138. löggjafarþing — 40. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:20]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir ótta hv. þingmanns, ég deili honum með honum. Ég trúi ekki öðru en að hæstv. forseti lýðveldisins hugsi sig vel og vandlega um þegar kemur að því að undirrita þessi ólánslög ef þau verða samþykkt. Ég trúi ekki öðru en að forseti Íslands, sem vill láta taka sig trúanlegan, verði sjálfum sér samkvæmur. Ég ætla ekki að láta í ljós skoðun mína á því hvort ég telji rétt að forseti blandi sér í stjórnmálaumræðu og stjórnmálin með svo beinum hætti eins og þar yrði um að ræða, en það er ekki það sem þetta snýst um, þetta snýst um að maðurinn verði sjálfum sér samkvæmur. Eins og hv. þingmaður benti á fara yfir 30.000 Íslendingar fram á að forseti Íslands geri það. Þá bendi ég líka á það að þeir stjórnmálaflokkar sem nú eru við völd hafa talað mikið um lýðræði, beint lýðræði, vilja þjóðarinnar, í frasapólitíkinni sem þeir hafa stundað í gegnum tíðina.

Það vill nú svo skemmtilega til að hér í þinginu liggur fyrir frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur sem er til meðferðar. Ef mig misminnir ekki er þröskuldurinn þar einmitt 30.000 kjósendur, að þeir geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Og af hverju ekki um svo mikilvægt mál? Ég er ekki sammála hæstv. fjármálaráðherra sem segir að þetta mál sé ekki þannig að það megi kjósa um það. Þó sagði hann fyrir nokkrum árum að öll mál væru þannig, ekkert mál væri þannig að ekki væri hægt að treysta þjóðinni fyrir því, að sjálfsögðu ekki.

Frú forseti. Við verðum að halda áfram að berjast. Þetta er ekki búið. Nú fer málið í nefnd (Forseti hringir.) og síðan eigum við 3. umr. eftir. Við tölum þangað til á okkur verður hlustað.