138. löggjafarþing — 40. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[02:04]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég held áfram að fara yfir þau atriði sem ég tel mikilvægt að fjárlaganefnd fjalli um milli 2. og 3. umr. Eins og ég hef greint frá er mjög mikilvægt að það liggi fyrir og sé alveg á hreinu hvaða málsmeðferð nefndin ætlar að viðhafa. Við höfum lagt fram skjal sem nú hefur verið fallist á að verði grunnurinn að þeirri vinnu.

Ég var að fara hér yfir áðan þá efnahagslegu þætti sem nefndin þarf að fara yfir og var einmitt að benda á að fást þyrfti mat á fjárhagslegri þýðingu þess að vextir samkvæmt samningnum séu fastir, þ.e. 5,55%, en ekki breytilegir.

Við viljum líka fá mat á þýðingu nýrra upplýsinga um mat AGS á greiðsluþoli ríkissjóðs. Þá kemur maður að ótrúlegri staðreynd í öllu þessu máli og sýnir hversu vitlaust það er frá upphafi til enda, að þetta mat á greiðsluþoli ríkissjóðs hefur aldrei farið fram. Það tók okkur langa baráttu í fjárlaganefnd, þ.e. í stjórnarandstöðu, að fá álit frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Seðlabankinn kom og Seðlabankinn fór og Seðlabankinn kom og Seðlabankinn fór og Seðlabankinn kom í þriðja skiptið og Seðlabankinn fór í þriðja skipti en hann gat því miður ekki gefið mat á greiðsluþoli ríkissjóðs. Hagfræðistofnun Háskóla Ísland fór yfir þetta í ágætu áliti og gagnrýndi harkalega hvernig Seðlabankinn hefði farið með málið, þ.e. efnahagslega þáttinn. Það verður að halda því til haga að lögfræðilegi þátturinn, sem kom frá Seðlabankanum, var til mikillar fyrirmyndar, þeir voru ekkert að skafa af hlutunum þar og bentu t.d. á að Íslendingar væru fyrstir þjóða væntanlega búnir að leggja auðlindir sínar að veði og að þeir myndu ekki eftir því að hafa séð þess stað í samningum annarra landa að þjóðir væru reiðubúnar að setja auðlindir sínar að veði, eignarhlut ríkisins í auðlindum þjóðarinnar, með miklum eindæmum.

Þeir bentu líka á að þetta áhættumat hefði aldrei farið fram, áhættumat sem ég held að allir þeir sem standa í stórræðum, séu að taka lán, geri. Með öðrum orðum að þeir reyni að átta sig á því hvað gerist ef allt fer á versta veg. Nú vonar enginn að allt fari á versta veg. Ágætur maður sagði og ég held að því þurfi að halda til haga: Auðvitað vonum við það besta en við verðum að búa okkur undir það versta. Það má eiginlega segja að þetta sé öfugt, hér býst ríkisstjórnin bara við því besta, stingur höfðinu í sandinn og lokar augunum og segir: Samþykkið Icesave. Það er bara þannig að hér verður allt svo frábært og gott. Jafnvel þó að fram stígi hagfræðingar í löngum röðum og bendi á að hinn og þessi gallinn sé á þeim álitum sem lögð hafi verið fram vilja menn ekkert á það hlusta. Það er þess vegna sem við förum fram á það að efnahags- og skattanefnd taki þessa sjö liði, hvorki meira né minna, fari yfir þá og skili áliti og leiti til utanaðkomandi aðila, Centre for European Policy Studies.

Maður skyldi ætla að sá flokkur sem væntanlega byggir afstöðu sína í þessu máli fyrst og fremst á þeirri von að Ísland gangi einhvern tíma í Evrópusambandið samþykki þetta. Það tók allan daginn í dag að sannfæra hv. formann fjárlaganefndar, vegna þess að hann taldi sig ekki bundinn af neinum samningum, sat hinn þverasti í fjárlaganefnd og sagði að þetta væri málefni fjárlaganefndar og ekki gætu aðrir samið fyrir hans hönd. Þá bentum við einfaldlega á að þá væri ekkert samkomulag í gildi ef hann liti þannig á. Við ætluðum okkur ekki að fara inn í fjárlaganefnd og komast svo að því að þegar búið væri að greiða atkvæði um þennan samning stæðist ekkert af því sem hefði verið lofað. En baráttan skilaði árangri og ég fer hér yfir þann árangur og þau atriði sem fjárlaganefnd ætlar að fara yfir í málinu.

Eins og ég nefndi ætlum við að fá mat á þýðingu nýrra upplýsinga um mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á greiðsluþoli ríkisins. Það er einmitt vandamálið með Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að hann virðist ekki alveg vera með hlutina á hreinu. Hann kemur með misvísandi upplýsingar endalaust, virðist ekki vera reiðubúinn að fallast á þær fullyrðingar hæstv. fjármálaráðherra að sjóðurinn hafi verið að beita sér með óeðlilegum hætti fyrir hönd Breta og Hollendinga.

Ég velti einu fyrir mér og það er kannski ágætt að hv. þm. Pétur Blöndal heyri það, vegna þess að hann er að geta sér til um afstöðu manna, af hverju hæstv. fjármálaráðherra hefur einfaldlega ekki vísað þessum mönnum úr landi, afþakkað frekari þjónustu. Fullyrðingar hans og fullyrðingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins stangast nefnilega verulega á. Hvaða fjármálaráðherra í heiminum mundi detta í hug að starfa með mönnum sem beinlínis hljóta að vera að ljúga ef hann er að fara með rétt mál, hvaða fjármálaráðherra í hinum vestræna heimi og þótt víðar væri leitað mundi sætta sig við að þeir aðilar sem hann leggur allt sitt traust á, skikka hann í blóðugan niðurskurð, skikka hann að hans mati til að samþykkja drápsklyfjar skulda, en fara svo ekki með rétt mál að hans mati, hvaða fjármálaráðherra mundi sætta sig við að þessir aðilar mundu enn þá vera hér á landinu og ráðleggja honum? Það er hæstv. núverandi fjármálaráðherra sem ber hvað mesta ábyrgð á Icesave-klúðrinu. Það mun hann eiga, hann hefur viðurkennt það, sagst ætla að taka á því pólitíska ábyrgð, alla pólitíska ábyrgð, enda ber hann alla pólitíska ábyrgð jafnvel þó að hann reyni hér í ræðu trekk í trekk að breyta sögunni.

Það er ágætt að rifja það upp vegna þess að sá sem hér stendur var með núverandi fjármálaráðherra í stjórnarandstöðu fyrir um ári og hann nefndi að þá hefði öldin verið önnur. Stjórnarandstaðan hefði lagt sig fram um að hjálpa ríkisstjórninni og aldrei verið með moðreyk, aldrei verið til trafala jafnvel þó að hann hafi verið ósáttur, málþófsmeistarinn sjálfur, búinn að halda mörg málþófin í gegnum ævina, væntanlega síðustu 20 árin, vegna þess að hann náði jú tæpum 20 árum í stjórnarandstöðu og hér var málþóf á hverju einasta ári. En hann fór að mínu mati rangt með vegna þess að það þurfti ekki annað en að rifja það upp þegar hæstv. fjármálaráðherra hélt því fram að hann væri svo góður við ríkisstjórnina, að hann hefði liðkað til og verið sáttur við hennar störf, að þá lagði hann fram vantraustsyfirlýsingu, hvorki meir né minna en eitt stykki vantraustsyfirlýsingu, á störf þáverandi ríkisstjórnar.

Ég man eftir því þegar hann stóð hér fyrir framan ræðupúlt, fyrir framan hæstv. þáverandi forsætisráðherra, snargalinn, svo að ég leyfi mér, virðulegi forseti, að nota það orð, vegna þess að hann gekk hér um og ýtti við mönnum og lét í sér heyra úr sæti sínu og vandaði mönnum ekki kveðjurnar. Þetta man ég en hann man ekki þessa sögu. Ég held að það sé ágætt að rifja það upp vegna þess að ég var hér og hlustaði á þetta eigin eyrum og horfði á þetta eigin augum. Og fleiri þingmenn Vinstri grænna, á milli þess sem þeir brugðu sér út á Austurvöll og hvöttu þar fólk til dáða, komu þeir upp í ræðustól og vönduðu ríkisstjórninni ekki kveðjurnar. Nú er það þannig að þeir voru svo góðir við ríkisstjórnina, hjálpuðu til.

Virðulegi forseti. Ég á eftir að fara nánar yfir þetta (Forseti hringir.) og óska hér með eftir að verða settur aftur á mælendaskrá.