138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:12]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Ég styð það frumvarp sem hér er verið að greiða atkvæði um og ég styð þá samninga sem þar liggja að baki. Ég tel þá samninga vera góða. Það er góð lausn á vondu, ljótu og ósanngjörnu máli sem þjóð og þing fengu í hausinn frá fyrri stjórnvöldum og þar ber Sjálfstæðisflokkurinn höfuðábyrgð. (Gripið fram í.) Það hefur því valdið mér miklum vonbrigðum í öllum þeim umræðum sem hér hafa átt sér stað á undanförnum dögum, vikum og mánuðum að aldrei, ekki einu sinni, hefur nokkur hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins, hvorki hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, né fyrri ráðherrar flokksins né aðrir þeir sem bera hér ábyrgð, stigið í þessa pontu og beðið þjóð sína afsökunar (Gripið fram í.) á þætti sínum í þessu mikla hruni. Þessi hrunaflokkur kemur hér fram rétt eins og hann hafi aldrei komið að málum (Gripið fram í.) við stjórn Alþingis. (Gripið fram í.) Þeim væri nær að koma annað slagið upp, helst á hverjum einasta degi, pen í röð og biðjast afsökunar. Ég styð þetta mál.