138. löggjafarþing — 40. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[02:45]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég hef í kvöld farið yfir það sem við ætlum að ræða um í fjárlaganefnd. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þjóðin átti sig á því að nú á að fjalla mjög ítarlega um þetta mál og fjárlaganefnd ætlar að taka sér tíma og fá úr því skorið hvaða afleiðingar Icesave-samningarnir hafa fyrir íslensku þjóðina. Ég hef bent á að við eigum að búa okkur undir það versta en vona það besta en ekki samþykkja þetta mál, eins og ég hef komist að orði, með bundið fyrir augun. Það eru gríðarlega mörg atriði sem standa út af borðinu.

Um leið og ég hef sagt það hef ég drepið niður í ræðu hæstv. fjármálaráðherra. Hann hélt hér magnaða ræðu og það er ansi margt í henni sem ég á erfitt með að fallast á og er afar ósammála en mjög margt vekur athygli mína. Hann var að fjalla um að hann og fleiri hefðu verið fremstir í flokki með að liðka fyrir málum á þinginu fyrir um ári þegar hann var í stjórnarandstöðu ásamt Framsóknarflokknum. Hann nefnir að það hafi verið mörgum afar þungbært að sótt hafi verið um fjárhagslega aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, og ég tek undir það, og benti á að við værum fyrsta þróaða ríkið í yfir 30 ár til að leita á náðir hans. Hann sagði svo, með leyfi forseta:

„Ætli við Ögmundur Jónasson hefðum ekki getað staðið dálítið í ræðustóli og ýtt aðeins við því máli.“

Ég held að þeir hefðu svo sannarlega getað gert það en þeir kusu að gera slíkt ekki. Það var þeirra ákvörðun. Það var enginn sem lagðist á þá um að sleppa því. Ég held að því þurfi að halda til haga.

Hann nefndi að ríkisstjórnin hefði sótt sér heimildir til Alþingis um að ljúka málinu og það hafi tekið 7 klukkustundir. Hann segir, með leyfi forseta:

„Við vorum því andvíg. Okkur fannst hart að þurfa að sæta því sem þarna átti að fara að gera. Við höfðum að vísu ekki öll gögn málsins í höndum, eins og síðar hefur komið rækilega á daginn.“

Mig langar aðeins að gera þessi orð hæstv. fjármálaráðherra að umtalsefni. Nú er það þannig að þegar menn taka ákvarðanir með jafnlítið í höndum og hann viðurkennir fúslega að hann hafi haft, nánast ekkert, þá eru menn menn að meiri ef þeir skipta um skoðun. Ég hef nefnt það að þegar fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins leyfa sér að koma fram og fullyrða að hann fari með rangt mál þá hlýtur það, og ekki síst í ljósi fyrri afstöðu hans, að leiða til þess að menn endurskoði dvöl Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi. Við vorum því andvíg, sagði hæstv. fjármálaráðherra — hvenær á leiðinni skipti hann um skoðun? Ég held að við verðum að spyrja okkur að því vegna þess að ég met það þannig að menn séu að verða meira og minna sammála því að vera Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi einfaldlega ekki gert þjóðinni neitt sérstaklega gott. Ég heyri fleiri og fleiri halda því fram að þeir séu jafnvel að gæta hagsmuna erlendra kröfuhafa og taki þá hagsmuni fram yfir hagsmuni íslensku þjóðarinnar. Ef það er þannig að við horfum upp á gríðarlega háa stýrivexti vegna þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vill þannig gæta hagsmuna þeirra sem eiga jöklabréf og krónubréf, ef það er þannig að það er að kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að við ætlum okkur ekki að semja við krónubréfaeigendur eða jöklabréfaeigendur þá er einfaldlega eitthvað að, virðulegi forseti. Það er einfaldlega eitthvað ekki í lagi.

Það er ein aðgerð sem mundi hjálpa heimilum og fyrirtækjum í landinu hvað mest. Sú aðgerð er að lækka stýrivexti. Það að skuldsetja þjóðarbúið einhverja tugi ára fram í tímann mun ekki hjálpa íslenskum heimilum. Það mun ekki hjálpa íslenskum skattgreiðendum að stór hluti tekna þeirra næstu sjö árin mun fara í það að borga vextina af Icesave — 80 þúsund manns, eins og oft hefur verið bent á í umræðum, munu horfa upp á það að tekjuskattar þeirra munu fara í það að borga vextina af Icesave, hvorki meira né minna. Í ljósi þess að hæstv. fjármálaráðherra var eitt sinn andvígur því að fá Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þá ætti hann, tel ég, að verða fyrsti maðurinn til að viðurkenna að við eigum að afþakka veru hans hér.

Í ræðu hans kom margt fram sem ég tel rétt og skylt að fara yfir og andmæla, sérstaklega þegar hæstv. fjármálaráðherra fór yfir, í nokkru máli, málsmeðferðina frá því að Alþingi lauk störfum í lok ágústmánaðar. Hann segir, með leyfi forseta:

„Innihald málsins nú og meðferð þess frá því að Alþingi lauk störfum í lok ágústmánaðar sl. hefur að mínu mati verið algjörlega stjórnskipulega rétt og eðlileg og það hefur verið staðið að því á eins vandaðan hátt og hægt er.“

Nú hef ég í nokkrum ræðum eytt drjúgum tíma í að benda á þau atriði sem hv. fjárlaganefnd mun fara yfir, það er ansi langur listi. Ég skil ekki hvernig hæstv. fjármálaráðherra fær það út að þessi málsmeðferð hafi verið algerlega stjórnskipulega rétt og eðlileg. Hann segir svo, með leyfi forseta:

„Það var einfaldlega þannig að það var gert nákvæmlega það sem framkvæmdarvaldinu var falið í lögunum, að fara og kynna gagnaðilum okkar niðurstöðu Alþingis.“

Ég benti hæstv. fjármálaráðherra á, og það kemur fram í ræðunni, að honum var ekki veitt heimild til að semja upp á nýtt. Þar liggur hundurinn grafinn, virðulegi forseti. Í lögunum nr. 96/2009, sem samþykkt voru í lok ágústmánaðar, var engin heimild til að semja upp á nýtt. Það var hins vegar tekið skýrt fram að ríkisábyrgðin tæki ekki gildi fyrr en búið væri að kynna Bretum og Hollendingum fyrirvarana og þeir mundu fallast á þá. Þannig var það orðað. Það þýðir með öðrum orðum að ef þeir voru ekki reiðubúnir að fallast á fyrirvarana þá félli ríkisábyrgðin úr gildi. Þannig var þetta rætt við meðferð málsins á Alþingi og ég man ekki betur en það hafi verið skýr vilji löggjafarvaldsins enda kemur sá skýri vilji fram í þeim lögum sem samþykkt voru í lok ágústmánaðar.

Á einhvern hátt fékk ríkisstjórnin það út að henni bæri að semja upp á nýtt og hæstv. fjármálaráðherra vill meina að ekki hafi verið send sama samninganefnd. Nei, nú hefði það verið þannig að æðstu embættismenn og fulltrúar þeirra ráðuneyta sem með málið höfðu farið og þeirra stofnana sem það varðaði beint — ég skil einfaldlega ekki þessi orð hans vegna þess að ég upplifði það að nánast sömu mennirnir og sömdu um Icesave-samningana hafi samið á ný vegna þess að sömu menn sátu trekk í trekk fyrir framan fjárlaganefnd. Það var undarlegt, virðulegi forseti, og þess vegna finnst mér undarleg þessi yfirlýsing. En nú heita þeir kannski öðrum nöfnum. Nú eru þeir æðstu embættismenn og fulltrúar ráðuneytanna í stað þess að heita samninganefndarmenn og það er kannski í því sem munurinn liggur jafnvel þó að þessir menn hafi sömu kennitölu og áður. Hann segir, með leyfi forseta:

„Við vorum að undirstrika það m.a. með því að þetta væri ekki samninganefnd heldur kynning á vegum íslenskra stjórnvalda eins og þeim hafði verið falið að standa fyrir með lagasetningu á Alþingi. Það skýrir það hvernig að þessu var staðið.“ Af hverju kom þá þessi samninganefnd með nýjan samning? Það er mér ómögulegt að skilja.

Ég óska eftir því, virðulegi forseti, að ég verði settur aftur á mælendaskrá.