138. löggjafarþing — 40. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla að halda áfram að ræða um afstöðu hv. þm. Arndísar Soffíu Sigurðardóttur, varaþingmanns Atla Gíslasonar. Hv. þm. Atli Gíslason hafði mjög klára afstöðu, ég fann að afstaða hans er kristaltær, en hann hvarf af þingi og er að sinna bókhaldsgögnum. Hv. þm. Arndís Soffía Sigurðardóttir sagði í Smugunni — hélt áfram um fréttaflutning af afstöðu sjálfstæðismanna til haustlaganna sem hún var eitthvað að furða sig á. Hún segir:

„Þögn fjölmiðla yfir hjásetu sjálfstæðismanna hefur að mínu mati verið æpandi. Kvöldfréttirnar, á annarri hvorri sjónvarpsstöðinni, þann 28. ágúst sýndu almennar tölulegar upplýsingar um það hvernig þingmenn allra flokka ráðstöfuðu atkvæði sínu. Enginn virðist hafa velt því fyrir sér af hverju 13 sjálfstæðismenn höfðu ekki skoðun á málinu. Þá á ég við raunverulega ástæðu, ekki þá átyllu að þannig beri ríkisstjórnin ábyrgð á málinu — vegna þess að hún gerir það eðli málsins samkvæmt.“

Ég er búinn að fara í gegnum það, frú forseti, og svo sem áður líka, að afstaða sjálfstæðismanna var sú að ef þeir hefðu greitt atkvæði með endanlegu frumvarpi þá væru þeir um leið að leggja blessun sína yfir samkomulagið frá 5. júní 2009, sem var alveg skelfilegt, með 5,55% svavarsvöxtum, alls konar greiðslum til Breta og Hollendinga fyrir umsýslu — við erum sem sagt að borga vöndinn sem flengir okkur — og alls konar önnur atriði sem tekin voru mildilega burt, með sanngjörnum hætti, með þeim fyrirvörum sem Alþingi samþykkti. Þetta er allt búið að taka í burtu aftur.

Nú verður mjög spennandi, frú forseti, að fylgjast með og heyra afstöðu hv. varaþingmanns Atla Gíslasonar, Arndísar Soffíu Sigurðardóttur, þegar hún mun lýsa skoðun sinni seinna í þessari umræðu, því að umræðunni er ekki lokið og hún á enn möguleika á því að tjá okkur afstöðu sína. Ég er alveg viss um að svona ung kona, hv. þingmaður, hefur örugglega mjög sterkar og ákveðnar skoðanir á Icesave-málinu, það er ég alveg viss um. Hún vill ekki að börnin okkar séu hugsanlega hneppt í þrældóm fyrir það. Það verður mjög áhugavert að heyra skoðun hennar þegar hún mætir til þings. Hún er náttúrlega að hlýða á umræðuna eins og ég hef margoft nefnt.

Í fréttamiðlinum amx.is þann 7. desember 2009, þ.e. fyrir nokkrum dögum, var svolítið skondin frétt sem ég ætla að lesa upp, með leyfi frú forseta:

„Verið er að senda órólegu deildina í þingflokki Vinstri grænna í frí, áður en kemur að endanlegri afgreiðslu Icesave-frumvarpsins á þingi. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokksformaður VG, hafði miklar efasemdir um málið en er farsællega komin í fæðingarorlof og fjarri góðu gamni. Nú greinir Vísir frá því að Atli Gíslason, einn hinna órólegu þingmanna flokksins, sé einnig kominn í frí og að Arndís Sigurðardóttir hafi tekið sæti hans.

Um fríið segir Atli: „„Þetta var afráðið í september. Þetta er bara af persónulegum ástæðum. Ég er að flytja og þarf að sinna því og fjölskyldunni,“ segir Atli, sem er jafnframt upptekinn í bókhaldsvinnu fyrir lögfræðiskrifstofu, sem hann á ennþá helmingshlut í.“

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Ef að líkum lætur verða greidd atkvæði um Icesave-málið á næstu dögum. Atli er í hópi þingmanna innan VG sem hafa haft efasemdir um það mál. Hann segir leyfi sitt þó ekki tengjast afgreiðslu Icesave. „Það hefur ekkert með það að gera. Mig óraði ekki fyrir því að Icesave-málinu yrði ekki lokið þegar ég ákvað þetta,“ segir Atli.

Lilja Mósesdóttir hefur lýst því yfir að Icesave-frumvarpið geti hún ekki samþykkt. Þá hefur lítið farið fyrir liðsforingja órólegu deildarinnar, sjálfum Ögmundi Jónassyni, frá því að hann yfirgaf ríkisstjórnina. Fróðlegt verður að fylgjast með því hvort þau fari líka í frí. Einu sinni var svona reddað með sendiherraembætti, en slíkt er orðið önugt í kreppunni. En nauðsyn brýtur víst lög.“ — Frú forseti, líka lögin frá því í sumar, nauðsyn brýtur lög.

Þetta er mjög athyglisverð greining og ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það. Hef ég þá lokið máli mínu um það sem ég hugsa að sé afstaða hv. þm. Atla Gíslasonar. Ég veit ekki almennilega um afstöðu varamanns hans, hv. þm. Arndísar Soffíu Sigurðardóttur, og er dálítið á reiki með afstöðu hennar.

Næst ætla ég að ræða um afstöðu samfylkingarmanna sem skrifuðu undir nefndarálit í hv. efnahags- og skattanefnd, það eru hv. þm. Helgi Hjörvar, sem ekkert hefur tjáð sig um málið, þó hann sé formaður efnahags- og skattanefndar, og hv. þm. Magnús Orri Schram, sem hefur reyndar tjáð sig nokkuð en er ekki viðstaddur, og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, sem ég spurði sérstaklega út í þetta, af því að hún er hagfræðingur — ég beindi til hennar fyrirspurn í umræðum um störf þingsins. Þau segja í álitinu á bls. 7, með leyfi frú forseta:

„Seðlabankinn birtir í áliti sínu spá um þróun tekna og gjalda hins opinbera og ríkissjóðs árin 2009–2012 og byggist hún á áætlun fjármálaráðuneytisins (myndir 5 og 6). Telur bankinn að með ábyrgri hagstjórn og afgangi af undirliggjandi viðskiptajöfnuði gefist færi á að greiða niður erlendar skuldir (tafla 4). Fulltrúar Seðlabankans tóku fram að þessi viðskiptajöfnuður mundi fyrst og fremst stafa af samdrætti í innflutningi.“

Frú forseti. Þetta segja fulltrúar Samfylkingarinnar í hv. efnahags- og skattanefnd. Vita þeir hvað þeir eru að segja þarna, frú forseti? Það á að draga saman innflutning. Hvað þýðir það? Það þýðir að íslensk þjóð á að eyða minna og minna, þ.e. kaupa minna af lífsgæðum, færri ísskápa, færri húsgögn, færri bíla, færri raftæki, fínan mat eða mat yfirleitt og yfirleitt á hún að flytja minna inn. Hér á að bresta á fátækt. Fulltrúar Samfylkingarinnar eru raunverulega að segja í þessu nefndaráliti að þeir búist við því að hér verði fátækt. Það er eitthvað sem ég mun ekki vilja, frú forseti. Þau leggja til að þetta verði samþykkt þannig að þetta er dálítið skrýtið allt saman. Á bls. 8 segja þau:

„Nefndin ræddi áhyggjur af því að fjárhæðir innlánskrafna sem íslenski tryggingarsjóðurinn leysir til sín á grundvelli Icesave-samninganna verði umreiknaðar í íslenskar krónur miðað við skráð sölugengi 22. apríl sl., sbr. lög nr. 44/2009. Fulltrúar slitastjórnar og skilanefndar gamla bankans komu á fund nefndarinnar og gerðu grein fyrir tilurð umræddra laga og stöðu eignasafnsins. Fram kom í máli gesta að meginreglan í gjaldþrotarétti sé sú að við skipti sé unnið í mynt heimalandsins. Hefði krafan ekki verið fest í íslenskum krónum í apríl hefði grundvallaratriðum í gjaldþrotarétti verið kollvarpað og um leið verið að víkja frá evrópskum reglum sem gilda um slit fjármálafyrirtækja. Efnahags- og skattanefnd hefur borist afrit af bréfi slitastjórna gömlu bankanna þriggja til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins (dagsettu 12. nóvember sl.) þar sem lagt er til að tekinn verði af allur vafi um heimild til úthlutunar í erlendri mynt.“

Ekki orð um þetta meir. Ég verð dálítið hugsi, frú forseti, vegna þess að á þessum tíma hafði ég bent á að það að binda kröfurnar í krónum gerði það að verkum að bankinn gat alltaf greitt meira og meira ef gengi krónunnar féll. Þá uxu erlendar eignir bankans sem eru 90% í erlendri mynt, eðlilega hækkuðu þær í verði þegar krónan féll. Þær hækkuðu og hækkuðu í verði en krafa innlánstryggingarsjóðs og Breta og Hollendinga sat föst í krónum. Þá getum við náttúrlega borgað meira og meira af þessum forgangskröfum. Gengið þarf ekki að falla nema 6% í viðbót þá fer Landsbankinn að borga almennar kröfur sem eru 2.300 milljarðar. Maður er alveg gáttaður, frú forseti, á því að þessir hv. þingmenn — einn af þeim er Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hagfræðingur og annar er Helgi Hjörvar sem er formaður nefndarinnar — skuli skrifa um þetta svona eins og þetta sé ekkert mál.

Þegar bankinn fer að borga almennar kröfur — og við erum að tala um 3–4 ára bið þar til hann getur farið að greiða kröfur yfirleitt, því hann getur ekki greitt krónu út fyrr en hann er búinn að ganga úr skugga um að neyðarlögin haldi, þ.e. forgangskröfur hafi virkilega gildi. Á öllum þeim tíma má gengið ekki falla um einhver 6% í viðbót. Þá fer hann að borga almennar kröfur og þeir peningar flæða út úr búinu í almennar kröfur og koma ekki til með að greiða Icesave. En Icesave hækkar hins vegar og hækkar með sama hækkandi gengi erlendrar myntar plús ægilega háir vextir, 5,55%.