138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Þó svo að hér séu greidd atkvæði um málið í 2. umr. bindum við flest vonir við að stjórnarflokkarnir muni átta sig á milli umræðna hversu fáránlegt þetta mál er sem hér er verið að þröngva upp á þjóðina, verið að þröngva og þvinga alþingismenn til að samþykkja.

Gleymum því ekki, frú forseti, að íslensk þjóð hefur verið kúguð af erlendum ríkjum til að taka á sig skuldbindingar sem henni ekki ber. Það er sorglegt að horfa upp á það að einn stjórnmálaflokkur virðist keyra þetta mál áfram, þ.e. Samfylkingin virðist keyra þetta blint áfram með hótunum við aðra stjórnmálaflokka og í því skyni að komast í sældarríkið.

Frú forseti. Samfylkingin bar ábyrgð þegar Icesave-reikningarnir uxu ógnarhratt, hún bar líka ábyrgð þegar Icesave-reikningarnir hrundu. Gleymum því ekki. Það að einn flokkur skuli með þeim hætti sem við höfum séð hér á Alþingi hlaupast undan ábyrgð (Forseti hringir.) er örugglega fordæmalaust. Ég segi nei.