138. löggjafarþing — 40. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[04:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Mér skilst að ég sé orðinn eini ræðumaðurinn í þessari umræðu og þar af leiðandi mun hún væntanlega hætta. Er klukkan eitthvað biluð? Já, ég fékk mínar tíu mínútur.

Það er mjög dapurlegt en ég var að reyna að geta mér til um skoðanir hv. stjórnarliða og hæstv. ráðherra og var kominn að Árna Þór Sigurðssyni. Hann hélt langar tvær ræður, bæði við 2. og 3. umræðu, og sagði svo í atkvæðaskýringu, með leyfi herra forseta:

„Það er ekki ofmælt að hér sé á ferðinni eitt stærsta og erfiðasta viðfangsefni sem Alþingi hefur fengist við um langt skeið. Það er engu okkar gleðiefni að þurfa að vinna úr þeim hörmungum sem efnahagshrunið sl. haust orsakaði en það verkefni er hins vegar óhjákvæmilegt og lausn þess máls sem hér er til afgreiðslu er þýðingarmikill áfangi á þeirri vegferð.“

Þetta sagði hv. þm. Árni Þór Sigurðsson. Ég komst ekki yfir að ræða um afstöðu hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar, sem enginn veit hvernig greiðir atkvæði, en fjöldi þingmanna stjórnarliða tók ekki þátt í umræðunni. Ég ætla að telja þá upp svona undir lokin, herra forseti.

Ásta R. Jóhannesdóttir tók aldrei þátt í seinni umræðunni. Við vitum ekkert um hennar afstöðu, hv. þingmanns og hæstv. forseta. Það er óljóst. Hún hefur ekkert blandað sér í umræðuna og ekki hrakið nein rök okkar stjórnarandstæðinga eða neitt slíkt.

Síðan er það hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sem sat sem hæstv. viðskiptaráðherra þegar Icesave blómstraði í Hollandi og olli okkur þessum óskaplegu búsifjum. Hann hefur komið þrisvar í andsvar í þrjár mínútur en aldrei haldið ræðu um málið. Afstaða hans er alveg óljós.

Síðan er það Gylfi Magnússon, hæstv. viðskiptaráðherra. Hann hefur komið þrisvar í andsvar í fjórar mínútur samtals. Hann er ráðherra viðskiptamála og efnahagsmála en hefur ekki haft neina sérstaka skoðun á þessu máli, herra forseti. Þetta er náttúrlega alveg með ólíkindum og þjóðin á eftir að verða hissa.

Hv. þm. Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar, tjáði sig nokkuð oft og einu sinni í ræðu í fyrra málinu í sumar en hefur ekki tjáð sig í seinna málinu. Við vitum ekkert um hans afstöðu og hann hefur engan áhuga á þessu, hann hefur engin sérstök rök með eða á móti og tekur ekki þátt í umræðunni. Hann hefur ekkert gagnrýnt það sem við stjórnarandstæðingar höfum sagt þannig að maður er engu nær um hans afstöðu. Svona er þetta. Þessi umræða er náttúrlega bara einn skrípaleikur.

Jón Bjarnason, hæstv. ráðherra, hefur aldrei nokkurn tímann tjáð sig um Icesave hér á Alþingi, hvorki í fyrra málinu né því seinna. Hann virðist vera gjörsamlega skoðanalaus. Samt hef ég grun um að hæstv. ráðherra hafi töluverðar meiningar um Icesave og vilji ekki samþykkja það af því hann er ættjarðarsinni og vill sinni þjóð vel. Stólarnir eru þó hlýrri en það.

Hv. þm. Jónína Rós Guðmundsdóttir hefur heldur ekki tjáð sig um málið í seinni tíð.

Katrín Júlíusdóttir, hæstv. ráðherra, hefur einu sinni tjáð sig í andsvari og ekki efnislega en aldrei haldið ræðu um þetta seinna mál. Hún reyndar talaði aldrei um fyrra málið heldur.

Katrín Jakobsdóttir, hæstv. menntamálaráðherra, tjáði sig um fyrra málið en aldrei um seinna málið. Þetta er á sömu bókina lært, flestir hæstv. ráðherrar virðast ekki hafa neina skoðun á málinu eða þora ekki að koma fram með hana.

Kristján L. Möller, hæstv. samgönguráðherra, talaði aldrei um Icesave-málið í sumar. Hann hefur fimm sinnum farið í andsvar núna en þau andsvör voru ekki efnisrík og ég veit ekkert um hans afstöðu til málsins, hvort hann greiðir atkvæði með þessu eða móti og af hverju hann greiðir atkvæði eins og hann mun gera. Hann tekur ekki þátt í umræðunni. Samt var þetta mál rifið út úr nefndunum báðum, efnahags- og skattanefnd og fjárlaganefnd, til þess að umræðan færi fram hérna í þingsal. Þetta er einn allsherjarskrípaleikur, herra forseti.

Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir hefur aldrei tjáð sig um þetta. Reyndar hélt hún eina ræðu í sumar, ég er ekki búinn að fara í gegnum þá ræðu en hún hefur ekki tjáð sig síðan og við vitum ekkert um hennar afstöðu. Hún ætlar ekki að segja sínum kjósendum eða taka þátt í umræðum og ræða um af hverju hún vill eða vill ekki demba þessum endalausu skuldbindingum á þjóð sína.

Hv. þm. Lilja Mósesdóttir hefur tjáð sig gegn þessu en ekki tekið þátt í umræðunni. Það er miður, herra forseti, því hún hefði örugglega getað komið með einhverja punkta og bent okkur á hvað sé hættulegt við þessa samninga, sérstaklega af því hún er hagfræðingur. Þess vegna er það ábyrgðarhluti hjá henni að koma ekki í umræðuna og segja okkur frá því sem hún vill að þjóðin og hæstv. ríkisstjórn varist. Ég reikna þó með því að hún muni greiða atkvæði gegn þessu. Hún er það sjálfstæð, hún skuldar ekki sínum flokki og lýtur ekki flokksaga.

Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson, varamaður hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, hefur heldur aldrei tjáð sig um málið. Enginn veit því hver afstaða hans er. Þetta er á sömu bókina lært.

Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir hefur komið níu sinnum í andsvör. Þau voru ekki efnisrík — ég reyndi að fara í gegnum þau til að átta mig á afstöðu hennar — en hún hefur ekki tjáð sig með ræðu í þessari umræðu.

Ragna Árnadóttir, sem er reyndar ekki kjörin þingmaður, hefur aldrei tjáð sig um málið. Það er dálítið alvarlegt, herra forseti, vegna þess að hún þarf ekki að sæta ábyrgð fyrir kjósendum en hún tekur ákvörðun í ríkisstjórn um að fara út í þessi ósköp. Hennar ábyrgð er töluvert mikil af því hún ber ekki ábyrgð gagnvart kjósendum, hún þarf ekki að standa fyrir framan fyrir kjósendur og vera kosin eða ekki kosin.

Hv. þm. Róbert Marshall hefur farið í fimm andsvör en aldrei í sumar. Hann hefur ekki mikinn áhuga á málinu virðist vera.

Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson kom sjö sinnum í andsvar en hefur aldrei haldið ræðu. Ég held reyndar að hans andsvör hafi verið dálítið innihaldsrík, mig minnir það.

Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, sem er hagfræðingur, hefur aldrei nokkurn tímann tjáð sig um Icesave. Það er dálítið sérkennilegt, herra forseti. Við erum að ræða mál sem hefur gífurleg áhrif á efnahag Íslands og getur gert Íslendinga fátæka eins og Seðlabankinn gaf í skyn í sínu yfirliti.

Svandís Svavarsdóttir, hæstv. ráðherra, hefur aldrei tjáð sig um málið. Aldrei, það er bara núll. Hún segir okkur ekki af hverju hún ætlar að gera eitthvað eða af hverju ætlar hún ekki að gera það. Hún tekur ekki þátt í umræðunni en ætlar væntanlega að greiða einhvern veginn atkvæði og maður bíður bara spenntur.

Hæstv. ráðherra Össur Skarphéðinsson hefur tekið nokkuð oft þátt í umræðunni og ber að virða það og hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon sömuleiðis. Hann er reyndar flutningsmaður málsins og hefur talað nokkuð oft í umræðunni.

Þetta eru þessir stjórnarliðar og hv. þingmenn ríkisstjórnarinnar sem ég er búinn að fara í gegnum. Þetta er allt mjög athyglisvert.

Nú mun þetta mál fara til atkvæðagreiðslu af því að ég er hérna einn eftir og get ekki varist meir. Það mun gerast og þetta fer til hv. fjárlaganefndar. Hún mun lulla á þessu í tvær vikur, koma með einhverja niðurstöðu og ég fullyrði, herra forseti, að það mun engu breyta vegna þess að flokksaginn heldur öllum í heljargreipum. Þessir hv. þingmenn verða greyptir í stein fyrir að hafa samþykkt þessi ósköp yfir þjóð sína en þeir munu samt gera það af því að þeir vilja ekki að vinstri stjórnin hætti. Reyndar hefur enginn talað um það nema hæstv. forsætisráðherra. Ég hef t.d. margoft tekið fram að stjórnin má mín vegna lafa, hún mun falla af öðrum ástæðum. Hún skal ekki falla af þessari ástæðu en það dugar ekki til heldur. Það er alveg sama hvað maður segir, þetta skal rúlla svona í gegn meðvitundarlaust án þess að nokkur hugsi sérstaklega um þetta.

Um 30.000 Íslendingar hugsa núna eins og ég, að þetta muni fara í gegnum Alþingi sjálfvirkt. Þá gerist það, herra forseti, sem er mjög merkilegt og ég hefði aldrei trúað, að nú þarf ég sem og þessir 30.000 Íslendinga að treysta því að forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, skrifi ekki undir þau lög sem verða samþykkt hérna á Alþingi. Það er nú bara þannig, því miður. Sjálfvirkt kerfi flokksræðisins eyðileggur allt lýðræði, eyðileggur skynsemi og þá er þetta síðasta vonin. Ég trúi að forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, skrifi ekki undir lögin ef 40–50.000 Íslendingar skora á hann að skrifa ekki undir, sem ég vona að verði.