138. löggjafarþing — 40. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:35]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég held nú áfram yfirferð yfir nokkur af helstu atriðum þessa máls. Ef ég man rétt var ég kominn að atriði nr. 50 en svo vill til að það fjallar um skýrslu lögfræðistofunnar Mishcon de Reya, sem með einhverjum undarlegum hætti hvarf þar til hún birtist óvænt, fannst undir stól í fjármálaráðuneytinu líklega, þrátt fyrir að hafa verið merkt utanríkisráðuneytinu eða hæstv. utanríkisráðherra. Menn veltu því fyrir sér hvers vegna þessi skýrsla hefði horfið, sérstaklega í ljósi þess að hún útskýrði nokkur atriði er lutu að málstað Íslendinga með þeim hætti að það var frekar til þess fallið að styrkja stöðu Íslendinga en hitt.

Nú liggur reyndar fyrir að þetta lögfræðifyrirtæki, Mishcon de Reya, verður beðið um að klára þá vinnu sem ekki var kláruð á sínum tíma þannig að ég ætla ekki að ræða það meira í bili. Ég ætla hins vegar, undir lið nr. 50, að nefna annan aðila sem meira hefði mátt líta til, þ.e. samningasérfræðingurinn Lee Buchheit, sem kom hingað til lands og bauð fram aðstoð sína á frumstigum málsins. Lítið var gert með það. Hann kom svo aftur fyrir nokkrum mánuðum og lýsti því þá að þetta væru einhverjir verstu samningar af þessari gerð sem hann hefði séð, líklega þeir verstu, og hafði maðurinn aldrei séð jafneinhliða gjörninga. Á örskömmum tíma, þ.e. eftir stuttan yfirlestur, gat hann bent á fjölmarga galla sem ríkisstjórn Íslands hafði þá ekki komið auga á eða ekki viljað taka eftir.

Varð aðstoð þessa manns þegin? Nei, það var öðru nær. Hann var að benda á styrkleika Íslands í stöðunni og slíkt hentaði ekki þá frekar en á öðrum stigum þessa máls. Þannig hefur það verið með marga sem tekið hafa upp hanskann fyrir Íslendinga, hvort heldur sem er erlendir fræðimenn, jafnvel nóbelsverðlaunahafar eins og nóbelsverðlaunahafinn í hagfræði, Joseph Stieglitz — þeir sem tala máli Íslands í þessu máli fá lítið að komast að hjá ríkisstjórn landsins.

Atriði nr. 51 tengist þessu kannski á vissan hátt því að það sýnir hversu allt hefur verið öfugsnúið í því hvernig á málinu hefur verið haldið og fjallar um það að þrátt fyrir að íslensk stjórnvöld hafi ekki verið tilbúin til að setja neitt fjármagn að ráði eða vinnu, umfram þá sem upphaflega voru ráðnir til verksins, í að verja hagsmuni Íslands í þessu máli féllust menn á að greiða milljarða króna aukalega til breskra og hollenskra stjórnvalda þannig að þau gætu staðið straum af kostnaði við umsýslu í málinu. Hér hefur verið rifjað upp að kosningabarátta vegna hugsanlegrar aðildar að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna hafi kostað 400 millj. kr. og nú áætla menn að umsókn um aðild að Evrópusambandinu muni kosta þúsund milljónir en engar slíkar upphæðir hafa verið settar í að verja hagsmuni Íslands í þessu máli. Margir urðu til að benda stjórnvöldum á það strax síðasta haust að ráða til starfa almannatengslastofur erlendis eða lögfræðistofur eða aðra ráðgjafa, það hefur lítið farið fyrir því. Hins vegar féllust menn á að borga líklega hátt í fimm milljarða kr. samanlagt til Breta og Hollendinga til að standa straum af umsýslukostnaði þeirra. Í þessu birtist hin fullkomna niðurlæging Íslands í málinu.

Nr. 52 snýst reyndar líka um niðurlægingu því að það varðar þá samninga sem gerðir voru um Icesave á sínum tíma við Breta og Hollendinga og leiddi til þess að þessar þjóðir eða stjórnvöld þeirra féllust skriflega á að nú gætu mál Íslands fengið framgöngu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þetta kallaði ekki á athugasemdir íslenskra stjórnvalda við það að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefði verið misbeitt, ekki frekar en fyrri daginn. Nei, menn fögnuðu því einfaldlega að nú lægi slík yfirlýsing fyrir.

Það er furðulegt, eins og aðrir hafa reyndar rakið í ræðum hér í dag, að þrátt fyrir allar yfirlýsingarnar um að hinir og þessir — og það breytist nánast dag frá degi, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Svíar, Norðmenn, Evrópusambandið eða einhverjir aðrir — standi í vegi fyrir því að við fáum lánafyrirgreiðslu nema við föllumst á þá Icesave-samninga sem Bretar og Hollendingar ætlast til að við samþykkjum, nákvæmlega þá samninga, hefur ekki opinberlega verið sett út á þetta. Ekki hefur verið með opinberum hætti hrópað á torgum heimsins að verið sé að misbeita þessari alþjóðastofnun gagnvart Íslendingum eða að Norðurlönd, vinaþjóðir okkar, væru að beita sér gegn okkur. Hvernig stendur á því, frú forseti? Þetta er svo sem til samræmis við annað hjá stjórnvöldum sem hafa viljað láta frekar lítið fyrir sér fara á alþjóðavettvangi í þessu máli.

Nr. 53 snýr að hryðjuverkalögunum eða beitingu hryðjuverkalaga gegn Íslendingum. Hvað sem líður yfirlýsingum ráðherra eða samningamanna, um að tekið hafi verið tillit til skaðans sem þau lög hafa valdið okkur, hefur það einfaldlega ekki verið gert. Einfaldasta leiðin til að átta sig á því er að bera saman samningana við Bretana, bresk stjórnvöld, sem beittu okkur hryðjuverkalögum, sem sagt er að tekið hafi verið tillit til, og samningana við Hollendingana, sem beittu engum slíkum lögum eða gerðu ekkert sambærilegt við það. Samningarnir eru nákvæmlega eins, forsendurnar eru þær sömu og upphæðirnar, þ.e. það sem við borgum, eru hlutfallslega þær sömu. Augljóslega hefur ekkert, ekki ein króna, ekki eitt pund, verið dregið frá vegna skaðans af beitingu hryðjuverkalaganna. Eins og ég fjallaði um í grein fyrir einhverjum mánuðum er líklega auðvelt að reikna það út að skaðinn af beitingu hryðjuverkalaganna hafi numið a.m.k. tugum milljarða og að öllum líkindum hundruðum milljarða króna.

Breska þingið viðurkenndi m.a.s. sjálft að það hafi verið ósæmandi og raunar algjörlega óviðeigandi að beita þessum lögum og að það hafi valdið Íslendingum skaða á afar slæmum tíma. Fyrst þá, þegar breska þingið var sjálft búið að kveða upp úr um þetta, komu þingmenn Samfylkingarinnar í röðum hingað upp til þess að hneykslast á framferði Bretanna — mörgum, mörgum mánuðum eftir að hryðjuverkalögunum var beitt. Sömu þingmenn höfðu ekki mátt heyra minnst á það að blanda hryðjuverkalögunum saman við Icesave-deiluna eða nokkurn annan hlut, vildu í þessu máli eins og öðrum láta sem minnst fyrir sér fara, þangað til breska þingið var búið að hafa forgöngu um það að fordæma sjálft sig, ef svo má segja. Þá voru liðsmenn ríkisstjórnar Íslands tilbúnir að taka undir með útlendingunum í því eins og öðru.

Nr. 54 varðar framferði breskra stjórnvalda gagnvart íslensku bönkunum í Bretlandi. Fyrir liggur að ótalmargt hefði betur mátt fara í rekstri íslensku bankanna, um það þarf enginn að deila. Það sama mátti reyndar segja um fjölmarga banka í Bretlandi og víðar og munaði þar litlu ef menn skoða hlutfallslegan samanburð. Bresk stjórnvöld björguðu hins vegar með alveg gríðarlegum fjárútlátum öllum bresku bönkunum nema breskum bönkum sem voru í eigu þeirra íslensku og má þar nefna Heritable-bankann, sem var í eigu Landsbankans, og Singer & Friedlander bankann, sem var í eigu Kaupþings. Nú hefur nú komið í ljós að þessir bankar voru síst verr staddir en margir þeirra bresku banka sem fengu aðstoð, raunar miklu betur staddir, en ég næ ekki að fara (Forseti hringir.) ítarlega yfir það því að tími minn er á þrotum í bili. Ég á enn allmarga punkta eftir og bið því hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.