138. löggjafarþing — 40. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[03:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég gat þess áðan að hæstv. félagsmálaráðherra hefði sagt að það væri ekki rétt að menn gætu borgað í krónum. Til þess að vera viss fletti ég upp lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta nr. 98/1999. Þar er III. kafli sem fjallar um greiðslur úr sjóðnum og í 9. grein segir, með leyfi herra forseta:

„Nú er aðildarfyrirtæki að áliti Fjármálaeftirlitsins ekki fært um að inna af hendi greiðslu á andvirði innstæðu, verðbréfa eða reiðufjár sem viðskiptavinur hefur krafið aðildarfyrirtæki um endurgreiðslu eða skil á í samræmi við þá skilmála er gilda. Er þá sjóðnum skylt að greiða viðskiptavini aðildarfyrirtækis andvirði innstæðu úr innstæðudeild og andvirði verðbréfa og reiðufjár í tengslum við viðskipti með verðbréf úr verðbréfadeild. Greiðsluskylda sjóðsins verður einnig virk ef bú aðildarfyrirtækis er tekið til gjaldþrotaskipta í samræmi við lög um viðskiptabanka og sparisjóði og lög um verðbréfaviðskipti. Sjóðnum er heimilt við endurgreiðslu andvirðis innstæðu úr innstæðudeild að inna greiðsluna af hendi í samræmi við skilmála er gilda um innstæðu eða verðbréf, t.d. hvað varðar binditíma, uppsögn og þess háttar.“ — Svo kemur, herra forseti: — „Ávallt skal heimilt að endurgreiða andvirði innstæðu, verðbréfa eða reiðufjár í íslenskum krónum, óháð því hvort það hefur í öndverðu verið í annarri mynt. Sjóðnum er heimilt að nýta sér kröfur viðkomandi fjármálafyrirtækis á hendur viðskiptamanni til skuldajafnaðar gegn kröfu viðskiptamanns á greiðslu andvirðis innstæðu.“

Það er sem sagt heimilt að greiða þetta í krónum og það er líka í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins því að það á að greiða í mynt heimaríkisins þar sem innstæðutryggingarsjóðurinn starfar. Það að halda því fram að við eigum að borga þetta í erlendri mynt, hvað þá í pundum eða evrum, er bara að lúta valdi. Það er verið að fallast á ofbeldi sem íslensk þjóð hefur því miður verið beitt — í reyndar síminnkandi mæli — og það er það sem ég hef bent á. Það var kannski mjög mikill þrýstingur að standa við þetta samkomulag í haust þegar bankarnir hrundu en svo er ekki lengur. Ég skil ekkert í þeirri nauðhyggju að halda að við verðum að samþykkja þetta núna hvað sem það kostar. Ég held nefnilega að ef Alþingi mundi salta málið núna í tvo, þrjá mánuði eða jafnvel fram á vor mundu Bretar og Hollendingar sjá sitt óvænna og senda tilkynningu til íslenskra stjórnvalda um að þeir fallist á fyrirvarana í þeim lögum sem gilda á Íslandi nú þegar. Þeir yrðu nefnilega hræddir um að þeir fengju ekki krónu vegna þess að það er ákveðinn flötur á málinu að Íslendingar eigi ekkert að borga, eins og ég hef margoft bent á. Þá verði þeir bara að sitja uppi með sínar skuldbindingar sjálfir. Þeir geta reynt að sækja þær fyrir íslenskum dómstólum og munu væntanlega fá reisupassa með það, því verði hafnað vegna þess að, eins og ég las úr tilskipuninni, fjármálastofnanirnar sjálfar eiga að standa undir innlánstryggingakerfinu en ekki ríkin.

Reyndar er það þannig í Bretlandi og jafnvel að mér skilst í Hollandi — ég þekki það ekki eins vel þar en í Bretlandi eru þeir með eftirágreiðslukerfi. Það er eins og gagnkvæmt tryggingafélag sem greiðir bætur eftir á og ef það verður tjón leggja þeir það á bankakerfið í landinu. Herra forseti. Það er mjög sennilegt að þegar upp er staðið eftir tíu ár hafi breskt bankakerfi borgað hvert einasta pund sem Bretar hafa lagt út fyrir það og hollenskt bankakerfi hverja einustu evru sem hollenskt fjármálaeftirlit hefur lagt út fyrir það. Einu skattgreiðendur í Evrópu sem munu borga þetta hrun Landsbankans verða skattgreiðendur á Íslandi. Fiskverkakonan á Raufarhöfn eða iðnaðarmaðurinn í Reykjavík, það verða einu skattgreiðendurnir sem munu borga þetta. Ef illa fer, sem ég vona ekki, en mér sýnist allt stefna í að hv. meiri hluti og þar með hæstv. forseti muni fallast á þetta, samþykkja þessi ósköp og þjóðin getur lent í því að verða örfátæk.

Ég hef verið að giska á afstöðu stjórnarþingmanna því að hún hefur ekki komið fram. Þá verður fyrir mér Ásmundur Einar Daðason, hv. þm. Vinstri grænna. Hann er ungur maður, bóndi, afskaplega einarður og vann mjög eindregið með okkur í sumar. Það má eiginlega þakka honum að fyrirvararnir í sumar náðu í gegn vegna þess að hann var lykilmaður í fjárlaganefnd og stoppaði málið, annars hefði samningurinn eins og hann var frá 5. júní bara runnið ljúflega í gegn í einhvers konar meðvitundarleysi. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason var eindregið á móti þessu. Nú er merkilegt að það er eins og hv. þingmaður hafi misst málið. Hann tjáði sig nokkrum sinnum í sumar um Icesave-málið en ekki orð um það síðan. Það er hrópandi þögn hjá hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni. Alls staðar þar sem hann kemur segist hann ekki gefa upp hvernig hann muni greiða atkvæði.

Hvað skyldi svona eiga að þýða, herra forseti? Hér á Alþingi á að vera umræða, menn eiga að ræða um kosti og galla. Ég er búinn að fara í gegnum það sem fjármálaráðherra Hollands sagði, ég er búinn að fara í gegnum áhættuna af því að það verði verðhjöðnun í Bretlandi og hvaða áhrif það hafi á krónutölubindingarnar ef það verður gengisfall á Íslandi. Ég hef farið í gegnum fullt af atriðum en ég hef ekki heyrt eitt einasta orð frá hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni, ég veit ekkert hver afstaða hans er. Honum finnst þetta kannski í lagi og þá greiðir hann væntanlega atkvæði gegn þessu samkomulagi. Ef honum finnst það ekki í lagi vildi ég gjarnan heyra af hverju, því það er þá rökræða. Menn eiga að ræða sig fram til þess að sannfæra hver annan. Það er ekki um neitt slíkt að ræða í þessu máli og það er dálítið uggvænlegt, herra forseti. Það er uggvænlegt að stjórnarliðar taki ekki þátt í umræðum.

Ég er með ræðu sem hv. þingmaður flutti 21. ágúst sl. Þá sagði hann mjög margt og m.a. þetta, með leyfi herra forseta:

„Það liggur líka ljóst fyrir og hefur ekki verið launungarmál að áður en skrifað var undir þessa samninga voru miklar efasemdir um þá, til að mynda innan raða Vinstri grænna. Sú andstaða fór ekki leynt. Til að mynda hefur hæstv. heilbrigðisráðherra Ögmundur Jónasson ávallt lagst gegn þeim, bæði innan ríkisstjórnar, í fjölmiðlum, inni á þingi og annars staðar.“

Öðruvísi mér áður brá, herra forseti. Inni á þingi var þá einhver umræða en ekki orð núna. Hann hélt áfram, með leyfi forseta:

„Það var síðan samþykkt að þetta frumvarp færi inn til þingsins en margir höfðu miklar efasemdir um það og lögð var áhersla á það, sér í lagi af hálfu þeirra sem efasemdir höfðu, að öll gögn í málinu yrðu fengin upp á borðið og allt yrði opnað, ekki einungis fyrir þingið heldur líka fyrir þjóðina. Þetta fór síðan til fjárlaganefndar, hún lauk sínum störfum, skilaði inn áliti og svona er staðan í dag.“

Nú er tíminn eiginlega liðinn þannig að ég þarf að fara betur ofan í afstöðu hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar seinna. Mig langar líka, herra forseti, til að ræða um afstöðu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, sem situr nú í forsetastóli, því að ég ætla að reyna að geta mér til um hver sú afstaða er.