138. löggjafarþing — 40. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[02:24]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. forseti sagði rétt áðan að þingmaðurinn ætti að gæta orða sinna. Ég mun gera það nú sem ávallt en mér er óskiljanlegt hvar ég fór út af sporinu. En við munum væntanlega komast að því einhvern tíma eða bara alls ekki, það skiptir kannski engu máli.

Ég var að ræða um ræðu hæstv. fjármálaráðherra og ég held að það sé mjög mikilvægt að fara yfir þá ræðu vegna þess að mér fannst með hreinum ólíkindum hvernig hann leyfði sér að breyta sögunni, áttaði sig kannski ekki á því að í salnum voru margir sem upplifðu þá atburði með honum. Hann segir hér t.d.:

„Ég var forustumaður stjórnarandstöðunnar sl. haust og ég lagði mitt af mörkum í mínum þingflokki og í samtölum við aðra stjórnarandstæðinga á þeim tíma að móta þá stefnu að frá og með októberbyrjun og fram að jólum brá þáverandi stjórnarandstaða aldrei fæti fyrir neitt sem ríkisstjórnin taldi sig þurfa að gera.“ — Ég las þetta upp með leyfi forseta orðrétt eftir fjármálaráðherra. Hann sagðist aldrei hafa brugðið fæti fyrir neitt.

Ég nefndi áðan í fyrri ræðu minni að hann lagði fram vantraustsyfirlýsingu á þáverandi ríkisstjórn. Ég veit ekki hvernig hann túlkar það en ég hefði haldið að um leið og þú leggur fram vantraustsyfirlýsingu sértu ansi óánægður með það sem sú ríkisstjórn er að gera. Ég mundi ætla það. Ég veit svo sem ekki hvernig maður ætti að túlka það en það var með hreinum ólíkindum að hann skyldi láta þessi orð falla.

Hann fór að telja upp lagasetningar í nokkuð löngu máli sem ég m.a. tók þátt í. Hann telur upp hversu stuttan tíma það hafi tekið að afgreiða þessi mál. Hann nefnir mál sem ég ímynda mér að hann hafi verið á móti, annars hefði hann væntanlega ekki nefnt það í ræðustól. Hann nefnir endurgreiðslu vegna útflutnings ökutækja, breytingar á lögum vegna vörugjalda af ökutækjum, eldsneyti, virðisaukaskatt o.fl. Nú er ég þannig, virðulegi forseti, að ef ég á að meta þetta mál, endurgreiðslu vegna útflutnings ökutækja, breytingar á lögum um vörugjöld af ökutækjum, eldsneyti, virðisaukaskatt o.fl., ef ég á að meta þetta mál og Icesave þá tel ég Icesave-málið vera mikilvægara, ég tel það vera stærra mál. Ég minnist þess ekki að mikill ágreiningur hafi verið um það mál en hæstv. fjármálaráðherra sá ástæðu til að nefna þetta sérstaklega til að benda á hversu þægur og góður hann hefði verið síðasta haust.

Hann nefndi fleiri mál, væntanlega stórmál í hans huga.

Hann segir: „Það var ákveðið að veita undanþágu frá stimpilgjöldum vegna skuldbreytinga sem hann sá að mundu hellast yfir.“ Ég held að það hafi verið gott mál. Ég ímynda mér að hann hafi væntanlega viljað standa í miklu málþófi. Maður verður að gefa sér það eða reyna að lesa í hans orð, annars hefði hann væntanlega ekki verið að nefna þetta í ræðustól en hann segir að það hafi tekið 23 mínútur, að sjálfsögðu. Ég held að mikil og góð sátt hafi ríkt um að fara þessa leið á þessum erfiðu dögum. Hann nefnir að ákveðið hafi verið að veita sérstaka greiðsluaðlögun aðflutningsgjalda. Þetta eru málin sem hann nefnir til þess að sannfæra þjóðina um að hann hafi verið svo þægur og góður í haust. En þetta eru ekki stórmál, hæstv. forseti. Ég held að engum manni detti í hug að þetta séu stórmál, ekki einu sinni hv. formanni utanríkismálanefndar. Ég held að það hvarfli ekki einu sinni að honum. Ég tel mjög mikilvægt að það sé farið yfir þetta vegna þess að þetta var nánast eina framlag — það er kannski ósanngjarnt að segja að þetta hafi verið eina framlag hæstv. fjármálaráðherra, hann sat og hlustaði og hann má eiga það, hann má virkilega eiga það.

Hann álítur að það sé mikilvægt að gera það sem rétt kjörin stjórnvöld með meiri hluta að baki sér á Alþingi, og ferskt umboð frá þjóðinni úr alþingiskosningum síðasta vor, geti haldið áfram að reyna að glíma við erfiðleikana. Þetta sagði hann í ræðunni en það er svolítið sérstakt að líta á það vegna þess að nokkrum mínútum áður nefnir hann að málflutningsréttur manna á þingi, og ekki síst stjórnarandstöðunnar, sé ákaflega mikilvægur og síðastur manna ætli hann að mótmæla því — þannig orðaði hæstv. fjármálaráðherra þetta og bendir á að ekki færi vel á því, af því að hann hafi sjálfur ítrekað nýtt sér ríkulega þann rétt í gegnum árin, og segist ekkert draga undan í þeim efnum. Það er einmitt það sem við í stjórnarandstöðunni höfum verið að gera. Við höfum verið að nýta okkur ekki bara rétt gagnvart þingskapalögunum heldur líka stjórnarskrárbundinn rétt, við ræðum mál eins og Icesave-samningana út í hörgul. Við látum ekki undan þrýstingi um að láta eitthvað ósagt, að velta ekki við hverjum einasta steini í málinu. Það er þess vegna sem við í stjórnarandstöðunni höfum óskað eftir því að í fjárlaganefnd verið farið mjög ítarlega í mikilvæga þætti sem ég hef verið að telja hér upp, farið mjög ítarlega yfir lagalega þættina og efnahagslegu þættina. Fjárlaganefnd ætlar að fara yfir það, hv. formaður fjárlaganefndar hefur fallist á að það verði gert.

En það eru líka fleiri atriði sem við höfum óskað eftir. Við höfum óskað eftir því í stjórnarandstöðunni að kalla fyrir nefndina fyrrverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, og fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Hún hefur látið frá sér orð um hvernig hún túlki þá samninga og þá samningagerð sem fram fór og við teljum að það sé mjög mikilvægt að þau tvö upplýsi hvernig þau túlkuðu Brussel-viðmiðin svokölluðu. Ágreiningur hefur verið um það hvort þau sé einhvers staðar að finna í samningunum og við í stjórnarandstöðunni höfum gagnrýnt það mjög að hin svokölluðu Brussel-viðmið og hin svokölluðu skilyrði, eins og ég met það, hafi ekki verið inni í samningunum og hvergi hafi verið tekið tillit til þeirra. En ríkisstjórninni er ekki alls varnað í málinu og hún leysti þennan vanda. Hún setti það einfaldlega inn í samningana, ásamt Bretum, að Brussel-viðmiðin væru í samningunum. Ekki að þau hafi efnislega verið sett inn í samningana, alls ekki, menn mega ekki ætla að það hafi verið gert. Það er einfaldlega sagt að þau séu þar. Nú hafa margir fróðir menn leitað hvort þetta sé rétt en finna ekki og Indefence fer háðulegum orðum um þetta atriði og bendir á að það sé með hreinum endemum að menn skuli leyfa sér að fullyrða þetta.

Ég held að það sé mjög mikilvægt og fagna því sérstaklega að kalla eigi fyrir nefndina fyrrverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, og fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Það voru einmitt þau sem stóðu þá vakt jafnvel þó að Samfylkingin vilji ekki kannast við það. Þau voru á vaktinni og ég held að það sé mjög mikilvægt að fá það fram hvernig þau túlka Brussel-viðmiðin.

Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að verða settur á mælendaskrá.