138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:06]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér er komið að lokum 2. umr. afar erfiðs máls en það er óhjákvæmilegt að málið hljóti framgang og við leyfum Alþingi að kveða upp sinn úrskurð.

Hér hefur átt sér stað ein ítarlegasta umfjöllun um eitt einstakt mál í sögu þingsins og vinnan hefur skilað verulegum árangri, sérstaklega á fyrri hluta síðasta sumars. Ég hef haldið því fram að mest af þeirri vinnu skili sér í endurnýjuðu frumvarpi sem hér er til umfjöllunar en arfleifð þeirrar umræðu sem hér hefur átt sér stað í 2. umr. mun að sjálfsögðu skila sér í umfjöllun í fjárlaganefnd, eins og um hefur verið rætt. Málið mun hljóta vandaða umræðu í fjárlaganefnd og ég fagna því að hér sé verið að leiða málið til 3. umr., þ.e. úr þinginu og til fjárlaganefndar og treysti á að það hljóti stuðning þingheims.