138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:44]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Ríkisstjórnin hefur svolítið farið út í það eins og maður þekkir úr þeirri ágætu bók 1984 að reyna að segja okkur að stríð sé friður. Núverandi valdhafar hafa á einstaklega sannfærandi hátt náð að umbreyta merkingu sinna eigin slagorða. Hver man ekki eftir slagorðum eins og t.d. skjaldborg um heimilin, nú orðið að gjaldborg um heimilin. Gegnsæi og heiðarleiki, nú orðið að leynihyggju og lygum. Norræn velferðarstjórn, nú orðið að látum almenning borga með öllum tiltækum ráðum fyrir sukkið undanfarin ár. Sjö ára skjól, nú orðið að látum tekjuskatt 79.000 skattborgara renna í að borga vexti af Icesave árlega.

Ég, eins og margir, frú forseti, fagnaði því að hér mundi komast á annars konar stjórnarfar eftir að almenningur bylti síðustu ríkisstjórn frá sem með sanni var hægri stjórn þó að Samfylkingin ætti hlutdeild að henni. Kannski trúði maður því vegna óskhyggju að hér mundi koma saman vinstri stjórn sem byggð væri á módelinu um norrænt velferðarkerfi og vegna þeirrar óskhyggju lokaði maður fyrir þá staðreynd að það eru öfl innan Samfylkingarinnar sem eru meira til hægri en Sjálfstæðisflokkurinn.

Vonbrigðin hafa verið mikil hjá fjölmörgum sem kusu til vinstri, hér er nefnilega ekki nein vinstri stjórn við völd, þó að öllu sé til kostað til að verja þessa meintu vinstri stjórn falli. Helgustu loforðum er fórnað á altari valdsins. Þokkalega heiðarlegt fólk virðist oft og tíðum umbreytast í umskiptinga og lygamerði þegar það gengur inn í björg ráðuneyta sinna.

Mig langar til að fjalla um Icesave og leynihjúpinn. Allt frá því Icesave-málið kom inn á borð þingsins hefur það verið sveipað dulúð og strangheiðarlegt fólk veigrar sér ekki við að ljúga að samstarfsfólki sínu eða dansa á gráu svæði hvítu lyganna. Stundum veltir maður fyrir sér hver tilgangurinn með þessum óheiðarleika sé. Getur það verið mögulegt að þeir sem hafa hrópað hvað hæst um úlfinn ógurlega séu í raun og sanni í alvörunni svona hræddir við hann, sem þó er aðeins skuggamynd á vegg? Já, skrattinn sem ráðamenn hafa málað á vegginn er farinn að vera raunverulegur í huga þeirra ef það er ástæða allra lyganna og hálfsannleikans.

Allt átti að vera uppi á borðum þegar þau tóku við en með hverjum deginum verða lygarnar í kringum Icesave umfangsmeiri og það er nú oft þannig að þegar mikið er logið missir fólk þræðina út í einhverja vitleysu. Þannig upplifi ég þá umræðu sem stjórnarliðar bjóða almenningi upp á. Auðvitað bera allir flokkar ábyrgð á málinu. En eitt afl í stjórnmálalífinu, í íslenskri stjórnsýslu, virðist aldrei þurfa að axla neina ábyrgð, og það eru blessaðir embættismennirnir og ráðgjafarnir.

Ég held því fram fullum fetum að það ágæta fólk sem komið hefur að Icesave-samningagerðinni sé gjörsamlega vanhæft til þess verks og það hefur valdið þjóðinni ómældum skaða með því að ofmeta getu sína í málinu. En það má ekki gagnrýna embættismenn. Hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, fær ávallt á sig ábúðarmikinn svip og verður reiður í pontunni ef maður vogar sér að reyna að varpa ábyrgðinni á þessu einstaka klúðri á þá sem hafa þó tekið þátt í því ferli frá upphafi. Hverjir ráðleggja ráðamönnum? Og hve alvarlega taka ráðamenn mark á ráðum þeirra? Ég hef setið fund eftir fund eftir fund þar sem embættismennirnir réttlæta gjörðir sínar, þvo hendur sínar af ömurlegum árangri og ráðherra stekkur upp í ræðustól og mærir þá fyrir glæsilegan árangur.

Ég verð að viðurkenna að mér hefði aldrei dottið í hug, frú forseti, að vanhæfnin væri jafnmikil og ég hef orðið vitni að. Vanhæfnin felst fyrst og fremst í því að geta ekki horfst í augu við eigin vanmátt, að geta ekki horfst í augu við eigin vanmátt til að sinna svo viðamiklum störfum og kalla ekki eftir því að fagmenn á þessu sviði taki afgerandi þátt í slíkri vinnu, eins og milliríkjasamningum sem eru með sanni hluti af miklu stærri mynd en aðeins Icesave.

Myndin er þessi eins og sannað hefur verið. Icesave tengist Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Icesave tengist ESB og EES og Icesave tengist fólki, sem ég á ekki betra orð yfir en mafíu, sem hreinsaði bankana svo hressilega að innan að það er lítið eftir fyrir almúgann sem á að bera þeirra græðgisbagga sem hlekki skuldaþræla um ókomna tíð.

Í fyrrakvöld láku á Wikileaks tölvupóstssamskipti Indriða H. Þorlákssonar og Marks Flanagans. Þó svo að þingmenn hafi haft tækifæri til að lesa skjölin í leynimöppunni illræmdu er ljóst að allt of margir þingmenn hafa ekki kynnt sér þau í þaula, þrátt fyrir að sú sem hér stendur hafi ítrekað skorað á þingmenn að lesa þetta tiltekna bréf vegna þess hve mikilvægar upplýsingar voru þar að finna. En það er nú þannig, frú forseti, að þegar maður fer að lesa eitthvað án þess að geta leitað sér ráðgjafar og oft með hraði, því nefndasvið er ekki opið nema á skrifstofutíma og á þeim tíma eru þingmenn oftast á þingfundum eða í nefndastarfi, vill bregða við að manni yfirsjáist mikilvæg atriði. Það fór til dæmis fram hjá mörgum að þarna var verið að vega að lýðræðinu með því að biðla til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að láta málið bíða fram yfir kosningar sem voru að bresta á.

Það var svolítið sérstakt þegar hæstv. heilbrigðisráðherra, Álfheiður Ingadóttir, hélt því fram 30. júní að þjóðin hefði kosið um Icesave. Hefði ekki verið heiðarlegra að leggja þessi spil á borðið fyrir kosningar fyrst þetta var komið svona langt í stað þess að láta sem þessi samningur hafi verið settur saman á örskotstíma í sumar? (Gripið fram í.) Er þetta sá heiðarleiki sem þjóðinni var lofað? Þetta er einfaldlega aðför að lýðræðinu og innra með mér er nöturleg ónotatilfinning.

En er sjö ára skjólið vindhelt, hvað þá fokhelt? Þau hafa verið fögur hljóðin úr fagurgalanum varðandi ágæti Icesave-samninganna. Dísæt tilhugsunin um að geta velt skuldabyrði frá okkur í ein sjö ár hefur oft verið endurtekið sem einn af hornsteinum snilldarinnar. En hvað er þetta skjól þeirra annað en fullkomin blekking? Það er ekki neitt sjö ára skjól, kæru landsmenn. Það er ekki neitt skjól fyrir Icesave nema hafna þessum voðalega samningi í þeirri mynd sem hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, færir okkur hann núna. (Gripið fram í: Rétt.) Þó svo við byrjum ekki að borga niður höfuðstólinn af láninu fyrr en eftir sjö ár eru vextirnir nú þegar farnir að tikka og þeir munu taka þátt í að eyðileggja grunnstoðir velferðarsamfélags okkar um leið og skrifað er undir. Þessir vextir af Icesave munu sjúga í sig tekjuskatt 79.000 skattborgara hérlendis árlega næstu sjö árin. Ég get ekki kallað það skjól heldur er nær að segja að keisarinn sé nakinn Ég hef enn ekki fengið nægilegar skýringar á því hvernig norræna velferðarstjórnin ætlar að verja þá velferð sem þeim á að vera svo annt um ef við förum að bera þessar byrðar.

Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson hélt því fram við mig í gær að margir aðilar hafi séð eignabók Landsbankans og hélt því jafnframt fram að fjallað hefði verið um það í fjárlaganefnd út frá þeim sem best þekkja til. Það er sorglegt til þess að hugsa að við eigum að leggja allan trúnað á skilanefndirnar, sem ekki er hægt að segja að njóti mikils trausts meðal þjóðarinnar. Það er sorglegt til þess að hugsa að þingmaður stjórnarliða sé svo illa að sér, hann líti svo á að það sé nóg að aðilarnir úr skilanefndinni túlki eignabókina fyrir alla, meira að segja hæstv. fjármálaráðherra, án þess að t.d. fjármálaráðuneytið fari í gegnum hvert innihald eignasafnsins raunverulega er.

Frú forseti. Ég skora á alla samþingmenn mína að lesa bréfasamskiptin sem birtust á Wikileaks orð fyrir orð og meðtaka það sem þar er að finna. Þá skora ég jafnframt á alla samþingmenn að lesa bréfin sem fjalla um samskipti okkar og fulltrúa ESB og Ecofin.

Frú forseti. Nú er nóg komið og miklu meira en það. Það er ekki hægt að verja þessi ólög sem á að reyna að þvinga í gegnum þingið. Það liggur nú fyrir að sú ákvörðun var tekin af hálfu stjórnvalda að halda mikilvægum upplýsingum um stöðu Icesave-málsins frá opinberri umræðu í aðdraganda síðustu kosninga. Slíkur blekkingaleikur er með öllu óásættanlegur og ber vott um vantraust og vanvirðingu gagnvart kjósendum og vegur að grunnstoðum lýðræðisins.

Minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna fór jafnframt algjörlega á bak við Framsóknarflokkinn, sem studdi þau m.a. að því tilskildu að vera upplýstur um stöðu mála varðandi Icesave. (Gripið fram í: Rétt.) Tölvupóstssamskiptin staðfesta að Bretar og Hollendingar hafa beitt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fyrir sig í Icesave-deilunni um langa hríð og gagnrýna má þá einfeldni bréfritara að biðja starfsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að tala máli sínu við bresk og hollensk stjórnvöld, sem voru á sama tíma stóru hluthafar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að misnota sjóðinn til að þvinga fram vilja sinn varðandi Icesave.

Það er margt sem fram kemur í bréfinu sem útskýrir af hverju sá samningur sem borinn var fyrir þing og þjóð var eins slælega unninn og raun ber vitni. Beiðni þáverandi ráðuneytisstjóra, sem nú er aðalráðgjafi fjármálaráðherra, um að fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sendi tölvupóst um málið á einkanetfang sitt, utan tölvukerfis Stjórnarráðsins, stangast auk þess á við ákvæði í lögum og reglum um skjalavörslu ríkisins.

Þingmenn Hreyfingarinnar fordæma þau vinnubrögð sem hér hafa verið hafin, bæði í kringum alla leyndina og tölvupóstsamskiptin. Þetta ber vitni um fullkomna vanhæfni, fullkominn óheiðarleika, sem þjóðin vill ekki og kallar eftir heiðarleika. Ég skora á ykkur að sýna heiðarleika í þessu máli og horfast í augu við þann veruleika sem þið eruð að færa þjóðinni með þessum þvingunum. Nóg er komið.

Ég legg til og ég mæli með að hæstv. ríkisstjórn taki þetta frumvarp heim til föðurhúsanna og virði þau lög um ríkisábyrgð sem samþykkt voru í sumar ellegar leyfa þjóðinni það sem auðvitað er sjálfsagt og rétt, að kjósa um þetta viðamikla mál því varla er það flóknara en Kárahnjúkar.