Þögnin hefur verið æpandi eins og ég hef áður sagt.

Þetta vildi ég sagt hafa um þennan þátt.

Ég vísaði hér fyrir helgi trúi ég í ummæli Steingríms J. Sigfússonar, hæstv. fjármálaráðherra, sem falla alveg í sama farveg og ummæli hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Ögmundur er sem sagt að halda á lofti því sjónarmiði sem hæstv. fjármálaráðherra hafði þegar hann var leiðtogi í stjórnarandstöðunni og sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Má ég þá frábiðja mér það að menn komi hér með þau nauðungarrök að þeir séu í liðinu, af því þeir séu stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar verði þeir að láta sig hafa það. Það er ekki þannig, það er þvert á móti algjörlega öfugt. Menn eru skyldugir til að fylgja sannfæringu sinni.“

Þetta sagði hæstv. fjármálaráðherra á þingi í maí 2004. Þessi afstaða er skýr og þessi afstaða ætti sérstaklega að vera töluvert umhugsunarefni fyrir einhverja úr hópi hinna þöglu þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem látið hafa þessa umræðu að mestu fram hjá sér fara ef undan er skilinn hæstv. fjármálaráðherra og hv. þm. Björn Valur Gíslason, sem gengur í góðum takti. (Gripið fram í.)

En ég treysti því að þeir hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem ekki muna þessi ummæli Steingríms J. Sigfússonar, hæstv. fjármálaráðherra, og ekki hafa kannski enn þá kynnt sér þessi skrif hv. þm. Ögmundar Jónassonar að þeir heyri a.m.k. mál mitt, því að eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði hér áðan, geri ég ráð fyrir því að þeir fylgist með þessum umræðum á skrifstofu sinni.

Þetta mál er auðvitað enn í fullum gangi hér í þinginu. Það stefnir í að hér verði atkvæðagreiðsla að lokinni 2. umræðu upp úr hádegi á morgun, en þá er auðvitað mikil vinna fyrir höndum og ég álít að fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjárlaganefnd og forustumenn flokkanna hafi náð verulegum árangri í dag við að afstýra slysi, sem stefndi í hér í morgunsárið þegar kom í ljós á fundi fjárlaganefndar að formaður og varaformaður nefndarinnar höfðu einhvern allt annan skilning á því samkomulagi sem hér var gert á föstudagskvöldið en aðrir þingmenn. En ég álít að gengið hafi verið þannig frá málum og búið um hnúta að yfirferð og umfjöllun fjárlaganefndar verði ítarleg, efnismikil og fagleg.

Hér í þessari umræðu hafa auðvitað komið fram ótalmörg sjónarmið og á opinberum vettvangi á sama tíma hafa komið fram fjölmargar athugasemdir við þetta frumvarp, sem hv. fjárlaganefnd verður að sjálfsögðu að fara vel yfir og fjalla um. Þau hafa verið tekin saman í þeim punktum sem þingmenn stjórnarandstöðunnar í fjárlaganefnd hafa lagt fram og hafa verið tekin til jákvæðrar skoðunar og samþykkt af hálfu stjórnarmeirihlutans að verði skoðuð í nefndinni. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt að þetta verði gert með vönduðum og faglegum hætti, að það verði ekki um eitthvert yfirklór eða yfirborðsmennsku að ræða í þessu sambandi og vítin sem við þekkjum frá fyrri afgreiðslu mála í nefndum í þessu máli, eru til að varast þau. Það liggur því alveg ljóst fyrir að stjórnarandstaðan mun ekkert sætta sig við annað en mjög yfirgripsmikla og fyrst og fremst vandaða málsmeðferð í fjárlaganefnd að þessu sinni, þar sem tekið verði á þeim málum og reynt að komast að niðurstöðu á grundvelli bestu fáanlegra upplýsinga, en ekki bara með því að berja höfðinu þrjóskulega við steininn.