138. löggjafarþing — 40. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[02:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Mjög margir hafa komið að máli við mig og sagt: Já, en við eigum ekki að borga Icesave. Ég ætla að fá að lesa úr tilskipun Evrópusambandsins, nr. 94 19 EB, frá 30. maí 1994, en það er sú tilskipun sem gildir um innlánstryggingarkerfið hér á Íslandi og gilti í Evrópusambandinu þangað til í mars í vor.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Það er ekki bráðnauðsynlegt í þessari tilskipun að samræma leiðirnar við fjármögnun þeirra kerfa sem tryggja innlánin eða lánastofnanirnar sjálfar, m.a. vegna þess að lánastofnanirnar skulu sjálfar almennt bera kostnaðinn við fjármögnun slíkra kerfa, og einnig vegna þess að fjárhagsleg geta kerfanna skal vera í samræmi við tryggingarskuldbindingarnar. Þetta má samt ekki stefna stöðugleika bankakerfis aðildarríkisins í hættu.“

Það eru sem sagt fjármagnsstofnanirnar sjálfar sem eiga að fjármagna kerfið, höfum það alveg á tæru.

Síðan kemur mjög athyglisverð grein, með leyfi herra forseta:

„Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum, viðurkenndum af stjórnvöldum, sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanir sjálfar og tryggja að innstæðueigendur fái bætur og tryggingar í samræmi við skilmála þessarar tilskipunar.“ — Það er sem sagt beinlínis bannað að aðildarríkin geri meira en að bera ábyrgð á þessu.

Í 7. gr., 1. lið stendur, með leyfi forseta:

„Innlánstryggingarkerfin tryggja að samanlögð innlán hvers innstæðueiganda séu tryggð upp að 20 þús. ECU ef innlánin verða ótiltæk.“

Ég skil ekki, herra forseti, að menn skuli vera að rífast um ákvæðið sem kennt er við Ragnar H. Hall hafandi þetta þarna. Það á að tryggja hvern innstæðueiganda upp að ákveðinni upphæð, sem er 20.778 evrur, eða 20 þús. ECU, hann á ekki að fá meira. Þó að Bretar og Hollendingar hafi borgað honum meira er það þeirra mál og þeir eiga enga kröfu á íslenska innlánstryggingarsjóðinn eða íslenska innlánstryggingarkerfið yfirleitt umfram þessi 20 þús. ECU. Forgangskrafan beinist því að innlánstryggingarsjóðnum og hann á fyrstu 20 þús. ECU-innstæðuna. Það á ekki að tryggja meira, samkvæmt reglugerð Evrópusambandsins.

Til viðbótar kemur að það eru innlánsstofnanirnar sjálfar sem eiga að fjármagna þetta, ekki skattgreiðendur.

Ég las hér áður úr ræðu hollenska fjármálaráðherrans, Wouters Bos, sem hann hélt 3. mars fyrir bankakerfið á Eumedion Conference. Þar segir hann aftur og aftur — ég ætla að lesa hér eina tilvitnun í hann. Ég les það á ensku og svo þýði ég það yfir á íslensku, með leyfi forseta:

„The question is how to achieve this,“ þ.e. að tryggja sparifjáreigendur. „First and foremost European countries need to take a close look at how the deposit guaranty scheme is organized.“ Á íslensku: „Spurningin er hvernig við eigum að ná þessu [þ.e. að tryggja sparifjáreigendur]. Evrópsk ríki þurfa að horfa nákvæmlega á hvernig þetta innlánstryggingarkerfi er skipulagt.“

Svo segir hann, með leyfi forseta:

„It was not designed to deal with a systematic crisis but with a collapse of a single bank.“ Sem sagt: „Það var ekki hannað til þess að ráða við kerfishrun heldur við hrun eins banka.“

Þessi sami maður er að semja við íslensku samninganefndina þrem mánuðum seinna og hann krefst þess að íslenskir skattgreiðendur greiði, þó að á Íslandi hafi orðið kerfishrun og hann vissi af því. Það er eins og íslenska samninganefndin hafi ekki verið búin að lesa þessa ræðu því að annars hefði hún farið og sagt við hann: Heyrðu vinurinn, þú sagðir að þessi trygging ætti bara við þegar einstakur banki fellur en ekki þegar heilt kerfi hrynur.

Þetta er með ólíkindum. Það virðist vera að bæði tilskipunin sjálf og skilningur þess sem við vorum að semja við hafi verið sá að skattgreiðendur eigi ekki að borga og síst af öllu þegar kerfishrun verður. Þetta vildi ég, herra forseti, koma inn á vegna þess að ég heyri menn oft segja að við eigum að borga. Þá kann einhver að spyrja: Hvernig stendur þá á því að þú samþykktir lögin frá því í haust? Það er vegna þess að ég áttaði mig á þeirri ógnun og þeim hótunum sem gengu stöðugt gagnvart Íslandi um allan heim, að við yrðum að semja til þess að mæta þeirri ógn af því að við værum svo varnarlaus.

Ég sagði hér fyrir jól að mér liði eins og manni sem mætti ræningja í skóginum og ræninginn beindi að honum byssu og þá væri hann ekkert að hugleiða það hvort lög og réttur bannaði ræningjanum að heimta af honum veskið, hann bara afhenti honum veskið, hann væri ekkert að spekúlera í lögum eða rétti. Þannig var staða Íslendinga. Við vorum beitt efnahagslegum þvingunum af margs konar toga. Það voru hryðjuverkalögin. Annað var að evrópskir bankar neituðu að millifæra yfir til nýju bankanna, kannski skiljanlegt. Það getur vel verið að rautt ljós hafi blikkað: Þetta er einhver óþekktur banki. Þetta hafði það í för með sér, herra forseti, að útflytjendur fengu ekki innstæður sínar á Ítalíu og hvar sem var í Evrópu millifærðar til Íslands. Útflytjendur, sem voru að flytja út góðan íslenskan fisk, fengu ekki andvirði fisksins til Íslands og innflytjendur þurftu að staðgreiða allar vörur. Þeir þurftu sem sagt að afla gjaldeyris og hann þurfti að vera kominn á staðinn inni í banka úti áður en varan var afhent.

Þetta hafði það í för með sér, herra forseti, að algjör gjaldeyrisþurrð varð og það var mjög naumt á tímabili hvort Íslendingar ættu fyrir lyfjum og olíu. Staðan var alvarleg og í þeirri stöðu neyddust menn til að samþykkja alls konar hluti, m.a. að borga Icesave, sem þeir áttu ekkert að borga. Bretar og Hollendingar tóku einhliða ákvörðun um að borga þetta út til innlánseigenda. Þeir spurðu Íslendinga ekkert að því og svo senda þeir reikninginn til Íslands. Samkvæmt því sem ég hef lesið hér áttum við ekkert að borga þetta en við neyddumst til þess og ég féllst á þá nauð. Þannig var það að ég samþykkti þetta í sumar og vann meira að segja heilmikið að þessu, efnahagslegu fyrirvararnir komu frá mér og ég vann heilmikið í því að fá þá samþykkta. Mér fannst þeir vera mjög sanngjarnir, herra forseti. Lögin frá því í vor sögðu: Íslendingar ætla að borga þó að þeir eigi jafnvel ekki að gera það, og þeir ætla að borga með eins sanngjörnum hætti og þeir mögulega geta. Þeir ætla að borga 6% af aukningu landsframleiðslu.

Mér var nefnilega bent á það í efnahags- og skattanefnd að ef engin aukning yrði á landsframleiðslu í langan tíma væri þjóðin illa sett. Ef enginn hagvöxtur yrði í langan tíma væri hún svo illa sett að menn gætu gleymt því að vera yfirleitt að ræða um að borga einhverjar erlendar skuldir. Það að borga 6% af aukningu hagvaxtar er afskaplega sanngjarnt og segir í rauninni nákvæmlega það sama og Brussel-viðmiðin: Íslendingar fallast á að greiða en taka skal tillit til óvenjulegrar stöðu á Íslandi sem hvergi hefur komið fyrir annars staðar.

Það er ekki gert. Það var hvorki gert í sumar í fyrstu samningunum og það er heldur ekki gert í þessum nýjustu því að samkvæmt þeim eigum við að borga, hvað sem það kostar, hverja einustu evru og hvert einasta pund nákvæmlega sama hvernig þjóðfélaginu á Íslandi líður.