138. löggjafarþing — 40. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[02:14]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég er kominn að lið nr. 61 en hann fjallar um það hversu mörg störf mætti skapa, stundum er talað um að ríkið eigi að skapa svo og svo mörg störf, yfirleitt þarf ekki að finna upp á störfunum sjálfum eða borga launin, það nægir að skapa þær aðstæður sem þarf til að almenningur skapi svo störfin.

En nú skulum við velta því fyrir okkur hversu mörg störf væri beinlínis hægt að búa til, algerlega óháð því hvaða verðmæti yrðu til úr þeim störfum. Við getum ímyndað okkur að fólk væri í atvinnubótavinnu við að gera ekki neitt, þ.e. framleiða engin verðmæti en samt væri hægt að borga því kaup fyrir þá peninga sem ella rynnu í að borga vextina af Icesave. Mér reiknast til að miðað við meðallaun í landinu séu það um 30 þúsund störf ef við tökum margföldunaráhrif líka. En þá erum við reyndar farin að gera ráð fyrir einhvers konar verðmætasköpun eða a.m.k. því að menn þiggi launin sín og noti þau í að kaupa vörur af öðrum. Deila má um hvar eigi að draga mörkin varðandi verðmætasköpun starfanna. En þetta eru sem sé um það bil 15.400 störf sem hægt væri að skapa beint með því að ríkið borgaði einfaldlega fólki meðallaun í stað þess að nota peningana í að borga Icesave-vexti. Þessir 15.400 mundu þá nota peningana í að kaupa vörur og þjónustu og ef við miðum við um það bil tvöföldun, sem er kannski svona þumalputtaregla, yrðu þarna til 30 þúsund störf.

Hv. þm. Þór Saari hefur áður bent á að tekjuskattur 79 þúsund Íslendinga, að mig minnir, renni í það eingöngu að greiða vextina. Þetta er annar slíkur samanburður, 15.400 störf beint og alls um það bil 30 þúsund störf. Þetta mundi sem sagt gera miklu meira en að útrýma atvinnuleysi. Með þessu móti væri hægt að útrýma atvinnuleysi nokkrum sinnum og einhverjir af þessum 30 þúsund gætu þá hugsanlega verið í vinnu við að bæta samskiptin við alþjóðasamfélagið sem menn telja öllu þessu fórnandi til til að viðhalda þrátt fyrir eins og ég hef útskýrt áður að það sé kolröng nálgun. Menn kaupa sér ekki vinsældir með því að gefa eftir lagalegan rétt sinn.

Liður nr. 62 eru þau áhrif sem slíkar upphæðir munu hafa á innviði samfélagsins. Þó að þetta sé náttúrlega liður sem nánast væri hægt að tala endalaust um, og halda margar ræður um og heilu umræðurnar í þinginu, ætla ég ekki að verja mjög löngum tíma í það heldur láta nægja að nefna að þegar um þessar upphæðir er að ræða er óhjákvæmilegt að það leiði til niðurskurðar á þeim sviðum þar sem við viljum hvað síst sjá niðurskurð, í velferðarþjónustu og heilbrigðisþjónustu, enda er það það stór hluti af útgjöldum ríkisins. Þegar þarf að skera niður um 100 millj. kr. á dag miðað við það sem ella væri, því að vextirnir væru yfir 100 millj. kr. á dag, þá hefur það áhrif. Það hefur áhrif á þá þjónustu sem fólk getur gengið að á Íslandi og þar með öll lífskjör, heilbrigði almennings og líðan á allan hátt. En þar sem ég var búinn að fara nánar út í það í öðrum lið læt ég þetta nægja. En liður 62 er sem sé sá að upphæðir af þessari stærðargráðu geta ekki annað en breytt samfélagsgerðinni, breytt henni til hins verra, gert lífsgæði á Íslandi lakari og það skekkir samkeppnisstöðu landsins á allan hátt. Þegar ég tala um lakari lífskjör er ég ekki bara að tala um það að fólk hafi síður efni á því að fara í ferðalög til útlanda. Ég er að tala um grunnþarfir eins og heilbrigðisþjónustuna.

Nr. 63 er reyndar ekki síður stórt atriði sem einnig mætti halda heilu málfundina um en það eru áhrifin á hagþróunina. Þegar svona miklir peningar eru teknir út úr hagkerfinu í niðursveiflu, í kreppu, ýtir það undir neikvæðan spíral, neikvæða keðjuverkun. Þetta er reyndar af sama meiði og fyrirhugaðar skattahækkanir hjá ríkisstjórninni, þetta er afar óheppilegt þegar efnahagslífið þarf á því að halda að ná sér aftur á strik. Það þarf þvert á móti innspýtingu í hagkerfið, meiri peninga úr að spila frekar en að peningar séu beinlínis teknir út úr hagkerfinu, og þessir peningar fara svo sannarlega út úr hagkerfinu. Þeir eru teknir og hverfa úr landi í formi erlendrar myntar. Þetta er eitthvað sem við ættum að hafa rætt meira í þessari umræðu, þessi hagfræðilegu áhrif af því að taka svona háar upphæðir út úr hagkerfinu á þessum tíma þegar við þurfum þvert á móti innspýtingu. En það er ekki mikill tími til að fara í það úr þessu. Kannski gefum við okkur meiri tíma í það í 3. umr.

Nr. 64 snýr að því hversu lík röksemdafærsla ríkisstjórnarinnar í þessu máli er hugarfarinu í bönkunum þegar þeir voru lentir í verulegum vandræðum. Þeir sem fallast á þessa Icesave-samninga munu því aldrei geta leyft sér að gagnrýna íslensku útrásarvíkingana eða bankamennina vegna þess að það fólk hefur orðið uppvíst að nákvæmlega sama hugarfari og er að taka sams konar ákvarðanir þegar það stendur frammi fyrir sams konar erfiðleikum, til að mynda nú þegar íslenska ríkið þarf á því að halda, að mati stjórnarliða, að kaupa sér vinsældir, kaupa sér ímynd, og þarf á því að halda að endurfjármagna sig, taka meiri lán, þá ráðast menn í þessar lántökur sem ekki er með nokkru móti hægt að standa undir án þess að það skaði kerfið til frambúðar. Hugarfarið er þetta: Skuldirnar eru orðnar svo miklar, vandinn er svo mikill að við verðum með einhverju móti að taka lán og svo vona það besta; sem er nákvæmlega það sama og Landsbanki Íslands gerði þegar hann stofnaði Icesave-reikningana sem vandinn snýst allur um. Þá var bankinn orðinn svo skuldsettur að hann hugsaði sem svo að hann þyrfti að finna einhverja leið til að verða sér úti um enn meiri skuldir, enn meiri lán, í þeirri von að hann gæti keypt sér ímynd til einhvers tíma og eignirnar mundu svo í framtíðinni hækka og það er einmitt vonin núna. Menn vona það besta með eignir Landsbankans og með hagþróun á Íslandi þannig að röksemdafærslan er nákvæmlega sú sama og í bönkunum.

Liður 65, og það er síðasta atriðið sem ég ætla að nefna að sinni, þau eru töluvert fleiri, mörg stór atriði til að mynda varðandi vextina, það sem Daniel Gros benti á, að Bretar og Hollendingar séu beinlínis að hagnast á lánunum, að kröfurnar séu bundnar í krónum og áhættan sem því fylgir o.fl. En ég ætla að láta það bíða 3. umr. og draga mörkin við atriði 65 en það er sú einfalda staðreynd að þegar liggja fyrir lög um Icesave samþykkt af Alþingi og Bretum og Hollendingum er í sjálfsvald sett að samþykkja þá fyrirvara sem settir eru í þau lög, þ.e. leiða þá í samningana, og þá öðlast þau gildi. Það er því ekki svo að ef Alþingi vill ræða þetta mál áfram, vill leita eftir einhverjum af þessum grundvallarupplýsingum sem enn skortir, eða einfaldlega hafna frumvarpinu, þá sé málið allt í uppnámi. Það er aldeilis ekki svo. Bretar og Hollendingar eru með samninga sem eru miklu, miklu meira en sanngjarnir í þeirra garð og þeim dytti ekki í hug að kasta þeim samningum á glæ. Það væri einfaldlega fráleit ákvörðun af þeirra hálfu enda hefur meira að segja hæstv. fjármálaráðherra viðurkennt að dagsetningin 30. nóvember, en sá dagur er liðinn, dagurinn sem Bretar og Hollendingar gátu gjaldfellt samningana, sé kannski ekki það áhyggjuefni sem ríkisstjórnin hafði viljað vera láta, enda eru bresk og hollensk stjórnvöld býsna vel sett, svo að ekki sé meira sagt, með núgildandi lög. Við ættum því ekki að vera að ræða þetta mál í einhverjum ótta eða í einhverju tímahraki. Tíminn er nægur og óttinn er óþarfur vegna þess að þegar er búið að samþykkja lög frá Alþingi varðandi Icesave-samningana sem eru miklu, miklu meira en sanngjörn í garð Breta og Hollendinga.